Fjárlög 2013

Föstudaginn 14. september 2012, kl. 17:24:05 (0)


141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Reyndar er ég ekki alveg sammála þessu um lægstu álögurnar á íslenskt atvinnulíf vegna þess að af einhverjum ástæðum hafa fjárfestingar hér á landi dregist verulega saman eftir hrun. Það er eiginlega allt í frosti, að því mér er sagt. Ef hér væru lægstu álögur á atvinnulíf og ef menn hefðu fullt traust á framtíðinni og lagaumhverfinu og skattumhverfinu, af hverju er þá ekki fjárfest miklu meira? Af hverju er ekki miklu meiri gangur í atvinnulífinu? Það er ekki neinn gangur í atvinnulífinu. Það er stöðugur flótti fólks til útlanda sem ætti að valda áhyggjum hjá atvinnuvegaráðuneytinu. Auk þess er stór hópur fólks að fara af atvinnuleysisbótum yfir á sveitarfélögin og þar af leiðandi lækka tölur um atvinnuleysi. Ég held að menn ættu að hafa miklu meiri áhyggjur af þessu í stað þess að segja stöðugt að íslenskt atvinnulíf búi við lægstu álögur í heiminum og sé fullkomlega samkeppnishæft. Það er það greinilega ekki.

Það má vel vera að óvissan hafi hér áhrif og þau merki sem ríkisvaldið er að senda. Það er ekki staðið við samninga við álfyrirtækin. Það er ekki staðið við samninga um tryggingagjaldið. Atvinnulífið hefur engu að treysta gagnvart ríkisvaldinu. Ætli það sé ekki mesta óvissan. Svo kemur sjávarútvegurinn, hann er stöðugt í skotlínunni. Það er stöðugt verið að ráðast á sjávarútveginn. Hvaða fólk vill fjárfesta í svona landi? Ég bara spyr.