Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 763. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1607  —  763. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum (innheimta iðgjalds).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Kjartan Gunnarsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Sigrúnu Helgadóttur og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, Sigríði Benediktsdóttur og Jónas Þórðarson frá Seðlabanka Íslands, Hjálmar Brynjólfsson og Tómas Sigurðsson frá Fjármálaeftirlitinu, Jón Gunnar Jónsson frá Bankasýslu ríkisins, Yngva Örn Kristinsson og Jón Guðna Ómarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Ragnar F. Ólafsson. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Bankasýslu ríkisins, Sambandi íslenskra sparisjóða, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Sparisjóði Höfðhverfinga, Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta og Ragnari F. Ólafssyni.
    Í b-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að breytingar sem gerðar voru til bráðabirgða með lögum nr. 55/2011 á lögum nr. 98/1999, sjá ákvæði til bráðabirgða II, verði teknar upp í meginmál laganna. Lagt er til að iðgjöld verði samtala almenns iðgjalds og iðgjalds sem er reiknað á grundvelli áhættustuðuls, gjalddagi verði fjórum sinnum á ári, iðgjöldin verði innt af hendi í íslenskum krónum eins og greiðslur úr sjóðnum sem verði í íslenskum krónum. Frumvarpsgreinin mælir líkt og núgildandi ákvæði til bráðabirgða fyrir um framkvæmd innheimtu iðgjalds, heimild til endurgreiðslu þess vegna ofgreiðslu, upplýsingagjöf innlánsstofnana og afleiðingar þess að henni er ekki sinnt eða iðgjöld ekki greidd á réttum tíma.
    Helstu breytingar sem fram koma í frumvarpsákvæðinu frá gildandi bráðabirgðaákvæði eru þær að almenna iðgjaldið lækkar, úr 0,3% í 0,235%, og skilgreiningu hugtaksins innstæða verður breytt en um síðarnefndu breytinguna vísast nánar til 5. gr. frumvarpsins. Einnig er lagt til það nýmæli að stjórn tryggingarsjóðsins fái heimild til að veita frest til greiðslu iðgjalds ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
    Tryggingarsjóðurinn mun skv. a-lið 2. gr. og 7. gr. frumvarpsins starfa framvegis í þremur sjálfstæðum deildum og munu iðgjöld samkvæmt núgildandi ákvæði til bráðabirgða og framtíðariðgjöld renna til A-deildar. Lagt er til í 3. og 9. gr. að eignir innstæðudeildar og skuldbindingar eins og þær voru við gildistöku laga nr. 55/2011, sem samþykkt voru 31. maí 2011, tilheyri B-deild sem á að leggjast af þegar staðin hafa verið skil á þeim skuldbindingum. Þriðja deild sjóðsins er verðbréfadeild.
    Fulltrúar efnahags- og viðskiptaráðuneytisins áréttuðu að á meðan ekki lægi fyrir hvernig framtíðarskipulagi innstæðutrygginga yrði háttað innan Evrópusambandsins væri enn ekki tímabært að leggja fram frumvarp til heildarendurskoðunar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Í kjölfar óróa á fjármálamörkuðum var lágmarksvernd tryggðra innstæðna hækkuð innan sambandsins úr 20 þús. evrum í 100 þús. evrur fyrir lok árs 2010 í þeim tilgangi að viðhalda trausti innstæðueigenda og fjármálalegum stöðugleika. Umrædd breyting var skammtímaráðstöfun gerð í ljósi aðstæðna en fól jafnframt í sér skuldbindingu um að unnið yrði að heildarendurskoðun innstæðutryggingakerfisins þar sem hugað yrði að frekari samræmingu innan einstakra aðildarríkja, m.a. á umfangi tryggðra innstæðna og fjármögnun tryggingarsjóða auk þess sem kanna átti möguleika á stofnun samevrópsks tryggingarsjóðs. Þessi vinna hefur enn ekki verið til lykta leidd og sennilegt að bið eftir henni tengist úrlausn á víðtækum skuldavanda einstakra aðildarríkja sem talsverður ágreiningur er um hvernig bregðast eigi við.
    Einnig setur strik í reikninginn það vandrataða meðalhóf sem fara þarf milli þess að heimila innlánsstofnunum að veita þjónustu sína yfir landamæri og þess að heimaríkið eitt beri hallann ef illa fer í rekstrinum eins og reynsla Íslands hefur varpað glöggu ljósi á. Komið hefur fram að almennt hafi innstæðutryggingakerfin ekki verið sniðin að því að standa undir falli heils fjármálakerfis. Í Icesave-málinu, sem bíður dóms EFTA-dómstólsins, verður skorið úr um hverjum standi næst að bera ábyrgð gagnvart innstæðueigendum þegar slíkt gerist. Leggur nefndin áherslu á sérstöðu Íslands og mikilvægi þess að fá hana viðurkennda. Er í því sambandi lögð áhersla á að ríkisstjórnin, fyrir upphaf haustþings 2012, hafi skýrt sérstöðu Íslands og greint með hvaða hætti megi taka tillit til hennar. Verði afraksturinn kynntur fyrir nefndinni og í framhaldi fyrir fulltrúum ESB.
    Með hliðsjón af samþjöppun á íslenskum fjármálamarkaði og smæð hagkerfisins hefur verið bent á þá sérstöðu Íslands að uppsöfnun iðgjalda muni taka langan tíma og ekki sé raunhæft að ætla að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta geti í náinni framtíð staðið undir því að tryggja innstæður að fjárhæð 100 þús. evrur ef til þess kæmi að einn af stærri bönkum fjármálakerfisins félli þar sem um 95% innstæðna eru í aðeins þremur bönkum. Raunhæfari vernd felist í því að tryggja forgang innstæðna við fall fjármálafyrirtækja eins og gert var með neyðarlögunum svonefndu, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Bankasýsla ríkisins bendir á að slíkt fyrirkomulag lágmarki áhættu tryggingarsjóðsins og af því beri að taka mið við útreikning iðgjalds.
    Fulltrúar banka og sparisjóða sem komið hafa á fund nefndarinnar fagna almennt þeirri breytingu frumvarpsins að lækka almenna iðgjaldið en telja að tilefni sé til að ganga lengra. Samtök fjármálafyrirtækja vísuðu til álits meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (þskj. 512) sem stendur í tengslum við upptöku fjársýsluskatts og sérstaks fjársýsluskatts, sbr. lög nr. 165/2011, þar sem gert var ráð fyrir að dregið yrði úr föstum álögum á fjármálakerfið með lækkun gjalds á komandi missirum.
    Nefndin bendir á í þessu sambandi að í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið er gert ráð fyrir að árlegar tekjur sjóðsins af iðgjöldum verði að hámarki rúmir 4 milljarðar kr. á næstu árum. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið áætlar að heildariðgjöld vegna 2011 hafi numið um 5,5 milljörðum kr. Í frumvarpinu hafi hlutfallstala almenns iðgjalds verið lækkuð úr 0,3% frá fyrra ári í 0,235%, sem áætlað er að verði til þess að tekjur af samanlögðu iðgjaldi, þ.e. almennu iðgjaldi og áhættuvegnu, gefi um einum milljarði minna á árinu 2012. Samtök fjármálafyrirtækja taka fram að samkomulag hafi tekist með þeim og ráðuneytinu um að lækka grunniðgjaldið enn frekar eða niður í 0,2%. Nefndin leggur til að grunngjaldið lækki í 0,225% sem samkvæmt áætlunum ráðuneytisins er ætlað að skila 4,3 milljörðum kr.
    Samband íslenskra sparisjóða og fulltrúar einstakra sparisjóða hafa einnig lagt áherslu á viðkvæma stöðu þeirra sparisjóða sem eftir standa eftir fall fjármálakerfisins og þá staðreynd að sjóðirnir eigi almennt ekki annars kost en að standa undir iðgjöldum með tekjum af vaxtamun sem viðskiptavinirnir bera hallann af. Þeir hafa auk þess bent á að til standi að starfsheimildir sjóðanna verði að lögum bundnar við hefðbundna viðskiptabankastarfsemi til aðgreiningar frá fjárfestingarstarfsemi en með því sé dregið úr áhættu í rekstri þeirra. Sjóðirnir leggja til að almenni hluti iðgjaldsins lækki í 0,15% sem er sama hlutfallstala og greidd var fyrir hrun, sbr. 6. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Jafnframt telja þeir eðlilegt að við útreikning iðgjalds sem reiknað er á grundvelli áhættustuðuls verði tekið mið af lausafjárstöðu viðkomandi fjármálafyrirtækis samhliða mati á fjármögnun þess. Bankasýsla ríkisins sem átt hefur ríka aðkomu að endurskipulagningu sparisjóðakerfisins hvetur til þess að Fjármálaeftirlitið birti nákvæma skilgreiningu á þeim áhættustuðlum sem notaðir eru við útreikninginn sem hún telur að íþyngi minni fjármálafyrirtækjum sérstaklega eins og sakir standa.
    Efnahags- og viðskiptaráðuneytið telur ekki að framangreindar athugasemdir gefi tilefni til breytinga á þeim aðferðum sem liggja til grundvallar útreikningi iðgjalds samkvæmt frumvarpinu og bendir á að stuðst sé við þá aðferð sem líklegt sé að verði ofan á í nýju regluverki Evrópska efnahagssvæðisins.
    Sjónarmið komu fram við meðferð málsins um að óvarlegt væri að hreyfa við orðalagi skilgreiningar á innstæðu sem leiða má af samanburði 2. tölul. 5. gr. frumvarpsins og 14. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur lýst sig sammála þeim varnaðarorðum og lagt til við nefndina að áfram verði stuðst við orðalag bráðabirgðaákvæðisins. Fellst nefndin á það og bendir á að ráðuneytið hafi við meðferð málsins ekki fallist á sjónarmið Seðlabankans sem telur ekki þörf á að undanþiggja innstæður fyrirtækja tryggingavernd í þeim tilvikum þegar lánastofnanir hafa tímabundið tekið fyrirtækin yfir vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar.
    Seðlabanki Íslands telur með hliðsjón af fjármálastöðugleika að mikilvægt sé að tryggja að greiðslur úr A-deild sjóðsins verði í íslenskum krónum eins og gert er í 9. mgr. b-liðar 2. gr. frumvarpsins. Bankinn telur þó tilefni til að bæta við ákvæði sem varðar gengisviðmið vegna gengisbundinna innlána en að mati ráðuneytisins er ekki talin þörf á slíkri breytingu með hliðsjón af þeim lagaheimildum sem bankinn hefur til að tryggja eðlilegan gjaldeyrisjöfnuð innlánsstofnana í tengslum við gengisbundin innlán.
    Í tengslum við 3. og 9. gr. frumvarpsins sem varða B-deild sjóðsins voru gerðar athugasemdir um að ekki væri enn ljóst í hverju skuldbindingar sem þar er vísað til séu fólgnar. Hliðstæðar athugasemdir virðast hafa verið gerðar við umfjöllun viðskiptanefndar um frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra til heildarlaga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta á síðasta löggjafarþingi (237. mál á 139. löggjafarþingi) á þeim grundvelli að aðskilnaður A- og B-deildar sjóðsins væri ekki nægilega vel tryggður. Nefndin bendir á í þessum sambandi að af orðalagi a-liðar 2. gr. um að sjóðurinn starfi í þremur sjálfstæðum deildum verði ekki annað ráðið en að hver deild sé með aðskilinn fjárhag og þær beri ekki ábyrgð á skuldbindingum hverrar annarrar.
    Við umfjöllun málsins fór Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta þess á leit að orðalagi síðari málsliðar b-liðar 6. mgr. 2. gr. varðandi heimild til endurgreiðslu vegna ofgreiðslu yrði breytt með vísan til þess að ofgreiðslu mætti oftar rekja til mistaka við flokkun innstæðna fremur en útreiknings iðgjalds. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið tók ekki undir þau sjónarmið og leggur nefndin því til að orðalagið haldist óbreytt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Í stað hlutfallstölunnar „0,235%“ í 3. mgr. b-liðar 2. gr. komi: 0,225%.
     2.      Efnismálsgrein 2. tölul. 5. gr. orðist svo:
                  Með innstæðu er átt við inneign á reikningi í eigu viðskiptamanns hjá innlánsstofnun, að meðtöldum áföllnum vöxtum og verðbótum, og millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sem innlánsstofnun ber að endurgreiða samkvæmt lögum og umsömdum skilmálum, og hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun. Lántökur innlánsstofnunar, eiginfjárreikningar, heildsöluinnlán og safnreikningar, aðrir en reikningar innlánsleiða vörsluaðila lífeyrissparnaðar, teljast ekki til innstæðna.
     3.      Í stað 7., 8. og 9. gr. komi ein ný grein er orðist svo:
                  Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
        a. (III.)
                     Þær greiðslur sem voru inntar af hendi á árinu 2011 og verða inntar af hendi á árinu 2012 til sjálfstæðrar deildar sjóðsins á grundvelli ákvæða til bráðabirgða I og II, sbr. lög nr. 15/2011 og nr. 55/2011, skulu renna til A-deildar sjóðsins.
        b. (IV.)
                     Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. b skal gjalddagi vegna 1. og 2. ársfjórðungs 2012 vera 1. september 2012.
        c. (V.)
                     B-deild sjóðsins skal lögð niður þegar staðið hefur verið við skuldbindingar sem á deildinni hvíla við gildistöku ákvæðis þessa. Þeir fjármunir sem þá eru í B-deildinni skulu renna til A-deildar sjóðsins.

    Guðlaugur Þór Þórðarson, Tryggvi Þór Herbertsson, Birkir Jón Jónsson og Lilja Mósesdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Þráinn Bertelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. júní 2012.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Skúli Helgason.




Guðlaugur Þór Þórðarson,      með fyrirvara.


Tryggvi Þór Herbertsson,      með fyrirvara.


Birkir Jón Jónsson,


með fyrirvara.



Lilja Mósesdóttir,


með fyrirvara.


Magnús M. Norðdahl.