Umræður um störf þingsins 25. september

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 14:05:57 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Nú í hádeginu voru tvær nefndir þingsins á fundum með ríkisendurskoðanda þar sem við ræddum mál sem kom fram í Kastljósi í gær. Á þessum fundi kom fram, og ég get sagt frá því vegna þess að fundurinn var opinn fréttamönnum, að ríkisendurskoðandi hefur óskað eftir lögreglurannsókn vegna upplýsingaleka.

Mig langar að tengja þetta mál við frumvarp stjórnlagaráðs sem verður þjóðaratkvæðagreiðsla um 20. október vegna þess að þar eru tvær greinar í mannréttindakaflanum sem eru afskaplega mikilvægar. Það er 15. gr. sem heitir upplýsingaréttur og fjallar um rétt manna til upplýsinga og sú 16., um frelsi fjölmiðla, þar sem meðal annars er kveðið á um vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara og að þá vernd skuli tryggja í lögum. Hér erum við komin með dæmi um hvað slíkt skiptir ákaflega miklu máli. Ég vil benda á það og vekja jafnframt athygli á því að þetta er einmitt spurningin um hvort við viljum gamla eða nýja Ísland. Viljum við þjóðfélag þar sem menn leyna upplýsingum og krefjast lögreglurannsóknar vegna þess að menn deila upplýsingum, sem almenningur á rétt á, um hvernig farið er með fjármuni okkar eða viljum við eitthvað annað?