Fjárlög 2013

Fimmtudaginn 13. september 2012, kl. 11:12:05 (0)


141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:12]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil samt segja að jafnvel þótt að þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér hafi verið endurskoðuð er ekki víst að sú áætlun standist heldur. Nú tala menn um að heildarjöfnuðurinn sem átti að nást á næsta fjárlagaári náist ekki fyrr en árið þar á eftir.

Í fjárlagafrumvarpinu er talað um að frumjöfnuður náist í ríkisrekstrinum á yfirstandandi fjárlagaári í fyrsta skipti frá hruni. Það eru að sjálfsögðu jákvæð tíðindi en ítrekað hafa fyrrverandi fjármálaráðherrar stigið hér í pontu og fullyrt að frumjöfnuðinum hafi verið náð. Síðan gerist það að þegar við gerum upp árið 2010 er hallinn 25 milljörðum meiri. (Forseti hringir.) Svo þegar við gerum upp árið 2011 munar um 40 milljörðum og það þýðir ekkert að tala um (Forseti hringir.) einskiptisaðgerðir, frú forseti, — og ég er að ljúka máli mínu — vegna þess að þetta voru fjármunir sem menn vissu að (Forseti hringir.) mundu bætast við og það þarf að sjálfsögðu að taka tillit til þeirra við fjárlagagerð næsta árs.