Fjárlög 2013

Fimmtudaginn 13. september 2012, kl. 11:29:31 (0)


141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég hef ákveðnar væntingar til þeirrar breytingar sem nú er gerð á fjárlagaumræðunni og mikil samstaða var um meðal allra stjórnmálaflokka á þingi. Hún á að dýpka fjárlagaumræðuna og gera hana markvissari en hún hefur verið undanfarin ár. Breytingin felst að sjálfsögðu í því að hæstv. fjármálaráðherra mælir fyrir frumvarpinu og síðan munu fagráðherrarnir sitja hér á morgun og svara fyrir málaflokka sína. Ég ber miklar væntingar til þess að það muni skila okkur betri og dýpri umræðu og að fleiri muni taka þátt í henni.

Ég vil líka taka undir þau orð sem fram komu áðan, ég mun að sjálfsögðu sjá á eftir hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur þegar hún lætur af störfum sem fjármálaráðherra. Það er ekki gott að hafa hringlandahátt á þessum hlutum og hefur það ekkert með þá einstaklinga að gera sem gegna þessum stöðum. Það liggur líka fyrir að við fáum fjórða formanninn á þessu kjörtímabili í fjárlaganefnd þannig að verið er að hringla með hlutina á öllum stöðum.

Í umræðunni munum við fyrst og fremst ræða stóru línur frumvarpsins sem liggja fyrir. Svo ég snúi mér að sérstökum tekjuaðgerðum eru þær upp á 22,9 milljarða kr., en þar inni er eignasala upp á 8 milljarða kr. og skattahækkanir upp á 14,9 milljarða kr. Síðan er aðhaldskrafan upp á 6,7 milljarða kr. og vega þar þyngst um 1,8 milljarðar kr. nettó eða 2,7 milljarðar kr. vegna þess að taka á úr gildi svokallað fjórða árið til réttar á atvinnuleysisbótum og færa réttinn niður í þrjú ár. Það mun verða nettó um 1,8 milljarður kr. því að farið verður í sérstakar aðgerðir samhliða þessu. Það er kannski stærsti niðurskurðarliðurinn en það byggir á því að fara í tekjuöflun upp á 14,9 milljarða kr.

Það er svo sem hægt að hafa ýmsar skoðanir á því hvernig staðið er að því. Það er klárlega verið að hækka skatta eina ferðina enn og ríkisstjórnin heldur áfram með svokallaða skattpíningarstefnu í stað þess að fara að örva hagvöxtinn og byggja upp atvinnulífið. Það er dálítið merkilegt að fara yfir þær tillögur sem hér eru og lesa um þær því að auðvitað eru allir sammála um það, sama hvar þeir standa í pólitík eða flokkum, að mesta og mikilvægasta verkefnið er að reyna að ná tökum á ríkisfjármálum. Bara til að undirstrika hversu mikilvægt það er munum við á næstu fjórum árum ekki greiða nema 370 milljarða kr. í vexti — 370 milljarða kr. á næstu fjórum árum þannig að það gefur augaleið að mikil samstaða er um að ná halla ríkissjóðs niður.

Ef ég staldra aðeins við tekjuöflunina þá er þar haldið áfram með ýmsa skatta. Þeir eru framlengdir og síðan koma nýir skattar eins og til að mynda sá skattur sem ég ræddi um við hæstv. fjármálaráðherra áðan og við erum ekki sammála um. Hæstv. ráðherra svaraði því þannig til að ef dregið yrði í land og miðað yrði til að mynda við 1. september, eins og komið gæti út úr vinnu starfshópsins, sem þætti skynsamlegt, mundi það annaðhvort kalla á frekari tekjuöflun eða þá hugsanlega niðurskurð til að halda áformum uppi um það sem snýr að ríkisfjármálunum. Síðan er verið að hækka vörugjöld á matvæli um 800 millj. kr., sem bitnar á heimilunum. Það er því sama sagan hjá hæstv. ríkisstjórn, hún telur heimilin vera aflögufær, fyrir utan það að það eru margar beinar og óbeinar skattahækkanir þarna inni.

Það er hins vegar dálítið merkilegt að lesa það sem kemur fram í þessu hefti. Það er ekki hægt að saka mann um að vera með einhvern pólitískan áróður heldur stendur þetta skýrt þar. Ég vil vitna í frumvarpið, með leyfi forseta:

„Reiknað er með að ríkissjóður muni hafa 8 milljarða kr. tekjur af söluhagnaði eigna árlega á árunum 2013–2015. Á árinu 2014“, nú bið ég hv. þingmenn að taka eftir, „er gert ráð fyrir 3 milljarða kr. nýrri, varanlegri, ótilgreindri tekjuöflun.“

Síðan kemur í ljós þegar maður les áfram að eigi þau markmið að nást sem sett eru fram og margir eru ánægðir með, er ný tekjuþörf á árinu 2015 upp á 12 milljarða og 12,7 milljarða árið 2016. Það virðist aldrei koma sá tími að mati hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans að hægt verði að draga skattahækkanirnar til baka sem áttu að vera tímabundnar. Þær eru alltaf framlengdar og meira að segja koma nýir skattar til viðbótar.

Síðan er dálítið merkilegt að gert er ráð fyrir eignasölu upp á 8 milljarða kr. næstu þrjú árin, þ.e. 2013, 2014 og 2015, en það er algerlega óútfært. Talað er um að hugsanlega eigi að selja bréfin í fjármálastofnunum en þá verður maður þó að gera sér grein fyrir því að einnig verður gert ráð fyrir eignasölu á árinu 2012 en hún hefur ekki gengið eftir eins og þó var reiknað með.

Þegar menn tala um hversu mikið hefur áorkast lítur hver stöðuna með sínum augum en mig langar að vitna til þess að áður en fjárlögin 2010 voru lögð fram kom fram áætlun sem leggja átti upp í. Hún birtist í riti frá þáverandi hæstv. fjármálaráðherra. Greinilega kemur fram í þeim markmiðum sem þar voru sett fram að mesta höggið átti að vera um 8,4% samdráttur á hagvexti á árinu 2009 en var í raun og veru 6,4% þannig að höggið og dýfan voru minni en gert var ráð fyrir í áætlun ríkisstjórnar í samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það sama gerist á árinu 2010, þá var gert ráð fyrir 4% samdrætti í hagvexti en niðurstaðan varð -1,9%. Það sem er þó athyglisvert við það er að áætlunin þá gekk út á að hagvöxturinn á árinu 2012 yrði 4,9% en hann er í raun í kringum 2,7%–2,8%. Við sjáum alveg hvað er að gerast og ef fólk vill ekki opna augun fyrir því er það ekki gott. Efnahagsáfallið varð minna en talið var í upphafi, sem betur fer. Það var vegna sterkrar stöðu útflutningsgreinanna. Ég held að allir séu sammála um að það hafi verið vegna þess að innviðir samfélagsins voru sterkari en reiknað var með en batinn hefur hins vegar verið miklu hægari. Það er auðvitað hið alvarlegt mál. Ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu ekki staðið sig í því að byggja upp hagvöxtinn og koma honum aftur af stað, enda hafa aðgerðir hennar endalaust gengið út á að hækka skattana og að skera niður í þjóðfélaginu.

Eitt er það að hafa ákveðin markmið, það vitum við öll. Við stefnum að einhverjum markmiðum og það er gert í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013 og er það vel. En við skulum líka minnast þess hver markmiðin hafa verið á undanförnum árum og hver niðurstaðan er í raun því að það skiptir engu máli hver markmiðin eru, það er auðvitað niðurstaðan sem skiptir máli. Niðurstaðan í ríkisreikningi á hverju ári er sú upphæð sem skattgreiðendur þessa lands þurfa að greiða, það er niðurstaðan. Það skiptir engu máli hvaða áætlanir menn hafa. Þá er ágætt að fara yfir hver raunveruleg staða ríkissjóðs er. Þá þurfum við ekki að deila um pólitík heldur sjáum við nákvæmlega hver staðan er.

Ég heyrði margar ræður í gær, meðal annars stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra, þar sem hv. stjórnarliðar töluðu mikið um þann árangur sem náðst hefði í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það mátti að sjálfsögðu heyra á hæstv. ráðherra áðan þegar hún fylgdi eftir frumvarpi sínu að allt hafi gengið mjög vel.

Stöldrum aðeins við og hugsum: Hvað gerðist á árinu 2011? Það sem gerðist var að skuldir ríkissjóðs jukust um 200 milljarða. Heildarskuldir ríkissjóðs á árinu 2011 voru 1.542 milljarðar kr. (Gripið fram í.) fyrir utan lífeyrisskuldbindingar. Þær eru 372 milljarðar. Hæstv. ráðherra kom inn á það í ræðu sinni áðan, sem er mjög mikilvægt að vekja okkur til umhugsunar um, að ef ekkert verður að gert er óhætt að segja ríkissjóður verði gjaldþrota eða stefni í þrot árið 2026. Þá þurfum við að greiða í kringum 20 milljarða kr. á ári inn í hann. Þeim vanda erum við að fresta, við skulum bara horfast í augu við það. En til að láta menn njóta sannmælis, af því að það má ekki snúa út úr tölunum, alla vega ekki viljandi, þá jukust eignir ríkissjóðs á móti þessari 200 milljarða kr. skuldaaukningu þannig að skuldir ríkissjóðs á árinu 2011 jukust um í kringum 100 millj. kr. nettó. Við þurfum að vera sanngjörn í umræðunni.

Þess vegna segi ég: Hver er niðurstaðan í raun? Þetta er áætlunin. Áætlunin fyrir árið 2011 gerði ráð fyrir því að hallinn á ríkissjóði yrði allt annar en hann er í raun og veru því að þá var gert ráð fyrir því að hann yrði um 60 milljarðar kr. en niðurstaðan varð um 90 milljarðar kr. Auðvitað eru þar inni í einskiptisaðgerðir sem margoft er búið að fara yfir en þá er líka óhætt að ítreka að það sama gerðist árið 2010. Þá var reiknað með að hallinn yrði um 100 milljarðar kr. en hann varð 125 milljarðar kr. Það er niðurstaðan og það er reikningurinn sem skattgreiðendur verða að borga, hvað sem okkur finnst um það.

Síðan er alveg klárt að mínu viti að það eru ákveðnir þættir í fjárlagafrumvarpinu sem eru þar fyrir utan, sem þyrfti auðvitað að taka tillit til. Skýrasta dæmið er að sjálfsögðu Íbúðalánasjóður. Við munum eftir umræðunni þegar 33 milljarðar voru settir í Íbúðalánasjóð á sínum tíma. Það var gert vegna þess að þegar Íbúðalánasjóður fór í skuldabréfaútboð þó að hann væri með ríkisábyrgð, þótt reyndar sé mismunandi túlkun á því eins og við sjáum og lesum í blöðunum í dag. Það hafði auðvitað áhrif hvaða ávöxtunarkrafa var gerð til sjóðsins þegar hann fór að bjóða út skuldabréf sín. Menn geta auðvitað farið í alls konar talnaleiki í því sambandi.

Tökum síðan árið 2012. Hver er niðurstaðan á því ári? Árið 2012 er undirliggjandi fjárlagahalli, undirliggjandi halli í rekstri ríkisins er í kringum 11,5 milljarðar kr., þ.e. veikleikinn í fjárlögunum á útgjaldahliðinni. Síðan eru aðrir pósitífir þættir á móti, ég ætla ekki að gera lítið úr því, þannig að niðurstaðan er kannski ekki 11,5 milljarðar kr. í mínus. Pósitífu þættirnir eru því miður þó miklu lægri. Niðurstaðan á árinu 2012, sem er auðvitað upphafsstaðan á árinu 2013, verður væntanlega ekki eins góð og við reiknum með. Það er mikilvægt að átta sig á því hvernig það gerist.

Skuldir ríkissjóðs eru nú rúmir 1.500 milljarðar kr. fyrir utan lífeyrisskuldbindingar. Ég ræddi það í andsvari áðan og það deilir enginn um hversu mikilvægt það er að ná niður skuldum ríkissjóðs því að á næstu fjórum árum þurfum við að greiða 370 milljarða bara í vexti. Ég tek það líka fram að fólk gerir sér grein fyrir því að vaxtastig á alþjóðlegum mörkuðum er mjög lágt um þessar mundir. Við búum líka við gjaldeyrishöft sem veldur því að vaxtastig ríkissjóðs er mjög hagstætt, ef ég má taka þannig til orða, þ.e. ávöxtunarkrafan á ríkissjóð er mun lægri við þær aðstæður nú eru uppi en hún væri við eðlilegar aðstæður. Það er grafalvarlegt mál.

Samstarfið í hv. fjárlaganefnd hefur verið mjög gott. Búið er að ræða mikið um hvernig þingið og fjárlaganefndin getur stillt sig í eftirliti með framkvæmd fjárlaga, því að það er hlutverk fjárlaganefndar að sinna því. En það er gert enn þann dag í dag og við það er ég mjög ósáttur. Það virðist ekkert breytast. Það er bara talað og talað en engu er breytt. Í ríkisreikningi 2011 eru settar inn skuldbindingar frá Sparisjóði Keflavíkur upp á 21 milljarð kr. Það er sett í ríkisreikning 2011 þótt niðurstaðan sé á miðju ári 2012. Er það eðlilegt? Það getur vel verið. Mín skoðun er sú að svo sé ekki.

Þar eru líka settir inn 4,9 milljarðar í afskriftir hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins sem aldrei hefur verið kynnt í fjárlaganefnd — aldrei. Það finnast mér ekki vera boðleg vinnubrögð. Ég er kominn á þá skoðun að gera verði einhverja bragarbót hér á ef ná á tökum á ríkisfjármálunum. Eins og margir hv. stjórnmálamenn tala og hugsa um ríkisfjármálin hef ég oft á tilfinningunni að sumir þeirra séu fyrst og fremst að hugsa um hvernig þeir ná endurkjöri en ekki hverjar byrðarnar muni verða á komandi kynslóðir. Þetta eru hlutir sem við verðum að taka mjög alvarlega og það er umhugsunarefni fyrir hv. Alþingi að huga að því að hafa sama fyrirkomulag og er í Svíþjóð. Þar er sérstakt ríkisfjármálaráð með þremur faglegum ráðgjöfum sem eru utan þings sem veita stjórnmálamönnum aðhald. Mín skoðun er sú, virðulegi forseti, að ef við eigum að ná tökum á ríkisfjármálunum, sem allir eru sammála um að sé mikilvægt að gera, (Forseti hringir.) verðum við að breyta vinnubrögðunum.