Fjárlög 2013

Föstudaginn 14. september 2012, kl. 10:43:11 (0)


141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[10:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra svörin. Það er alveg rétt hjá honum að það er algjör óvissa um fjárfestingaráætlunina sem ríkisstjórnin kynnti með pompi og prakt í fyrravor. Þessir óvissuþættir eru margir. Það er ekki bara óvissan um veiðigjaldið eins og við vitum og hæstv. ráðherra sagði, það er líka óvissa um sölutekjur af eignum ríkisins. Það liggur ekkert fyrir með hvaða hætti verður staðið að því.

Við vitum að í núgildandi fjárlögum er til dæmis gert ráð fyrir sölutekjum vegna sölu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Það er augljóst að af því verður ekki á þessu ári og við vitum ekki hvaða áform hæstv. ríkisstjórn hefur að öðru leyti um sölu á fjármálafyrirtækjum. Er verið að tala um sölu á sparisjóðum? Er verið að tala um sölu á einstökum bönkum eða hvað er þarna verið að tala um? Síðan er líka óvissa um veiðigjaldið.

Mér sýnist, virðulegi forseti, talsverð óvissa um þetta verkefni sem ég er að spyrjast fyrir um. Það hlakkar ekki í mér yfir því. Ég vona svo sannarlega að við finnum lausn á því og getum séð til þess að þetta verkefni verði að fullu fjármagnað. Ég veit að við hæstv. ráðherra deilum skoðunum þar um. Við erum algjörlega sammála um það. Það er mjög mikilvægt verkefni sem verður auðvitað að hrinda í framkvæmd. Þess vegna finnst mér enn við þessa umræðu að það sé mikil óvissa um það með hvaða hætti verði staðið að þessu máli, líka í ljósi þess að í greinargerð fjárlagafrumvarpsins og fylgiriti er vísað til fjárfestingaráætlunarinnar á annan veginn en síðan er sagt að það sé forgangsatriði að tryggja að þau markmið í ríkisfjármálum sem sett eru fram náist. Þess vegna er ljóst að fjárfestingaráætlunin hlýtur alltaf að verða víkjandi í þeim efnum. Ef það skarast við hugmyndirnar um að ná þessum árangri sem menn stefna að varðandi ríkisfjármálin verður fjárfestingaráætlunin væntanlega víkjandi og tekjurnar sem úr henni koma notaðar til að ná þeim árangri sem (Forseti hringir.) ætlunin er að stefna að.

Ég vil bara árétta spurninguna til hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra að með þessum hætti sé búið að tryggja nægilegt fjármagn til þessa tiltekna verkefnis með þeim áformum sem uppi eru með fjárfestingaráætlun og því sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu?