Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 832. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1706  —  832. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Auðar Lilju Erlingsdóttur
um kostnað við aðild að NATO.


     1.      Hver voru framlög íslenska ríkisins undanfarin þrjú ár, sundurliðað eftir árum, til:
                  a.      borgaralegs sjóðs NATO,
                  b.      hermálasjóðs NATO,
                  c.      mannvirkjasjóðs NATO?

    Ísland var meðal tólf stofnríkja Atlantshafsbandalagsins árið 1949 og tekur virkan þátt í störfum þess. Skylduframlög Íslands til bandalagsins reiknast samkvæmt fastri reiknireglu sem tekur mið af vergum þjóðartekjum aðildarríkjanna. Viðmiðunarhlutfall Íslands fyrir borgaralega sjóðinn og hermálasjóðinn er nú 0,0492% af heildarframlögum aðildarríkja, en var að jafnaði 0,0658% á árunum 2009–2011. Við reglulegan endurútreikning hefur hlutfall Íslands lækkað sem fyrr greinir sem skýrist af efnahagsþrengingum síðustu ára, en viðmiðunarár útreiknings nú miðast við árin 2009 og 2010. Hlutfall Íslands í mannvirkjasjóðnum var umtalsvert lægra í byrjun en hefur farið stigvaxandi uns það nær sama hlutfalli og framlög í hina sjóðina tvo frá og með árinu 2013. Ísland hóf greiðslur í mannvirkjasjóðinn árið 2008 í kjölfar brottfarar varnarliðsins frá Íslandi í september árið 2006.
    Borgaralegi sjóðurinn stendur einkum straum af kostnaði við rekstur höfuðstöðvanna í Brussel, þ.m.t. launum alþjóðastarfsliðs bandalagsins og eftirlaunagreiðslum. Hermálasjóðurinn fjármagnar m.a. fastar herstjórnir bandalagsins, stjórnstöðvar fyrir aðgerðir, AWACS- ratsjárvélar bandalagsins, ratsjár og fjarskipti bandalagsins og herstjórnartengdar stofnanir sem víða er að finna í bandalagsríkjum. Mannvirkjasjóðurinn fjármagnar svo stofnkostnað og viðhald bygginga sem Atlantshafsbandalagið hefur til umráða og má þar nefna flugvallarmannvirki, hafnarmannvirki, ratsjárstöðvar og olíuleiðslur.
    Framlög Íslands til borgaralega sjóðsins voru 132.317 evrur á árinu 2009, 136.515 evrur á árinu 2010 og 137.821 evrur á árinu 2011.
    Til hermálasjóðsins runnu frá Íslandi 537.860 evrur á árinu 2009, 653.397 evrur á árinu 2010 og 696.872 evrur á árinu 2011. Á þessu árabili fengu íslensk stjórnvöld umtalsvert hærri greiðslur úr hermálasjóðnum en sem nemur framlögum landsins í hann. Greiðslurnar úr hermálasjóðnum eru eyrnamerktar rekstri og viðhaldi á íslenska loftvarnakerfinu og eru þá ekki taldir með varahlutir og vélbúnaður sem íslensk yfirvöld fengu frá öðrum aðilum innan bandalagsins og meta má á rúmar 100 millj. kr.
    Þá námu framlög Íslands til mannvirkjasjóðsins 11.193 evrum árið 2009, 124.439 evrum árið 2010 og 109.466 evrum árið 2011.

     2.      Hver er árlegur heildarkostnaður ráðuneytisins við fastanefnd Íslands hjá NATO og skrifstofu fastanefndarinnar?
    Fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu er sú minnsta meðal aðildarríkja bandalagsins. Kostnaður ráðuneytisins vegna fastanefndarinnar fellur annars vegar til í evrum og hins vegar í krónum og nam 685.487 evrum og 39.125.148 kr. á árinu 2009, 737.622 evrum og 43.923.117 kr. á árinu 2010 og 773.860 evrum og 45.996.328 kr. á árinu 2011.

     3.      Hver var heildarkostnaður ráðuneytisins og stofnana þess við fargjöld og dagpeninga undanfarin þrjú ár vegna aðildarinnar að NATO, sundurliðað eftir árum, ráðuneyti og stofnunum?
    Heildarkostnaður utanríkisráðuneytisins og fastanefndar Íslands hjá NATO var árið 2009 6.002.812 kr., árið 2010 7.299.708 kr. og árið 2011 4.786.427 kr. en sá hluti þessarar fjárhæða sem stafar frá fastanefndinni er að sjálfsögðu hluti heildarfjárhæða í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Hjá Varnarmálastofnun var kostnaður vegna fargjalda og dagpeninga 26.092.207 kr. árið 2009 og 17.515.237 kr. árið 2010. Það er hins vegar rétt að geta þess að umtalsverður hluti þessa kostnaðar var vegna þjálfunar íslenskra starfsmanna í Noregi vegna aukinna verkefna og ábyrgðar í kjölfar brotthvarfs varnarliðsins árið 2006. Þetta þjálfunarátak var tímabundið og því má reikna með að ferða- og dvalarkostnaður vegna þeirra verkefna er Varnarmálastofnun fór með hafi lækkað áfram á árinu 2011. Varnarmálastofnun var lögð niður í lok árs 2010 og því féllu ekki til fargjöld eða dagpeningar hjá stofnuninni á árinu 2011 en reikna má með því að á móti komi aukinn ferðakostnaður Landhelgisgæslu og ríkislögreglustjóra vegna þeirra verkefna sem embættin tóku að sér samkvæmt samkomulagi utanríkis- og innanríkisráðuneytanna frá desember 2010.

     4.      Hver var heildarkostnaður ráðuneytisins og stofnana þess undanfarin þrjú ár við friðargæsluverkefni í þeim löndum þar sem NATO stendur í hernaðaraðgerðum?
    Atlantshafsbandalagið starfrækir í dag þrjár aðgerðir í umboði öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Bandalagið tekur þannig þátt í aðgerðum gegn sjóránum undan ströndum Sómalíu í samvinnu við Evrópusambandið, Rússland, Bandaríkin, Kína og fleiri ríki. Í Kósóvó hefur bandalagið ásamt samstarfsríkjum stuðlað að friði og stöðugleika í landinu frá árinu 1999. Aðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Afganistan hafa staðið yfir síðan árið 2003. Þá sinnir Atlantshafsbandalagið verkefnum innan bandalagssvæðis síns, þ.m.t. eftirlitsaðgerð á Miðjarðarhafi og loftrýmisgæslu í Eystrasaltsríkjunum og á Íslandi.
    Afganistan er meðal forgangsríkja Íslands í þróunarsamvinnu og hefur Ísland stutt við endurreisnarstarf og þróun í landinu á umliðnum árum, ekki síst í verkefnum er snúa að friðargæslu undir merkjum Atlantshafsbandalagsins sem þar starfar í umboði öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem fyrr greinir. Á síðustu árum hafa fjórir til fimm friðargæsluliðar á vegum íslenskra stjórnvalda sinnt borgaralegum verkefnum í bækistöð alþjóðaliðsins við alþjóðaflugvöllinn í Kabúl og að þróunar- og jafnréttisverkefnum í höfuðstöðvum bandalagsins í Kabúl. Áður voru einnig íslenskir friðargæsluliðar að störfum í Chagcharan-héraði í vesturhluta landsins og í Meymanah-héraði í norðurhluta landsins. Þeir sinntu sömuleiðis einungis borgaralegum verkefnum.
    Þá hefur Ísland stutt svokallaðan neyðaraðstoðarsjóð sem rekinn er á vegum Atlantshafsbandalagsins í Afganistan. Framlög í sjóðinn námu samtals 20,7 millj. kr. á tímabilinu.
    Önnur framlög til þróunarverkefna í Afganistan námu um 112 millj. kr. á tímabilinu en Ísland hefur stutt við verkefni á vegum Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) í Afganistan, Mannfjöldastofnunar SÞ (UNFPA) og Flóttamannastofnunar SÞ (UNHCR) í landinu. Þá hafa íslensk stjórnvöld stutt fjárhagslega við rekstur heilsugæslustöðvar í Afganistan og verkefni sem hefur það markmið að stuðla að þróun afgansks efnahagslífs.
    Atlantshafsbandalagið sinnir einnig aðgerðum í umboði öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í Kósóvó og einn Íslendingur var á árinu 2009 að störfum í þjálfunarteymi á sviði fjölmiðlunar. Kostnaður vegna framlags Íslands í Kósóvó nam 19 millj. kr. á tímabilinu.
    Framlag Íslands til þessara verkefna í Afganistan og Kósóvó á umræddu árabili var því sem hér segir (fjárhæðir í milljónum króna):

2009 2010 2011
Afganistan – friðargæsla NATO 117,9 115,3 96,6
Neyðaraðstoðarsjóður 6,4 7,8 6,5
Afganistan – þróunarverkefni 9,0
UN Women í Afganistan 24,2 12,8 11,3
UNFPA í Afganistan 10,5 23,0
UNHCR í Afganistan 9,7 11,5
Kósóvó 14,8 4,2

     5.      Hver var heildarkostnaður ráðuneytisins og stofnana þess við loftrýmiseftirlit hér á landi, sem og aðrar heræfingar?
    Árið 2007 samþykkti fastaráð Atlantshafsbandalagsins fyrirkomulag um loftrýmisgæslu á Íslandi. Um fyrirkomulag á friðartímum er að ræða sem hefur þann megintilgang að vakta loftrými Íslands, sem telst sameiginlegt með loftrými Atlantshafsbandalagsins, árið um kring og sýna fram á reglubundna viðveru bandalagsríkja á Íslandi. Um þýðingarmikið verkefni er að ræða enda mikilvægt að aðildarríki bandalagsins þekki til aðstæðna á Íslandi og íslenskt starfslið á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli viðhaldi þeirri þekkingu og þjálfun sem felst í að taka á móti erlendum flugsveitum.
    Gerir fyrirkomulagið því ráð fyrir reglubundinni viðveru erlendra flugsveita á Íslandi og innleiðingu íslenska loftvarnakerfisins í sameiginlegt loftvarnakerfi Atlantshafsbandalagsins, sem lauk í lok árs 2007. Frá árinu 2008 hafa 14 vaktir verið staðnar af flugsveitum sjö aðildarríkja bandalagsins. Þess utan er eftirlit með loftrými Íslands í gegnum hið sameiginlega loftvarnakerfi allt árið um kring. Heildarkostnaður utanríkisráðuneytisins, Varnarmálastofnunar og síðar Landhelgisgæslu Íslands, sem tók við framkvæmd varnartengdra verkefna við niðurlagningu Varnarmálastofnunar, við loftrýmisgæslu á Íslandi á umræddu tímabili var 22.854.887 kr. árið 2009, 34.644.491 kr. árið 2010 og 30.599.646 kr. árið 2011.
    Til viðbótar framangreindum kostnaði fellur til upphæð sem nemur á bilinu 10–12 millj. kr. á ári vegna reksturs þotugildra á Keflavíkurflugvelli en þotugildrur eru nauðsynlegur varahemlunarbúnaður fyrir orrustuþotur.
    Kostnaður Íslands við loftrýmisgæslu er samkvæmt viðmiðum NATO um svonefndan gistiríkjastuðning. Gistiríkisstuðningurinn snýr að þrennu. Í fyrsta lagi húsnæði, en þar er notast við húsnæði NATO á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og kostnaður því einkum bundinn við þrif, rafmagn og hita. Í öðru lagi greiða íslensk stjórnvöld kostnað vegna bifreiða á öryggissvæðinu og, innan ákveðinna marka, utan öryggissvæðisins. Í þriðja lagi fellur svo til kostnaður vegna öryggisgæslu á svæðinu.
    Rétt er að geta þess að umræddur kostnaður rennur að bróðurparti til þjónustufyrirtækja á Suðurnesjum og að kostnaður þátttökuríkja í loftrýmisgæslu er margfaldur á við kostnað íslenska ríkisins og skilar sér jafnframt inn í samfélögin á Suðurnesjum að miklu leyti til.
    Varnaræfingar hafa verið haldnar á tveggja til þriggja ára fresti og á umræddu tímabili var einungis ein varnaræfing haldin á Íslandi – Norður-Víkingur árið 2011. Beinn kostnaður íslenska ríkisins við hana nam 23.776.953 kr. og fólst í sambærilegum gistiríkisstuðningi og veittur er við loftrýmisgæslu. Fjögur ríki, Bandaríkin, Ítalía, Danmörk og Noregur, auk Íslands, tóku þátt í varnaræfingunni á síðasta ári og alls um 500 manns.

     6.      Greiðir íslenska ríkið önnur framlög en hér hafa verið talin upp vegna aðildar að NATO og þá hvaða framlög?
    Vegna nýrra höfuðstöðva NATO voru greiddar 55.815 evrur árið 2009, 122.952 evrur árið 2010 og 218.015 evrur árið 2011. Ákvörðunin um að byggja nýjar höfuðstöðvar var tekin árið 1999 en fyrirhugað er að þær verði teknar í notkun árið 2016. Greiðslurnar eru því tímabundnar. Þær hafa að jafnaði fylgt hraða framkvæmda og farið stigvaxandi á umliðnum árum en gert er ráð fyrir því að þær fari lækkandi undir lok framkvæmdatíma.
    Til birgða- og innkaupastofnunar Atlantshafsbandalagsins í Lúxemborg, sem öll aðildarríki bandalagsins eiga aðild að, voru greiddar 13.654 evrur árið 2009, 3.215 evrur árið 2010 og 3.801 evra árið 2011.
    Til upplýsingasöfnunar- og miðlunarstofnunar Atlantshafsbandalagsins, sem öll aðildarríki og mörg samstarfsríki bandalagsins eiga aðild að, voru greiddar 36.523 evrur árið 2009, 36.568 evrur árið 2010 og 36.613 evrur árið 2011.
    Til Von Karman Institute voru greiddar 2.579 evrur árlega á tímabilinu 2009–2011. Von Karman Institute er rannsóknastofnun í Belgíu sem opin er aðildarríkjum og samstarfsríkjum Atlantshafsbandalagsins og sérhæfir sig meðal annars í lofteðlis- og umhverfisfræðum.
    Þá ber að geta að íslensk stjórnvöld héldu, í samstarfi við Atlantshafsbandalagið, málstofu um öryggishorfur á norðurslóðum í janúar árið 2009 þar sem sjónum var meðal annars beint að því hvernig koma megi í veg fyrir hervæðingu á norðurslóðum. Kostnaður utanríkisráðuneytisins vegna málstofunnar nam 12.670.572 kr. en fékkst endurgreiddur að hálfu frá Atlantshafsbandalaginu.