Fjárlög 2013

Föstudaginn 14. september 2012, kl. 12:54:33 (0)


141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er alltaf erfitt að fara í samanburð á þessu sviði. Við getum nefnt að uppbygging íþróttamannvirkja, svo að dæmi sé tekið, hefur að mestu leyti verið í höndum sveitarfélaga. Þau hafa tekið mjög ríkan þátt í íþróttastarfi barna og ungmenna þannig að það er erfitt að bera það saman við menningu og listir þar sem stofnkostnaður menningarstofnana hefur meira verið á höndum ríkisins en íþróttamannvirki.

Ég tek hins vegar undir það með hv. þingmanni að gott væri að hafa rýmri tíma til að ræða þennan samanburð almennt. Við höfum tekið saman — og það er kannski betri samanburður — framlög til íþróttamála hér af hálfu ríkis og sveitarfélaga samanborið við önnur Norðurlönd. Þar má til að mynda sjá að þótt við tölum hlutfallslega hafa Íslendingar, og ríkið þá sérstaklega, lagt minna til íþróttamála en gerist annars staðar á Norðurlöndum. Það sprettur væntanlega af ákveðinni sögulegri hefð því að þetta virðist almennt hafa verið tilhneigingin í gegnum árin. Í ljósi nýrrar íþróttastefnu finnst mér þó full ástæða til að endurskoða það. Eins og ég nefndi áðan þurfum við að velta fyrir okkur framtíðarsýninni í þessum málaflokki.

Kannski má segja það sama um æskulýðsmálin. Þar höfum við reynt að hlífa — menningarstofnanir og æskulýðsmál urðu fyrir 10% niðurskurði í fyrsta frumvarpinu sem ég tók þátt í, sem snerist þá um fjárlög 2010. Í frumvarpinu þar á eftir var hins vegar ákveðið að reyna að hlífa íþrótta- og æskulýðsmálunum umfram annað og þá með hag barna og ungmenna að leiðarljósi. Við höfum reynt að hafa það að leiðarljósi.

Munurinn á þessum tölum er sá að þessi framlög taka sjaldnast verðlagsuppfærslu, því að um frjáls félagasamtök er að ræða, á meðan stofnanir fá verðlagsuppfærslu. Ég hef stundum velt því upp, og ég veit að það er flókin umræða tæknilega, hvort stofnanaígildi ættu hugsanlega að fá verðlagsuppfærslu þótt um frjáls félagasamtök sé að ræða. (Forseti hringir.) Það er kannski umræða sem hæstv. fjármálaráðherra er betur til þess fallinn að taka en ég, því að það á við um miklu fleiri aðila en aðeins á þessu sviði.