Fjárlög 2013

Fimmtudaginn 13. september 2012, kl. 12:19:57 (0)


141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og óska honum til hamingju með að vera orðinn formaður hv. fjárlaganefndar. Ég vænti að sjálfsögðu, eins og hann sagði í ræðu sinni, góðs samstarfs við hv. þingmann hér eftir sem hingað til.

Hv. þingmaður kallaði eftir því að menn kæmu með tillögur sem sneru að því hvernig þeir vildu fara öðruvísi að við að afla tekna. Það liggur fyrir að þegar menn fara í frekari atvinnusköpun fækkar auðvitað fólki á atvinnuleysisskrá þegar það fær vinnu og þar af leiðandi koma auknar tekjur. En ég ætla ekki að staldra við það í þessu stutta andsvari mínu því að við höfum haft mun lengri tíma til að ræða það og ég held að við sannfærum ekki hvor annan í andsvörum.

Mig langar hins vegar að staldra við það sem hv. þingmaður sagði og ég tek undir, að í hv. fjárlaganefnd hafa menn viljað vegna samstöðu þvert á flokka og milli einstaklinga breyta vinnubrögðum, eins og eftirfylgni á framkvæmd fjárlaga, yfirferð á ríkisreikningi, yfirferð á skýrslu frá Ríkisendurskoðun og margt mætti lengi telja. Nú er verið að vinna í fjármálaráðuneytinu að frumvarpi um ríkisfjármál sem snýr að stöðugleika og hefur líka skapast mjög gott samstarf milli ráðuneytis og nefndarinnar og eins Ríkisendurskoðunar, ég tek undir það með hv. þingmanni. Því vil ég spyrja hv. þingmann í ljósi skuldastöðunnar, sem eru rúmir 1.500 milljarðar, og þess að við þurfum að borga á næstu fjórum árum 370 milljarða í greiðslur á vöxtum, sem er gríðarlega há upphæð og verður 15% af útgjöldum ríkisins á næsta ári, hvort hann geti tekið undir þá skoðun mína eða vilji að minnsta kosti fara yfir það hvort skynsamlegt væri fyrir okkur að hafa óháð fjármálaráð sem hefði aðhald á stjórnmálunum þannig að við stjórnmálamennirnir gætum ekki látið byrðarnar fara yfir á komandi kynslóðir heldur þyrfti að setja strangari reglur um það (Forseti hringir.) hvernig við gætum haft útgjöldin úr ríkissjóði.