Fjárlög 2013

Fimmtudaginn 13. september 2012, kl. 12:48:39 (0)


141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég tek undir með hv. þingmanni að fara þarf mjög vandlega yfir þetta mál. Það sem ég set fyrst og fremst út á — ég ætla ekki að vera með nein stór orð um það hversu skynsamleg þessi framkvæmd er en ég segi eins og hv. þingmaður, ég hef auðvitað efasemdir um sumt í henni en get auðvitað keypt annað.

Það sem ég vildi kalla fram er þessi heimild til framkvæmdarvaldsins, þ.e. þegar búið er að afgreiða málið er því sleppt lausu. Það vinnst því hugsanlega ekki tími fyrir þingið til að fara efnislega vel yfir málið og hvað það í raun og veru þýðir. Í ljósi reynslunnar tel ég ekki skynsamlegt að gera þetta svona. Það ætti að liggja fyrir nákvæm kostnaðaráætlun um hvað þetta ætti að kosta, hverju ætti að verja í það á næstu árum en ekki setja á svona opnar heimildir um að það megi bara hefja verkið. Við gerum okkur öll grein fyrir því að þegar búið er að setja tugi milljarða í verkefni hætta menn ekki. Það gerist ekki þannig.

Síðan vil ég líka spyrja hv. þingmann um eitt atriði sem ég hef áhyggjur af. Nú er farið að færa töluvert af skuldbindingum ríkissjóðs með óbeinum hætti, ég vil kannski vera orðvar, fyrir utan efnahaginn. Við sjáum hjúkrunarheimili sem er verið að byggja núna og sveitarfélög taka yfir og ríkið skuldbindur sig til að takast á hendur þær skuldbindingar sem verða þegar hjúkrunarheimilin eru byggð. Nýjasta dæmið sem var samþykkt hér í vor er Vaðlaheiðargöngin. Hefur hv. þingmaður áhyggjur af því að slík þróun sé að verða, hin svokallaða gríska leið sem stundum er kölluð, að menn fari í einhverjar framkvæmdir og setji til hliðar? Síðan koma skuldbindingarnar í bakið á okkur seinna meir og þá væntanlega á komandi kynslóðum. Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að við þurfum að fara mjög varlega og helst ekki inn á þessa braut og að allar skuldbindingar og allt sem liggur fyrir komi fram í fjárlögum?