Fjárlög 2013

Fimmtudaginn 13. september 2012, kl. 11:21:43 (0)


141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu. Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. ráðherra að það hefði komið fram réttmæt gagnrýni á þá hækkun sem á að verða á hótel- og gistirými í ferðaþjónustunni. Eins og hefur komið fram í fjölmiðlum hefur hæstv. ráðherra skipað starfshóp til þess að fara yfir það. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort henni finnist það til eftirbreytni að gera þetta svona, að leggja álögur upp á 2,6 milljarða á næsta ári en 3,5 milljarða á ársgrundvelli á ferðaþjónustuna þegar allir vita að það er búið að selja gistirými og hótelherbergi fyrir næsta ár. Hvað finnst hæstv. ráðherra um þessi vinnubrögð? Og ef starfshópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki skynsamlegt eða ekki sanngjarnt, hyggst þá ráðherra leggja fram frekari niðurskurðartillögur eða eykst þá halli ríkissjóðs?

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það sem kom fram í máli hennar um stöðu Íbúðalánasjóðs. Vitað er að það vantar 14 milljarða í Íbúðalánasjóð og því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er meiningin eina ferðina enn að koma þessu inn í ríkisreikning eins og oft verið gert og hefur verið gagnrýnt mjög harkalega í fjárlaganefnd?

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það sem maður hefur heyrt utan af sér að það séu hugsanlega að falla einhverjar ríkisábyrgðir út af Arion banka, hvort hæstv. ráðherra geti upplýst þingið um það.

Síðan vil ég segja við hæstv. ráðherra að ég geri mjög alvarlegar athugasemdir við að 4,9 milljarðar skuli vera færðir inn í ríkisreikning 2011 vegna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Þetta hefur aldrei verið kynnt fyrir fjárlaganefnd, aldrei nefnt einu einasta orði. Hvað finnst hæstv. ráðherra um svona vinnubrögð?