Fjárlög 2013

Föstudaginn 14. september 2012, kl. 12:44:44 (0)


141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Af því að spurt er beint um Kvikmyndaskólann er hann með samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið og ég reikna með því að sá samningur verði framlengdur þegar gildistími hans rennur út. Ég held því að ég svari þessu alveg skýrt.

Hv. þingmaður nefndi endurgreiðslur til kvikmyndagerðar sem ekki heyra undir ráðuneyti mennta- og menningarmála heldur ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar. Og þar sem ég er staðgengill atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í dag og mun koma fram sem slíkur hér á eftir vil ég taka það fram að þetta er eitthvað sem mér finnst rétt að ræða þegar að þeirri umræðu kemur. Við þurfum að ræða þau áhrif sem endurgreiðslurnar hafa haft og hvernig best verði gert ráð fyrir þeim þegar kemur að fjárlagavinnu því að það er mikilvægt að gera skýrar áætlanir í þessum efnum. En ég held að enginn efist um að þetta hefur haft mjög mikil áhrif út í samfélagið til atvinnusköpunar á þessu sviði.

Mig langar að nota færið af því að ég á hálfa mínútu eftir, til að nefna íþróttamálin, af því að ég var spurð um það áðan og náði ekki að svara. Það snýr að afreksstefnu í íþróttum sem hefur verið sett fram í íþróttastefnu ríkisins. Ég vil minna á að framlag í afrekssjóð var aukið verulega í fjárlögum í fyrra, var hækkað úr 24 millj. kr., um 10 millj. kr. þannig að ég vil minna á að þar hefur orðið hækkun. Ég held líka að það sé mjög mikilvægt að horfa til lengri tíma. Það sem ég vil helst sjá gerast er að sett séu markmið í þessum málum til lengri tíma, ekki bara hvað varðar afrekssjóðinn heldur líka ferðasjóðinn og sérsamböndin þannig að íþróttahreyfingin hafi skýrari vissu um það hvert fjárveitingar stefni, m.a. til undirbúnings fyrir stórmót sem eru tíð, til að mynda eru Ólympíuleikar á fjögurra ára fresti og vetrarólympíuleikar þess á milli. Það er mikilvægt að fyrir liggi skýrar áætlanir um fjármagnið.