Umræður um störf þingsins 25. september

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 14:09:51 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegi forseti. Það voru vissulega mjög alvarlegar upplýsingar sem fram komu í umfjöllun Kastljóss í gærkvöldi og mjög alvarlegar upplýsingar sem fram komu á fundi fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í hádeginu. Það er nauðsynlegt fyrir þingið sem hefur Ríkisendurskoðun sem sitt verkfæri að fara mjög vandlega yfir þetta mál, skoða tilurð þess og hvað fór úrskeiðis rólega og yfirvegað. Það eru mjög alvarlegar vísbendingar á ferðinni. Fram kom í svörum Ríkisendurskoðunar að vísað var til skýrsludraga sem ekki höfðu verið fengin viðbrögð við, en í málinu öllu blasir það engu að síður við að það sem aldrei má gerast þegar Ríkisendurskoðun er annars vegar hefur gerst, þ.e. trúverðugleiki hennar hefur beðið nokkurn skaða af þessu máli og umfjölluninni.

Ég held að ég verði að taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Þórs Saaris áðan og segja: Það þarf að fara fram sjálfstæð rannsókn á málinu vegna þess að það snýst ekki lengur um það hvort Ríkisendurskoðun eða einhver annar hafi brotið lög heldur snýst það fyrst og fremst um það að við verðum að geta borið traust til stofnana ríkisvaldsins og þegar það brestur verðum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sameinast um að endurheimta það traust. Það er algert grundvallaratriði í samskiptum þingsins við Ríkisendurskoðun og almenning allan.