Bókasafnalög

Miðvikudaginn 19. september 2012, kl. 17:30:04 (0)


141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

bókasafnalög.

109. mál
[17:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa rætt málið og reikna með því, eins og ég sagði áðan, að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari síðan vel yfir efnisatriði málsins.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir beindi til mín nokkrum spurningum, m.a. um héraðsbókasöfn. Rétt er að nokkur sveitarfélög geta, eins og fram kemur í frumvarpinu, sameinast um rekstur bókasafna og kallað þau héraðsbókasöfn. Þau heyra undir þessi lög rétt eins og önnur almenningsbókasöfn.

Hvað varðar fjárframlög og upplýsingar um þau til bókasafna þá kemur fram í 18. gr. að framlögin skuli ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun sérhvers sveitarfélags og að þau skuli svo ákveðin innan stofnana í ítarlegum fjárhagsáætlunum. Hv. þingmaður nefndi upplýsingaöflun ráðuneytisins sem hún vísar til í … (Gripið fram í: 14. gr.) — já, einmitt, 14. gr., tölfræðilegar upplýsingar. Ég var að leita að þessari grein. Þakka þér fyrir, hv. þingmaður.

Á undanförnum árum höfum við orðið vör við, ekki bara í bókasafnamálum heldur öllum þeim málum sem undir ráðuneytið heyra, að ítarlegar tölfræðilegar upplýsingar skipta okkur gríðarlegu máli sem stefnumótandi aðila í máli viðkomandi stofnana. Nokkuð hefur skort á að tölfræðilegar upplýsingar hafi verið í lagi hvað varðar bókasöfn. Það er ástæðan fyrir því að þetta er lagt til. Við höfum verið með tölur frá sérfræðisöfnum en minna frá til að mynda almenningsbókasöfnum. Sérfræðisöfnin hafa skilað til Hagstofunnar en almenningsbókasöfnin hafa skilað til okkar. Þetta hefur verið með ýmsum hætti milli ólíkra tegunda bókasafna. Okkur finnst mikilvægt að þessar upplýsingar liggi fyrir. Þetta snýst ekki endilega um eftirlit ráðuneytisins heldur hreinlega að almenningur hafi aðgang að tölfræðilegum upplýsingum um bókasafnamál. Núna eru ekki fullnægjandi upplýsingar fyrir hendi hjá Hagstofunni. Ég lít svo á að þetta sé mjög mikilvægt til að stjórnvöld á hverjum tíma, sveitarstjórnir og þeir sem fara með völd í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, geti tekið ákvarðanir sem byggjast á gögnum. Um það snýst þessi grein en ekki um upplýsingasöfnun í öðrum tilgangi en þeim að hægt sé að taka ákvarðanir byggðar á gögnum.

Hvað varðar stjórnir almenningsbókasafna, sem hv. þingmaður spyr um, þá er í gildandi lögum gert ráð fyrir ákveðnum ákvæðum og við höldum því inni. Við héldum líka inni stjórn í lögunum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Hv. þingmaður spurði hvort ekki væri verið að hverfa almennt frá stjórnum í stofnunum. Það er alveg rétt, það hefur vissulega verið ákveðin tilhneiging. Mér hefur þótt mikilvægt, og það mun til að mynda koma fram í lögum um sviðslistir þar sem lagt er til að þjóðleikhúsráð verði áfram, að hafa það sem við getum kallað ráðgefandi stjórnir til að taka að sér faglega ráðgjöf fyrir viðkomandi forstöðumann. Það breytir engu um ábyrgð forstöðumannsins heldur er stjórninni ætlað það hlutverk að vera til ráðgjafar og skapa faglegan samráðsvettvang fyrir viðkomandi forstöðumann. Það hefur ekki verið stefna mín að fækka stjórnum, en mér finnst hins vegar mikilvægt að hlutverk þeirra sé vel skilgreint og að forstöðumenn hafi faglegan samráðsvettang, sem ég held að hverjum forstöðumanni sé mjög mikilvægt.

Hljóðbókasafn er nefnt hér. Það er mjög mikilvægt. Eins og kemur fram í frumvarpinu þá fær Blindrabókasafnið þetta nýja heiti til að skerpa á hlutverki þess. En með frumvarpinu er líka lögð áhersla á samstarf safna. Þar með ætti að vera auðveldara fyrir þá hópa sem vilja nýta sér þjónustu Hljóðbókasafnsins að nýta sér hana, m.a. með millisafnaláni í gegnum almenningsbókasafn sitt eða skólabókasafn, eins og hv. þingmaður nefnir. Það hefur orðið hljóðlát bylting hjá skólabókasöfnum þessa lands með Gegni og í gegnum leitir.is. Við erum búin að búa til ofboðslega flott upplýsingakerfi sem ég held að við eigum að taka okkur til fyrirmyndar þegar kemur að öðrum þáttum menningararfsins um hvernig við getum haft þá aðgengilega. Ég held að stafrænt aðgengi að menningararfinum sé sameiginlegt áhugamál þeirra hv. þingmanna sem eru staddir í salnum. Samstarfið er því þegar orðið. Það má kannski segja að við séum að lögfesta, ef þetta frumvarp verður að lögum, þá stefnu sem við höfum þegar tekið í gegnum stofnanir okkar í þeim málum.

Svarið er tvímælalaust játandi. Það er einmitt ætlunin að notendur geti nýtt sér þjónustu á milli safna óháð því hvar þeir eru í sveit settir.

Varðandi gjaldtökuheimildir er vísað í skólabókasöfn sérstaklega, að þar sé ekki beitt sektum. Þar ganga ákvæði grunnskólalaga framar þessum lögum. Ef um er að ræða dæmi þar sem almenningsbókasafn veitir grunnskóla þjónustu sína samkvæmt sérstökum samningi þar að lútandi því að lögum samkvæmt reka grunnskólar bókasöfn, þeir geta þó samið við almenningsbókasafn um þá þjónustu, þá reikna ég með, en tel þó rétt að nefndin skoði það nákvæmlega, að sú túlkun gildi að veiti almenningsbókasafn þessa þjónustu gildi lagaheimild í grunnskólalögunum um sektarheimildir.

Ég tel að þetta hafi svarað nokkurn veginn spurningum hv. þingmanns.

Hv. þm. Skúli Helgason kom líka með margar góðar athugasemdir sem ég veit að eiga eftir að nýtast við áframhaldandi vinnu hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni. Ég veit að eftir þá vinnu sem á undan er gengin og hefur tekið nokkur ár og eftir það samráð sem hefur verið haft að talsverð eftirvænting ríkir hjá bókasafns- og upplýsingafræðingum og þeim sem starfa á bókasöfnum og þessum þekkingarveitum eins og þær eru kallaðar í frumvarpinu sem ég tel að sé réttnefni. Ég veit að það er eftirvænting eftir því að þetta frumvarp verði að lögum, eftir því hefur verið beðið, og ég vona að vinna hv. allsherjar- og menntamálanefndar við málið gangi vel.