Fjárlög 2013

Fimmtudaginn 13. september 2012, kl. 12:27:02 (0)


141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:27]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta. Ég og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson erum sammála hvað þetta varðar að mörgu leyti og þess vegna ber ég aukna von í brjósti um að við náum að halda enn betur utan um þetta varðandi það fjárlagafrumvarp sem hér um ræðir og þó helst vinnulagið til framtíðar, að við náum að móta reglurnar með öðrum hætti en verið hefur.

Ég er sammála því að það á að taka mark á utanaðkomandi aðilum, utan stjórnsýslunnar, utan Stjórnarráðsins og opinberra stofnana. Þeir gætu verið úr atvinnulífinu, frá stéttarfélögum, innan háskólanna o.s.frv. Fjölmargir hafa möguleika og þekkingu til að rýna í fjárlagafrumvarp og ákvarðanir stjórnvalda varðandi fjármál ríkisins hverju sinni, hvort sem það er ríkisstjórnar eða þings. Svo að við rifjum aftur upp það sem okkur var kynnt í vetur í ferð okkar til Svíþjóðar þá er þar sérstakt ráð skipað innlendum og erlendum aðilum sem rýnir slík mál án þess að hafa nokkurt vald til að beita tillögum sínum eða ábendingum annað en að leggja þær fram.

Erlendir aðilar hafa fylgst talsvert með því sem hefur gerst á Íslandi undanfarin þrjú, fjögur ár vegna þeirra atburða sem hér gerðust þegar samfélagið fór allt á hliðina haustið 2008 og jafnvel frekar út frá þeim sjónarhóli hvernig hefur tekist að bæta úr. Þar eru tónarnir frekar á einn veginn og menn almennt sammála um að vel hafi tekist til. Ég bendi hins vegar á að eitt eru tölur og annað er fólk. Hagfræðin og raunveruleikinn fer ekkert endilega saman. Við erum í pólitík og við stjórnmálamenn þurfum auðvitað að sinna þeim hluta fjárlaganna (Forseti hringir.) og fjárlagafrumvarpsins óháð því í raun og veru að vera blinduð af tölunum, mínusunum og plúsunum, og taka tillit til fólksins í landinu, íbúanna, (Forseti hringir.) því að á bak við allar þessar tölur er fólk.