Fjárlög 2013

Föstudaginn 14. september 2012, kl. 12:39:35 (0)


141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég get tekið undir orð hans um hinar skapandi greinar. Það var einmitt gerð þessi merkilega rannsókn sem sýndi að velta skapandi greina var á pari við þungaiðnað, og það fannst mér vera mjög mikilvægt innlegg í umræðuna um atvinnumál. Ég held að í öllu falli hafi hún gert mörgum ljóst að þegar við ræðum um atvinnumál verðum við að horfa til fjölbreytninnar og til þess sem við eigum í okkar hugviti, hvort sem það er í hinum skapandi greinum eða rannsóknum og þróun.

Þar er vissulega menntunin undirstaða. Það er rétt hjá hv. þingmanni að í þeim lið sem spurt er um, menntun til kvikmyndagerðar, er undir styrktarsamningur við Kvikmyndaskóla Íslands. Ég vil benda á að sá liður hefur hækkað í kreppunni ólíkt mörgum öðrum liðum og farið úr 38 millj. kr. ef ég man rétt, ég treysti mér ekki alveg til að nefna upphæðina en hún var rétt undir 40 millj. kr. í upphafi kreppu. Sá samningur stendur núna í kringum 56 millj. kr. Eins og ég sagði áðan í svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur höfum við hug á því að lokinni stefnumótun, þar sem mikil gróska er í námi í kvikmyndagerð og mikill áhugi, að horfa til þess hvernig við getum eflt þetta starf enn frekar, bæði í Kvikmyndaskóla Íslands og öðrum námsbrautum sem snúa að kvikmyndanámi. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að þetta nám þurfi að efla.

Hvað varðar greinina almennt finnst mér rétt að minnast á að í fyrra náðist samkomulag við fagfélög kvikmyndagerðarmanna um eflingu kvikmyndasjóða. Það boðar aukningu, en ég vonast líka til þess að í þeim framlögum sem boðuð voru í verkefnasjóð skapandi greina í fjárfestingaráætlun ríkistjórnarinnar sem kynnt hefur verið, muni líka falla fjármunir til þessarar greinar eins og annarra skapandi greina. Ég held að það sé mikilvægt skref og ég held að það sé mikilvægt (Forseti hringir.) að í hinu nýja atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti verði þessi málaflokkur líka tekinn fyrir, auk þess sem hann á heima í mennta- og menningarmálaráðuneyti.