Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 393. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Nr. 48/140.

Þingskjal 1630  —  393. mál.

Þingsályktun

um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022.


    Alþingi ályktar, sbr. lög um samgönguáætlun, nr. 33/2008, að á árunum 2011–2022 skuli unnið að samgöngumálum í samræmi við áætlun þessa sem felur í sér:
     a.      stefnumótun í samgöngumálum og helstu markmið sem vinna skal að,
     b.      skilgreiningu á grunnneti samgöngukerfisins sem nær til alls landsins og er ætlað að tryggja landsmönnum greiðar samgöngur,
     c.      áætlun um fjáröflun til samgöngumála,
     d.      yfirlit um útgjöld til allra helstu þátta í rekstri samgöngustofnana, svo og viðhalds, öryggismála og nýframkvæmda á sviði flugmála, siglingamála og vegamála.

1.    STEFNUMÓTUN
1.1 Markmið um greiðar samgöngur
    Aðgengi og hreyfanleiki í samgöngukerfinu fyrir flutninga á fólki og vörum innan og á milli svæða verði bætt. Sköpuð verði skilyrði fyrir flesta landsmenn til að komast til atvinnu- og þjónustukjarna á innan við einni klukkustund.
    Skilgreindir verði atvinnu- og þjónustukjarnar landsins í sóknaráætlunum landshluta og landsskipulagsstefnu.
    Samgöngur styrki uppbyggingu og þróun þjónustusvæða í öllum landshlutum.
    Skilgreindar verði hafnir og flugvellir sem tryggja eiga greiðar samgöngur til og frá landinu.

Áherslur til að ná þessu markmiði eru m.a.:
     a.      Grunnnet samgangna á landi, í lofti og á sjó verði byggt upp með hliðsjón af sóknaráætlunum landshluta og tillögum um forgangsröðun framkvæmda, byggðum á félagshagfræðilegri greiningu.
     b.      Þjónusta í grunnnetinu innan og á milli svæða verði bætt.
     c.      Grunnnet samgangna verði endurskilgreint. Jafnframt verði litið til þróunar í flutningaþjónustu með tilliti til þjónustusvæða og flutningaleiðir formlega skilgreindar. Á flutningaleiðum verði lögð áhersla á að vegir verði með nægjanlegt burðarþol allt árið, breidd þeirra verði nóg og þeir lagðir bundnu slitlagi. Fyrir þennan hluta grunnkerfisins verði sett markmið um hraða uppbyggingu vega til að þjóna atvinnulífinu með viðunandi hætti, auk þess að stuðla að auknu umferðaröryggi.
     d.      Lokið verði við endurbyggingu allra helstu stofnleiða á landi og tengingu þeirra við þéttbýli, þar sem eru hundrað íbúar og fleiri, með bundnu slitlagi og viðunandi burðarþoli. Gert verði sérstakt átak við lagningu á bundnu slitlagi á umferðarlitla vegi sem hafa viðunandi burðarþol þrátt fyrir að veghönnun sé að einhverju leyti ábótavant.
     e.      Almenningssamgöngur milli þéttbýlisstaða og innan þéttbýlis verði efldar. Öflugar almenningssamgöngur eru greiðar og auka hreyfanleika og aðgengi. Við skipulag þeirra verði höfð hliðsjón af þjóðhagslegri hagkvæmni og stuðlað að umhverfislega sjálfbærri þróun. Landshlutasamtök sveitarfélaga taki yfir almenningssamgöngur á landi sem hingað til hafa verið ríkisstyrktar. Öll fjárframlög verði sameinuð vegna sérleyfa, einkaleyfa og skólaaksturs í hverjum landshluta. Þannig verði þjónusta færð að þörfum samfélagsins og almenningssamgöngur milli þéttbýlisstaða í hverjum landshluta efldar með grenndarstjórnsýslu og bættri nýtingu fjármagns.
     f.      Gerð verði félagshagfræðileg úttekt á framtíð áætlunarflugs innan lands. Teknar verði upp viðræður milli ríkisins og Reykjavíkurborgar og tryggt að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt.
     g.      Hjólandi og gangandi vegfarendum verði auðveldað að komast leiðar sinnar. Skapaðar verði aðstæður til að ganga og hjólreiðar í þéttbýli verði greiður og öruggur samgöngumáti.
     h.      Tryggt verði aðgengi fyrir fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga að mannvirkjum og þjónustu samgöngukerfisins. Fjölbreyttar þarfir ólíkra þjóðfélagshópa til lífsgæða, ferðamáta og hreyfanleika verði hafðar í huga við stefnumótun og áætlanagerð.
     i.      Efld verði samskipti skipulagsyfirvalda sveitarfélaga og samgönguyfirvalda.
     j.      Samgönguyfirvöld fylgist áfram náið með þróun á þjóðhagslegri hagkvæmni land- og strandflutninga. Á áætlunartímabilinu verði áfram unnið að greiningum og samanburðarrannsóknum með það að markmiði að aðkoma ríkisins í útgjöldum og skattlagningu stuðli að auknu jafnræði milli flutningamáta.
     k.      Hugað verði sérstaklega að þörfum ferðaþjónustu við uppbyggingu og rekstur samgöngukerfisins. Markaðssvæði ferðaþjónustu verði höfð til hliðsjónar við mótun samgönguáætlunar.
     l.      Tækni verði nýtt til að afla og miðla upplýsingum um aðstæður til samgangna í lofti, láði og legi.

1.2 Markmið um hagkvæmar samgöngur
    Hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgöngukerfisins verði aukin. Áhersla verði lögð á að leita hagkvæmustu lausna til að ná markmiðum samgönguyfirvalda. Gagnsæ verðlagning á samgöngum er liður í því og þarf hún að endurspegla kostnað sem þeim fylgir.
    Horft verði á samgöngukerfið sem eina heild. Nýir innviðir verði skipulagðir og forgangsraðað með hliðsjón af félagshagfræðilegri greiningu.
    Stutt verði við aðgerðir sem stuðla að breyttum ferðavenjum til að draga úr þörf á uppbyggingu umferðarmannvirkja í þéttbýli.

Áherslur til að ná þessu markmiði eru m.a.:
     a.      Unnið verði að því að þróa áfram og festa í sessi formlegt verklag við ákvarðanir um uppbyggingu vegakerfisins í dreifbýli og þéttbýli þar sem kostnaður og ábati mismunandi leiða að markmiðum samgönguyfirvalda er borinn saman.
     b.      Kannaður verði samfélagslegur kostnaður við þungatakmarkanir á vegum, ábati þess að draga úr tíðni þungatakmarkana og hraða endurbótum á burðarþoli tiltekinna vegarkafla.
     c.      Upplýsingasöfnun og miðlun á haggögnum um samgöngur verði bætt. Gagnsæi í gjaldtöku og samgöngukostnaði ríkisins verði aukið. Upplýsingar um tekjur og kostnað hins opinbera við flutning á hverri einingu í fólks- og vöruflutningum verði birtar eftir því sem tök eru á og uppfærðar reglulega.
     d.      Greindur verði ávinningur af áhrifum aukinnar notkunar eignastýringar (e. asset management), þ.e. kerfisbundnu bókhaldslegu utanumhaldi samgöngumannvirkja.
     e.      Á áætlunartímabilinu verði breytt skipan á gjaldtöku fyrir umferð á vegum könnuð. Greindir verði kostir og gallar þess að í framtíðinni greiði ökutæki í samræmi við ekna vegalengd þar sem tillit yrði tekið til ytri kostnaðar jafnhliða því að núverandi kerfi sérstakra eldsneytisskatta yrði lagt niður.
     f.      Upplýsingatækni, leiðsögukerfi og aðrir möguleikar sem tæknin býður upp á verði nýttir í þeim tilgangi að auka hagkvæmni í rekstri og nýtingu samgöngukerfisins.
     g.      Við vinnslu sjálfbærrar samgönguáætlunar með sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu leggi samgönguyfirvöld áherslu á að skipulag landnotkunar stuðli að breyttum ferðavenjum. Unnin verði greining og tillaga að hliðrun á opnunartíma og starfsemi stórra opinberra stofnana til að minnka álagstoppa í morgunumferð einkabíla og almenningsvagna.

1.3 Markmið um umhverfislega sjálfbærar samgöngur
    Dregið verði úr neikvæðum umhverfisáhrifum samgangna með það að markmiði að þær verði umhverfislega sjálfbærar. Stefnt verði að því að losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna verði undir 750 Gg (750 þúsund tonnum) árið 2020, sem er 23% samdráttur frá 2008. Markmiðið er í samræmi við aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.
    Áætlun um sjálfbærar samgöngur verði unnin í samvinnu við sveitarfélög með aukna áherslu á almenningssamgöngur, göngu og hjólreiðar með þau markmið að leiðarljósi að draga úr umhverfisáhrifum, samgöngukostnaði og auka nærþjónustu við borgarana. Með áætluninni verði dregið úr mikilvægi einkabíla, ásamt því að draga úr orkuþörf samgangna og breyta ferðavenjum. Til að ná umhverfis- og hagkvæmnimarkmiðum með eflingu almenningssamgangna, göngu og hjólreiða þarf bæði fjármagn og þolinmæði. Í sjálfbærri samgönguáætlun verði settar fram skuldbindingar ríkis og sveitarfélaga til langs tíma.
    Dregið verði markvisst úr hávaða- og loftmengun frá samgöngum og þeim haldið innan viðmiðunargilda í stöðlum Evrópusambandsins.
    Markvissar aðgerðir miði að minni notkun jarðefnaeldsneytis og að samgöngutæki nýti orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum, auk orkusparandi aðgerða fyrir eldri farartæki.
    Efldar verði rannsóknir sem miða að sjálfbærni í framleiðslu á vistvænum orkugjöfum og aukinni hagkvæmni samgöngukerfisins, m.a. með stuðningi við þróun og uppbyggingu innviða og þróun og framleiðslu á innlendu vistvænu eldsneyti.

Áherslur til að ná þessu markmiði eru m.a.:
     a.      Með sjálfbærri samgönguáætlun í samvinnu við sveitarfélögin verði lokið við skilgreiningu á grunnneti hjólreiðastíga innan helstu þéttbýliskjarna. Fjármagni samgönguáætlunar til göngu- og hjólreiðastíga verði forgangsraðað í uppbyggingu á því neti á áætlunartímabilinu. Einnig verði lokið við skilgreiningu á grunnneti almenningssamgangna innan þéttbýlis. Áfram verði unnið að auknum forgangi almenningssamgangna í umferðinni með uppbyggingu sérreina, forgangi á umferðarljósum og öðrum aðgerðum.
     b.      Unnin verði aðgerðaáætlun um aukin loftgæði í helstu þéttbýliskjörnum í samstarfi við sveitarfélögin. Kortlagningu umferðarhávaða verði lokið og tilheyrandi framkvæmdaáætlun unnin. Þessum áætlunum verði hrint í framkvæmd á fyrsta tímabili samgönguáætlunar.
     c.      Auk tæknilegra lausna verði með fræðslu, hagrænum hvötum og skipulagsaðgerðum stuðlað að breyttum ferðavenjum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
     d.      Unnið verði tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna í samræmi við viljayfirlýsingu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, fjármálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis og Vegagerðarinnar. Aðilar eru sammála um að vinna að samningi sem byggist m.a. á þeim forsendum að ríkið skuldbindi sig til að leggja fjármagn í rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og áhrifasvæði þess í tíu ára tilraunaverkefni ef á móti koma skuldbindingar sveitarfélaga um mótframlag, markvissar stuðningsaðgerðir og sátt um frestun stórra vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Framlag ríkisins verði af stærðargráðunni 1.000 millj. kr. á ári. Meginmarkmiðið verði a.m.k. að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu. Árangur af þessu tilraunaverkefni verði metinn í framvindumati á tveggja ára fresti og framlög verði þá endurskoðuð.
     e.      Stuðlað verði að nýtingu umhverfislega skilvirkra orkugjafa (kr./tonn CO 2-ígildi).
     f.      Breytt verði skattlagningu á ökutæki með það að markmiði að hvati sé til kaupa á sparneytnum ökutækjum og eins þeim sem nota umhverfisvæna orkugjafa.
     g.      Sérleyfi og einkaleyfi til aksturs verði háð skilyrðum um umhverfisvæn samgöngutæki í þeim tilgangi að akstur í atvinnuskyni, sem krefst leyfa, verði í auknum mæli visthæfur. Jafnframt verði gerðar kröfur um að kaup ríkisins á akstursþjónustu séu háð skilyrðum um visthæf ökutæki. Stofnunum ríkisins verði sett ákveðin skilyrði um að þær leitist við að nota ökutæki sem eru sparneytin og hafa lágt CO 2-gildi í útblæstri.
     h.      Samgöngustofnanir ríkisins taki upp vistvæna samgöngustefnu sem stuðli að orkusparnaði og orkuskiptum og verði öðrum stofnunum til fyrirmyndar í þeim efnum. Stjórnvöld vinni með fyrirtækjum og stofnunum að því að móta og útfæra markvissa samgöngustefnu fyrir vinnustaði.
     i.      Stefnt verði að 3% samdrætti í losun koldíoxíðs (CO 2) frá flugi árið 2012 og 5% samdrætti á tímabilinu 2013–2020. Eru þar höfð til viðmiðunar árin 2004–2006. Markmiðið er í samræmi við stefnu ESB.
     j.      Innleitt verði umhverfisvænt verklag um grænt aðflug og brottflug og vottun á umhverfisstjórnunarkerfi flugvalla.
     k.      Auknar verði rannsóknir á umhverfisvænum orkugjöfum, orkusparnaði og aðgerðum til að draga úr mengun vegna brennisteins, kolmónoxíðs (CO), koltvísýrings (CO 2) og niturefna (NO x) frá skipavélum.
     l.      Dregið verði úr útblæstri frá skipum í höfnum landsins með uppbyggingu fyrir landtengingu við rafmagn og endurskoðun gjaldskrár.
     m.      Almenn fræðsla um akstur og aksturslag (vistakstur) verði aukin í þeim tilgangi að draga úr mengun og hávaða frá bílaumferð. Kennsla í vistakstri í ökunámi verði efld.
     n.      Tryggð verði góð tenging og flæði bifreiða milli umferðarljósa á álagstímum verði bætt til þess að draga úr mengun á fjölförnum leiðum.
     o.      Staðbundin loftgæði verði aukin með því að gera sveitarfélögum kleift með lagasetningu að skilgreina sérstök umhverfissvæði og um leið að takmarka þar umferð. Dregið verði úr svifryki frá framkvæmdasvæðum, t.d. með auknum kröfum um rykbindingu, dekkjaþvott og áfangaskipta efnistöku.

1.4 Markmið um öryggi í samgöngum
    Stefnt verði markvisst að því að auka öryggi í samgöngum og unnið að því á gildistíma áætlunarinnar að draga verulega úr líkum á alvarlegum slysum eða banaslysum. Gerðar verði sérstakar aðgerðaáætlanir í því skyni á öllum sviðum samgangna með mælanlegum undirmarkmiðum sem miði að því að ná yfirmarkmiðinu. Aðgerðaáætlanir verði hluti af hverri fjögurra ára samgönguáætlun og því endurskoðaðar á tveggja ára fresti.
    Markvisst verði unnið að því að innleiða öryggisstjórnunarkerfi fyrirtækja á öllum sviðum samgangna þar sem þau eru ekki lögð til grundvallar í atvinnustarfsemi.
    Tryggður verði áfram trúverðugleiki Íslands með því að standast úttektir alþjóðlegra stofnana um fyrirkomulag á eftirliti með öryggi.

Áherslur til að ná þessu markmiði eru m.a.:
     a.      Flugöryggi markast af alþjóðlegum kröfum. Á gildistíma áætlunarinnar verði lögð áhersla á að innleiða nýjar kröfur Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA), m.a. um flugleiðsögu, flugvelli, flugrekstur, þjálfunar- og skírteinamál, auk breytinga á kröfum um lofthæfi.
             Fest verði í sessi eftirlitskerfi sem skilgreint er í áætlun um flugöryggi samkvæmt kröfum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og samsvarandi áherslum frá Evrópu. Mikilvægir þættir eru að tryggja að fyrir hendi sé nauðsynleg sérfræðiþekking, markviss þjálfun, verklag um gagnagreiningu til að stýra og aðlaga eftirlit að þeim verkefnum sem efst eru á baugi og krefjast viðeigandi aðgerða. Hvað varðar flug sem ekki er fjallað um á alþjóðlegum vettvangi, t.d. fisflug og lendingarstaði (minni flugvelli), þá verði tekið á þeim þáttum með setningu fyllri innlendra reglna eftir því sem nauðsyn krefur.
     b.      Meginmarkmið áætlunar um öryggi sjófarenda verði eftirfarandi:
             Stefnt að því að dauðaslysum á sjó fækki um 5% á ári á tímabilinu 2011–2022 eða í 1,2 dauðaslys á hverja tíu þúsund starfandi sjómenn árin 2020–2022.
             Stefnt að því að skipssköðum fækki um 5% á ári á tímabilinu 2011–2022 eða í 0,5 skipskaða.
             Stefnt að því að slysum tilkynntum til Tryggingastofnunar fækki um 5% á ári á tímabilinu 2011–2022 eða í 162 tilkynnt slys á hverja tíu þúsund sjómenn árin 2020–2022.
             Helstu áherslur næstu ára verði markmið um fækkun slysa um borð í skipum, aukin öryggisvitund með innleiðingu öryggisstjórnunarkerfa og eigin skoðun skipa til að auka vitund sjómanna um öryggisatriði. Lögð verði áhersla á slysaskráningu og gagnagrunn til að efla markvissar aðgerðir til að fækka slysum. Með miðlun upplýsinga um veður og sjólag verði óhöppum á fiskiskipum haldið í lágmarki. Haldið verði áfram rannsóknum um öryggi skipa og þá sérstaklega atriðum er lúta að tillögum Rannsóknarnefndar sjóslysa í öryggisátt og áhættumati minni farþegaskipa í sjólagi.
             Nýjar reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) verði fullgiltar og reglur Siglingaöryggisstofnunar Evrópu (EMSA) innleiddar svo fljótt sem verða má. Með markvissum rannsóknum og þátttöku í starfi alþjóðastofnana á sviði öryggismála verði tryggt að alþjóðlegar reglur taki mið af íslenskum aðstæðum. Enn fremur verði vinnu við reglur um farþegaskip haldið áfram þannig að heildstætt regluverk sem nær yfir allar stærðir farþegaskipa líti dagsins ljós.
     c.      Meginmarkmið umferðaröryggisáætlunar til ársins 2022 verði eftirfarandi:
             Að fjöldi látinna í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa verði ekki meiri en það sem lægst gerist hjá öðrum þjóðum árið 2022.
             Að fjöldi látinna og alvarlega slasaðra minnki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2022. Stjórnvöld rannsaki kosti og galla þess að taka upp „núllsýn“ í öryggismálum, m.a. á forgangsröðun verkefna, kostnað og hönnunarreglur. Núllsýnin verði borin saman við aðrar leiðir sem hafa reynst vel erlendis. Niðurstöður liggi fyrir á fyrsta tímabili samgönguáætlunar.
             Haldið verði áfram að lagfæra staði þar sem mörg slys hafa orðið og bæta umhverfi vega til að draga úr hættu á alvarlegum slysum við útafakstur. Jafnframt verði lögð áhersla á framkvæmdir við aðgreiningu akstursstefna á umferðarmestu vegum. Hraðamyndavélum verði fjölgað. Könnuð verði sú leið að tekjur af sektargreiðslum standi undir kostnaði vegna myndavéla.
             Rannsóknum á ýmsum þáttum er varða umferðaröryggi verði haldið áfram. Í kjölfar innleiðingar á tilskipun ESB um öryggisstjórnun vegakerfa verði viðeigandi vinnureglur teknar upp.
             Markvisst eftirlit og áróður verði fyrir notkun öryggisbúnaðar, svo sem bílbelta og búnaðar fyrir börn. Eftirlit með hraðakstri, ölvunar- og vímuefnaakstri verði aukið. Áróðri verði haldið áfram en einnig gegn öðrum þáttum er snerta umferðaröryggi, þar á meðal notkun farsíma undir stýri og þreytu við akstur. Með fjölgun óvarinna vegfarenda verði öryggismálum bifhjólamanna, hjólreiðamanna og gangandi vegfarenda gerð betri skil. Unnið verði að gerð fræðsluefnis fyrir aldurshópa frá leikskólaaldri og að ökuréttindaaldri. Lögð verði áhersla á að gera umferðarfræðslu að veigameiri þætti í námskrám grunnskóla og framhaldsskóla. Unnið verði að því að fá sveitarfélög til þess að gera áætlanir um umferðaröryggi.
             Rannsóknarvinnu verði fram haldið en í þeim efnum er upplýsingasöfnun og vinnsla þeirra nauðsynleg undirstaða. Skráning á umferðarslysum verði bætt, enda er hún mikilvæg. Unnið verði að því að þróa ökunám og ökupróf til samræmis við það sem best þekkist erlendis. Unnið verði að upplýsingamiðlun um upplýsinga- og sjálfstýringakerfi ökutækja (e. intelligent transportation system). Einnig verði unnið áfram að bættri miðlun upplýsinga um veður og færð á vegum á netinu og með breytilegum upplýsingaskiltum.
             Vegfarendum verði tryggt öruggt og heilnæmt umhverfi, óháð ferðamáta. Sérstaklega verði hugað að öryggi samgöngumáta, t.d. hjólreiða, sem fara hratt vaxandi og slysatíðni er óljós.

1.5 Markmið um jákvæða byggðaþróun
    Samgöngur tengja saman fólk og byggðir. Í samræmi við sóknaráætlun og svæðaskiptingu landsins verði við forgangsröðun framkvæmda tekið mið af þörfum einstakra svæða fyrir bættar samgöngur til að efla sveitarfélög, styrkja hvert svæði og landið allt.
    Stytting ferðatíma, uppbygging vega með bundnu slitlagi og gerð jarðganga til að leysa af hólmi erfiða fjallvegi skapa betri skilyrði fyrir jákvæða byggðaþróun og eflingu einstakra atvinnu- og þjónustusvæða.
    Markmiðið er að samþætta samgönguáætlun við aðra áætlanagerð og opinbera stefnumótun. Þannig má öðlast sameiginlega framtíðarsýn fyrir alla landshluta til að efla atvinnulíf og lífsgæði, og hámarka hagkvæma nýtingu á samgöngumannvirkjum og þjónustu.

Áherslur til að ná þessu markmiði eru m.a.:
     a.      Við forgangsröðun framkvæmda verði tekið tillit til sóknaráætlana landshluta.
     b.      Atvinnulífi verði skapað aðgengi að greiðum og hagkvæmum vöruflutningum að markaðssvæðum.
     c.      Unnið verði að styttingu flutningaleiða.
     d.      Reykjavíkurhöfn er aðal inn- og útflutningshöfn landsins og Keflavíkurflugvöllur aðal inn- og útflutningsflugvöllurinn. Tryggðar verði eins greiðar tengingar fyrir landsbyggðina við þessar alþjóðlegu megingáttir og kostur er. Til að stuðla að hagkvæmum flutningum innan einstakra landsvæða verði jafnframt skilgreindar og skipulagðar samgöngumiðstöðvar í hverjum landshluta.

2.    GRUNNNETIÐ
2.1 Skilgreining
    Grunnnet vegakerfisins eru stofnvegir eins og þeir eru skilgreindir í 8 gr. vegalaga:
    „Til stofnvega teljast vegir sem tengja saman byggðir landsins. Við það vegakerfi sem þannig fæst skal tengja þéttbýlisstaði með um það bil 100 íbúa eða fleiri. Til stofnvega teljast einnig umferðarmestu vegir sem tengja saman sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Einnig vegir á hálendinu sem mikilvægir eru fyrir flutninga og ferðaþjónustu. Þar sem stofnvegur endar í þéttbýli skal hann ná að fyrstu þvergötu sem tilheyrir gatnakerfi þéttbýlisins og enda þar. Þó er heimilt að láta stofnveg ná til flugvallar og hafnar sem mikilvæg eru fyrir ferðaþjónustu og flutninga.“
    Til grunnnetsins teljast einnig helstu flugvellir og flugleiðir, helstu hafnir og ferju- og siglingaleiðir meðfram ströndinni og inn á hafnir. Á sama hátt teljast siglingaleiðir og flugleiðir til og frá landinu til grunnnets samgöngukerfisins.

Flug
    Flugvellir í grunnneti skulu vera:
Keflavík
Reykjavík
Bíldudalur
Ísafjörður
Gjögur
Sauðárkrókur
Akureyri
Grímsey
Þórshöfn
Vopnafjörður
Egilsstaðir
Höfn í Hornafirði
Vestmannaeyjar

Hafnir
    Hafnir í grunnneti skulu vera:
Faxaflóahafnir
     Reykjavíkurhöfn
    Grundartangahöfn
    Akraneshöfn

Snæfellsbæjarhafnir
     Rifshöfn
    Ólafsvíkurhöfn

Grundarfjarðarhöfn
Stykkishólmshöfn (ferjuleið)
Vesturbyggðarhafnir
     Brjánslækjarhöfn (ferjuleið)
    Bíldudalshöfn

Bolungarvíkurhöfn
Ísafjarðarhöfn
Skagastrandarhöfn
Sauðárkrókshöfn
Hafnir Fjallabyggðar
     Siglufjarðarhöfn
    Ólafsfjarðarhöfn

Hafnir Dalvíkurbyggðar
    Dalvíkurhöfn (ferjuleið)
    Árskógssandshöfn (ferjuleið)


Hafnasamlag Norðurlands
     Hríseyjarhöfn (ferjuleið)
    Akureyrarhöfn
    Grímseyjarhöfn (ferjuleið)

Húsavíkurhöfn
Þórshafnarhöfn
Vopnafjarðarhöfn
Seyðisfjarðarhöfn (ferjuleið til Evrópu)
Hafnir Fjarðabyggðar
     Norðfjarðarhöfn
    Eskifjarðarhöfn
    Reyðarfjarðar-/Mjóeyrarhöfn
    Fáskrúðsfjarðarhöfn

Djúpavogshöfn
Hornafjarðarhöfn
Vestmannaeyjahöfn (ferjuleið)
Landeyjahöfn (ferjuleið)
Þorlákshöfn (ferjuleið)
Grindavíkurhöfn
Sandgerðishöfn
Reykjaneshöfn
Hafnarfjarðarhöfn
Vegir
    Vegir í grunnneti skulu vera:
Stofnvegir:
    1     Hringvegur
    22     Dalavegur
    26     Sprengisandsleið
         Þjórsárdalsvegur – Fjallabaksleið nyrðri
    30     Skeiða- og Hrunamannavegur
    31     Skálholtsvegur
    32     Þjórsárdalsvegur
    33     Gaulverjabæjarvegur
    34     Eyrarbakkavegur
    35     Biskupstungnabraut
    36     Þingvallavegur
    37     Laugarvatnsvegur
    38     Þorlákshafnarvegur
    39     Þrengslavegur
    40     Hafnarfjarðarvegur
    41     Reykjanesbraut
    43     Grindavíkurvegur
    44     Hafnavegur
    45     Garðskagavegur
         Reykjanesbraut–Stafnesvegur
    47     Hvalfjarðarvegur
    49     Nesbraut
    50     Borgarfjarðarbraut
    51     Akrafjallsvegur
    54     Snæfellsnesvegur
    56     Vatnaleið
    58     Stykkishólmsvegur
    60     Vestfjarðavegur
    61     Djúpvegur
    62     Barðastrandarvegur
    63     Bíldudalsvegur
    64     Flateyrarvegur
    65     Súgandafjarðarvegur
         Vestfjarðavegur–Suðureyri
    67     Hólmavíkurvegur
    68     Innstrandavegur
    72     Hvammstangavegur
    74     Skagastrandarvegur
    75     Sauðárkróksbraut
    76     Siglufjarðarvegur
    77     Hofsósbraut
         Siglufjarðarvegur–Lindargata
    82     Ólafsfjarðarvegur
         Hringvegur–Hornbrekka
    83     Grenivíkurvegur
    85     Norðausturvegur
    87     Kísilvegur
    92     Norðfjarðarvegur
    93     Seyðisfjarðarvegur
    94     Borgarfjarðarvegur
    96     Suðurfjarðavegur
    97     Breiðdalsvíkurvegur
         Hringvegur–Sæberg
    98     Djúpavogsvegur
    99     Hafnarvegur
    205     Klausturvegur
         Hringvegur–Skaftárvellir
    208     Skaftártunguvegur
         Hringvegur–Búland
    254     Landeyjahafnarvegur
    261     Fljótshlíðarvegur
         Hringvegur–Öldubakki
    343     Álfsstétt
         Eyrarbakkavegur – Túngata (eystri endi)
    355     Reykjavegur
    359     Bræðratunguvegur
    365     Lyngdalsheiðarvegur
    376     Breiðamörk
         Hringvegur–Sunnumörk
    379     Hafnarvegur Þorlákshöfn
    409     Fossvogsbraut
    411     Arnarnesvegur
    413     Breiðholtsbraut
    414     Flugvallarvegur Reykjavík
    415     Álftanesvegur
    418     Bústaðavegur
    421     Vogavegur
    423     Miðnesheiðarvegur
    424     Keflavíkurvegur
    427     Suðurstrandarvegur
    429     Sandgerðisvegur
    450     Sundabraut
    453     Sundagarðar
    454     Holtavegur
    458     Brautarholtsvegur
         Hringvegur–Hofsgrund
    470     Fjarðarbraut
    506     Grundartangavegur
    509     Akranesvegur
    511     Hvanneyrarvegur
    518     Hálsasveitarvegur
    573     Rifshafnarvegur
    574     Útnesvegur
         Hellissandur–Snæfellsnesvegur
    606     Karlseyjarvegur
         Reykhólasveitarvegur–Hellisbraut
    607     Reykhólasveitarvegur
         Vestfjarðavegur–Karlseyjarvegur
    617     Tálknafjarðarvegur
         Bíldudalsvegur–kauptún
    619     Ketildalavegur
         Bíldudalsvegur–Hafnarteigur
    622     Svalvogavegur
         Vestfjarðavegur–Flugvallarvegur
    623     Flugvallarvegur Þingeyri
    631     Flugvallarvegur Ísafirði
    636     Hafnarvegur Ísafirði
    731     Svínvetningabraut
         Kjalvegur–Hringvegur
    744     Þverárfjallsvegur
    749     Flugvallarvegur Sauðárkróki
    767     Hólavegur
         Siglufjarðarvegur–Hólar
    792     Hafnarvegur Siglufirði
    801     Hafnarvegur Hrísey
    808     Árskógssandsvegur
    809     Hauganesvegur
    810     Hafnarvegur Dalvík
    819     Hafnarvegur Akureyri
    820     Flugvallarvegur Akureyri
    821     Eyjafjarðarbraut vestri
         Hringvegur–Miðbraut
    823     Miðbraut
    829     Eyjafjarðarbraut eystri
         Hringvegur–Miðbraut
    830     Svalbarðseyrarvegur
    842     Bárðardalsvegur vestri
    845     Aðaldalsvegur
    859     Hafnarvegur Húsavík
    869     Langanesvegur
         Norðausturvegur–Flugvallarvegur
    870     Sléttuvegur
         Norðausturvegur–Kópaskersvegur
    870     Kópaskersvegur
    871     Flugvallarvegur Þórshöfn
    874     Raufarhafnarvegur
    917     Hlíðarvegur
    918     Hafnarvegur Vopnafirði
    941     Flugvallarvegur Egilsstöðum
    952     Hánefsstaðavegur
         Seyðisfjarðarvegur á Fjarðaröldu – Seyðisfjarðarvegur við Ferjubryggju
    955     Vattarnesvegur
         Ytri vegamót Skólavegar – Suðurfjarðarvegur Fáskrúðsfirði
    982     Flugvallarvegur Hornafirði
    5033     Hagamelsvegur
    5240     Bifrastarvegur
    9572     Mjóeyrarvegur

Stofnvegir um hálendi:
    F26     Sprengisandsleið
    35     Kjalvegur
    F208     Fjallabaksleið nyrðri
    550     Kaldadalsvegur

Ferjuleiðir og eftirtaldar hafnir eru hluti af grunnnetinu:
Vestmannaeyjar–Landeyjahöfn/Þorlákshöfn, Hrísey–Árskógsströnd, Grímsey–Dalvík, Stykkishólmur–Brjánslækur.
Ferjubryggjur í Flatey, Vigur og Æðey teljast utan grunnnets.

3.    ÁÆTLUN UM FJÁRÖFLUN, ÚTGJÖLD OG HELSTU FRAMKVÆMDIR Í
    GRUNNNETI

3.1 Flugmál
3.1.1 Flugmálastjórn Íslands, fjármál
Verðlag fjárlaga 2012 (millj. kr.) 1. tímabil
2011–2014
2. tímabil
2015–2018
3. tímabil
2019–2022
Tekjur og framlög     
    Tekjur (án sértekna) 846 834 834
    Ríkisframlag 958 978 978
Tekjur og framlög samtals 1.804 1.813 1.813
Gjöld
Rekstur og þjónusta
    Rekstur 1.804 1.813 1.813
Rekstur alls 1.804 1.813 1.813
Gjöld alls 1.804 1.813 1.813

3.1.2 Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta, fjármál
Verðlag fjárlaga 2012, nema árið 2011
á verðlagi 2011 (millj. kr.)
1. tímabil
2011–2014
2. tímabil
2015–2018
3. tímabil
2019–2022
Tekjur og framlög
    Markaðar tekjur 280 0 0
    Beint framlag úr ríkissjóði 7.263 7.790 8.769
Tekjur og framlög samtals 7.543 7.790 8.769
    Viðskiptahreyfingar –148
Til ráðstöfunar 7.396 7.790 8.769
Gjöld               
Rekstur og þjónusta
    Isavia ohf. 5.716 5.563 6.261
Rekstur alls 5.716 5.563 6.261
              
Viðhald 561 1.190 786
Stofnkostnaður
    Flugvellir í grunnneti 714 680 1.225
    Aðrir flugvellir/lendingarstaðir 16 0 140
    Sameiginleg verkefni 390 357 357
Samtals stofnkostnaður 1.119 1.037 1.722
Samtals viðhald og stofnkostnaður 1.680 2.228 2.507
Gjöld alls 7.396 7.790 8.769
Stofnkostnaður
Alþjóðaflugvellir í grunnneti
    Reykjavík 161
    Akureyri 47
    Egilsstaðir 210
Samtals alþjóðaflugvellir í grunnneti 418 672 815
Aðrir flugvellir í grunnneti
    Vestmannaeyjar 58
    Ísafjörður 7
    Bíldudalur 32
    Gjögur 0
    Sauðárkrókur 0
    Grímsey 3
    Þórshöfn 2
    Vopnafjörður 95
    Hornafjörður 99
Samtals aðrir flugvellir í grunnneti 296 8 410
Aðrir flugvellir og lendingarstaðir 16 0 140
Sameiginleg verkefni
    Flugstjórnarmiðstöð 97
    AIS/GPS/Flugprófanir/Upplýsingaþjónusta 80
    Þróun og frumáætlanir 68
    Til leiðréttinga og brýnna verkefna 145
Samtals sameiginleg verkefni 390 357 357
              
Samtals stofnkostnaður 1.119 1.037 1.722
Viðhald
    Yfirborðsviðhald flugbrauta og hlaða (bundið slitlag) 390
    Byggingar og búnaður 59
    Ýmis leiðsögu- og ljósabúnaður og leiðréttingar frávika 112
Samtals viðhald 561 1.191 785

    Í samræmi við minnisblað innanríkisráðherra til ríkisstjórnar verði stefnt að hækkun lendingargjalda og farþegagjalda á Reykjavíkurflugvelli til jafns við gjöld á Keflavíkurflugvelli. Þetta gæti leitt til allt að 250 millj. kr. árlegrar tekjuaukningar í innanlandskerfinu sem nýttar yrðu í nauðsynlegar framkvæmdir og viðhald kerfisins. Miðað er við að hækkunin verði framkvæmd í tveimur jafnstórum áföngum á árunum 2012 og 2013. Gert er ráð fyrir að þessar gjaldskrárhækkanir nái fram að ganga og hefur skipting fjármuna miðast við það.

3.2 Siglingamál
Verðlag fjárlaga 2012, nema árið 2011
á verðlagi 2011 (millj. kr.)
1. tímabil
2011–2014
2. tímabil
2015–2018
3. tímabil
2019–2022
Tekjur og framlög
Markaðar tekjur
    Vitagjald 1.062 1.166 1.312
Framlag úr ríkissjóði 6.534 4.330 4.878
    Aðrar ríkistekjur
    Prófgjöld 4 4 4
    Skoðunargjöld skipa 5 5 5
    Aðgangur að skrám 27 22 22
    Vottorð 5 5 5
Sértekjur
    Almennar sértekjur 905 916 1.031
    Tekjur af Landeyjahöfn 38 38 38
    Tilraunaverkefni með strandsiglingar*
Tekjur og framlög alls 8.580 6.486 7.295
Til ráðstöfunar alls 8.580 6.486 7.295
Gjöld
Rekstrargjöld
    Hafnamál 56 65 73
    Hafnir, líkantilraunir og grunnkort 103 99 111
    Rekstur Hafnabótasjóðs 49 53 60
    Siglingavernd 63 69 78
    Skipamál 276 305 343
    Vitar og leiðsögukerfi 593 645 726
    Vaktstöð siglinga 1.136 1.216 1.369
    Skipaeftirlit 439 478 538
    Hafnarríkiseftirlit 115 125 141
    Rannsóknir og þróun 194 211 237
    Áætlun um öryggi sjófarenda 67 73 82
    Þjónustuverkefni 947 952 1.067
    Rekstur Landeyjahafnar 38 38 38
    Tilraunaverkefni með strandsiglingar*
Rekstrargjöld alls 4.075 4.329 4.863
Stofnkostnaður
    Vitar og leiðsögukerfi 93 117 132
    Hafnamannvirki 1.102 1.060 1.250
    Ferjubryggjur 20 40 50
    Sjóvarnargarðar 418 500 560
    Hafnabótasjóður B-deild 22
    Landeyjahöfn 2.850 440 440
Stofnkostnaður alls 4.505 2.157 2.432
Gjöld alls 8.580 6.486 7.295
* Unnið er að útboðsgögnun fyrir tilraunaverkefni með strandsiglingar en fjármagna þarf verkefnið sérstaklega.

3.3 Vegamál
3.3.1 Umferðarstofa, fjármál
Verðlag fjárlaga 2012, nema árið 2011 á verðlagi 2011 (millj. kr.) 1. tímabil
2011–2014
2. tímabil
2015–2018
3. tímabil
2019–2022
Samtals
2011–2022
Tekjur     
    Markaðar tekjur 931 973 973 2.877
    Sértekjur 1.047 1.083 1.083 3.213
    Ráðstöfun höfuðstóls skv. sérstakri ákvörðun 388 606 606 1.600
Tekjur samtals 2.365 2.662 2.662 7.690
    
Gjöld     
    Rekstur og þjónusta 2.365 2.662 2.662 7.690
Rekstur samtals 2.365 2.662 2.662 7.690

3.3.2 Vegagerðin
Tekjur og framlög
Verðlag fjárlaga 2012. (v.v.15100)
Fjárhæðir eru í millj. kr.
1. tímabil
2011–2014
2. tímabil
2015–2018
3. tímabil
2019–2022
Samtals
2011–2022
Markaðar tekjur
    Bensíngjald 29.750 31.600 33.350 94.700
    Þungaskattur km-gjald 2.780 3.050 3.250 9.080
    Olíugjald 26.180 28.900 31.150 86.230
    Leyfisgjöld flutninga 16 16 16 48
    Leyfisgjöld leigubifreiða 24 24 24 72
    Viðskiptahreyfingar 1.699 0 0 1.699
Markaðar tekjur samtals 60.449 63.590 67.790 191.829
    Framlag til innanlandsflugs 764 760 760 2.284
    Annað ríkisframlag 3.348 8.632 18.144 30.124
    Framlag til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og áhrifasvæði þess 2.350 4.000 4.000 10.350
    Framlag til jarðganga 3.720 14.540 11.240 29.500
    Framlag vegna nýsmíði Herjólfs 500 0 0 500
Framlag úr ríkissjóði 10.682 27.932 34.144 72.758
Greitt úr ríkissjóði samtals 71.131 91.522 101.934 265.587
Til ráðstöfunar alls 71.131 91.522 101.934 264.587

Gjöld
Verðlag fjárlaga 2012. (v.v.15100)
Fjárhæðir eru í millj. kr.
1. tímabil
2011–2014
2. tímabil
2015–2018
3. tímabil
2019–2022
06-651 Rekstur Vegagerðarinnar
    Rekstur Vegagerðarinnar
    1.01 Almennur rekstur
         1.     Yfirstjórn
         2.     Upplýsingaþjónusta
         3.     Umferðareftirlit
    1.02 Innheimtukostnaður vegna markaðra tekna
    Rekstur samtals 2.451 2.600 2.600
06-651 Samgönguverkefni
    Þjónusta, styrkir, rannsóknir og viðhald
    1.07 Þjónusta 13.017 14.000 14.000
         1.     Veggöng
         2.     Viðhald vegmerkinga
         3.     Samningar við sveitarfélög
         4.     Viðhaldssvæði
         5.     Vetrarviðhald
    1.11    Almenningssamgöngur 4.901 5.240 5.240
    1.12    Styrkur til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæði 2.350 4.000 4.000
    1.13    Styrkir til innanlandsflugs 764 760 760
    1.21    Rannsóknir 570 680 680
    Þjónusta og styrkir samtals 21.602 24.680 24.680
    5.10 Viðhald
         1.     Viðhald bundinna slitlaga
         2.     Viðhald malarvega
         3.     Styrkingar og endurbætur
         4.     Brýr og varnargarðar
         5.     Umferðaröryggi
         6.     Vatnaskemmdir
         7.     Viðhald girðinga
         8.     Frágangur gamalla efnisnáma
         9.     Minjar og saga
    Viðhald samtals: 19.590 20.800 20.800
     Stofnkostnaður
    6.10 Stofnkostnaður/Framkvæmdir
    Stofn- og tengivegakerfi
         1.     Almenn verkefni 17.879 22.855 35.973
         2.     Tengivegir malbik 2.680 3.600 3.600
         3.     Jarðgangaáætlun* 3.825 14.540 11.240
         4.     Öryggisaðgerðir í jarðgöngum 380
         5.     Breikkun brúa 200 400 400
    Stofn- og tengivegir samtals 24.964 41.395 51.213
    Annað en stofn- og tengivegir
         1.     Héraðsvegir 320 350 600
         2.     Landsvegir utan stofnvegakerfis 400 400 600
         4.     Styrkvegir 210 220 320
         5.     Reiðvegir 230 235 260
         6.     Smábrýr 143 162 181
         7.     Girðingar 240 300 300
         8.     Herjólfur og ferjuhafnir 101
          9.     Samgöngurannsóknir 80 80 80
    Annað en stofn- og tengivegir samtals 1.724 1.747 2.341
Stofnkostnaður samtals: 26.688 43.142 53.554
Nýsmíði Herjólfs 500
Samgönguverkefni og rekstur samtals 70.831 91.222 101.634
Afskrift markaðra tekna 300 300 300
Gjöld alls 71.131 91.522 101.934
*    Miðað verði við að rannsóknum og undirbúningi Seyðisfjarðarganga verði hagað með þeim hætti að hægt verði að hefja framkvæmdir við jarðgöng undir Fjarðarheiði í kjölfar Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga.




Samþykkt á Alþingi 19. júní 2012.