Fjárlög 2013

Föstudaginn 14. september 2012, kl. 13:03:50 (0)


141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ekki gert ráð fyrir þessum breytingum á lánasjóðnum í þessu fjárlagafrumvarpi enda er ólíklegt að þær mundu birtast í fjárlögum næsta árs. Þarna er verið að tala um útreikninga fram í tímann þar sem gert er ráð fyrir að höfuðstóll skerðist. Kostnaðargreiningin snýr þá að því hvaða áhrif það hafi á eiginfjárstöðu sjóðsins. Í núverandi ástandi vitum við að lánin eru að verulegu leyti niðurgreidd þannig að það sem er verið að reikna út núna er munurinn til framtíðar fyrir eiginfjárstöðu en það ætti ekki endilega að hafa áhrif á fjárlög næsta árs eins og ég hef skilið málið.

Hv. þingmaður spyr um þennan lið. Þarna er fyrst og fremst um að ræða tvö tímabundin verkefni sem er lokið, þ.e. verkefni um rafrænt aðgengi allra að námsferli sínum allt frá grunnskóla til háskóla. Þetta er hluti af verkefnum íslenska upplýsingasamfélagsins sem telst vera lokið þannig að það fellur niður. Síðan er annað tímabundið verkefni um samstarf háskóla-, þekkingar- og fræðasetra á Vestfjörðum sem var tveggja ára þróunarverkefni sem má kalla að sé lokið. Síðan bætast við þessar 12 milljónir 5 millj. kr. almennt aðhald sem er þá 1% aðhald á þennan lið.