Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 783. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1667  —  783. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Höskuldar Þórhallssonar um búsetuþróun á Raufarhöfn.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða leiðir sér ráðherra færar til að snúa við búsetuþróun á Raufarhöfn?

    Íbúafækkun á Raufarhöfn hefur verið mikil um langa hríð. Um síðustu áramót voru íbúar 185, og hafði þá fækkað úr 194 árið áður. Íbúar voru 294 árið 2001 og 383 árið 1994. Íbúum hefur því fækkað um 52% frá 1994 og 37% frá 2001. Þetta er einhver mesta hlutfallslega íbúafækkun sem orðið hefur á landinu á þessu tímabili. Mest hefur fækkað í yngri aldurshópum sem gera framtíðarhorfur enn alvarlegri.
    Ástæður þessarar þróunar eru einkum þær að Raufarhöfn byggði afkomu sína á síld og síðar loðnu. Með hvarfi síldarinnar og síðar loðnunnar hrundi sú stoð undan atvinnulífinu. Síðar hvarf svo kvótinn að mestu þegar Útgerðarfélag Akureyringa keypti útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Jökul. Þar með voru grunnstoðir atvinnulífsins á Raufarhöfn brostnar. Það hamlaði einnig að Raufarhöfn hefur lengst af búið við bágar vegasamgöngur. Það hefur nú breyst með byggingu svokallaðrar Hófaskarðsleiðar og tengingu niður á Þórshöfn. Þar með er staðurinn kominn í góða tengingu við vegakerfið.
    Árið 2008 var í samstarfi Norðurþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og verkefnishóps heimamanna unnin greining á stöðu og tækifærum byggðarlagsins. Meginniðurstöður þeirrar greiningar voru að sjávarútvegur og ferðaþjónusta væru helstu sóknarfæri staðarins. Í framhaldi af þessu hefur verið unnið að ýmsum verkefnum sem byggjast á þessum tveimur atvinnuvegum. GPG fiskverkun á Húsavík er með allnokkra starfsemi á Raufarhöfn og hefur flutt þangað grásleppuverkun sína. Aukið vægi strandveiða og aðrar aðgerðir sem til þess eru fallnar að tengja nýtingu sjávarauðlindarinnar við sjávarbyggðirnar eru líklegar til að geta verið þáttur í því að styrkja byggð á Raufarhöfn.
    Ferðaþjónusta hefur eflst og notið stuðnings ríkisins, m.a. heimskautsgerðið sem er í byggingu. Það hefur notið styrkja frá fjárlaganefnd Alþingis. Viðræður standa yfir við mennta- og menningarmálaráðuneytið til að tryggja fjármögnun til að ljúka uppbyggingu þess. Það er mikilvægt þar sem gerðið hefur alla burði til að verða aðdráttarafl fyrir ferðafólk. Jafnhliða þarf að afla fjár til að gera veginn um Melrakkasléttu (milli Kópaskers og Raufarhafnar) þannig úr garði að hann nýtist heimaumferð og sem ferðamannaleið, en svæðið er áhugavert bæði út frá náttúru og dýralífi (fuglum) en einnig út frá menningarsögulegu sjónarhorni. Bættar vegasamgöngur skapa ferðaþjónustunni stórbætt sóknarfæri. Þeir fjármunir sem ríkið hefur sett í að efla ferðaþjónustuna almennt koma stöðum eins og Raufarhöfn til góða séu tækifærin nýtt. Að því er til dæmis unnið með því að efla fuglaskoðunarferðir og menningartengda ferðaþjónustu. Verði af fyrirhugaðri uppbyggingu ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum mun Raufarhöfn, eins og önnur nærliggjandi byggðarlög, líklega njóta þeirra umsvifa. Þá hefur bætt vegasamband gert íbúum Raufarhafnar mögulegt að sækja vinnu til Þórshafnar.
    Ein merkasta síldarsöltunarstöðin á staðnum, Óskarsstöð, er í uppbyggingu aðila af höfuðborgarsvæðinu sem hyggjast m.a. nýta hana til margháttaðrar lista- og menningarstarfsemi. Nokkur verkefni á Raufarhöfn fengu stuðning úr svokölluðum mótvægisaðgerðum sem gripið var til á árunum 2008–2009, samtals að fjárhæð 8,5 millj. kr. Þá hafa aðilar á Raufarhöfn fengið stuðning frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Nýverið hafa svo náðst samningar milli ríkisins, Norðurþings og Síldarvinnslunnar um aðgerðir til að koma húsnæðismálum á SR lóðinni í ásættanlegt horf. Markmiðið er að lagfæra nýtanlegan húsakost þannig að hægt verði að hafa atvinnustarfsemi í þeim, en ónýtanlegar byggingar verði rifnar. Þá skapast tækifæri til að auglýsa eftir fyrirtækjum sem vilja flytja starfsemi í húsnæðið. Þá er ótalið framlag ríkisins til uppbyggingar atvinnulífs á Norðausturlandi, þ.m.t. á Raufarhöfn, í gegnum vaxtarsamning iðnaðarráðuneytisins og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Markmið vaxtarsamningsins er að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins og auka hagvöxt. Atvinnuþróunarfélagið annast framkvæmd samningsins og fær 37,5 millj. kr á ári 2012 og 2013 til að leggja í atvinnuskapandi verkefni sem heimamenn ákveða sjálfir. Samskonar grasrótarnálgun er einnig viðhöfð í sóknaráætlun landshluta sem hverfist bæði um forgangsröðun fjármuna og áherslur í svæðisbundnum atvinnumálum. Ríkið hefur með þessu boðið upp á tækifæri sem heimamenn þurfa að nýta vel.
    Engin ein aðgerð getur snúið við búsetuþróuninni á Raufarhöfn. Bættar vegasamgöngur hafa stækkað vinnusóknarsvæði á norðausturhorni landsins og þannig aukið möguleika íbúanna til fjölbreyttari atvinnu og félagsstarfs. Raufarhöfn er á svæði sem mun njóta hæstu endurgreiðslu flutningskostnaðar samkvæmt nýsamþykktu frumvarpi, eða 20%. Þetta mun létta undir ýmsum atvinnurekstri. Telja verður óraunsætt að unnt sé að snúa búsetuþróun við í þeim skilningi að vinna til baka þá gríðarlegu fólksfækkun sem orðið hefur á undanförnum áratugum. Það sem unnt er og rétt að gera er að styðja eftir föngum við þá atvinnustarfsemi sem er á staðnum og bæta forsendur hennar.
    Byggðastofnun er reiðubúin til þess að standa fyrir íbúaþingi á staðnum ásamt sveitarfélaginu, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og fleiri aðilum verði eftir því leitað. Þar væri hægt að fara yfir hvaða möguleika íbúarnir sjálfir sjá í stöðunni og kalla til sérfræðinga til að meta leiðir til að bæta búsetuskilyrði.