Umræður um störf þingsins 25. september

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 14:26:00 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Menn ræða hér þjóðaratkvæðagreiðsluna sem er fram undan. Hér hefur verið sagt að greiða eigi atkvæði um þjóðareign á auðlindum. Það er vitanlega ekki þannig heldur er verið að gera skoðanakönnun á því hvort fólk vilji að slíkt ákvæði sé í stjórnarskránni. Það er fyrst og fremst verið að gera könnun. Ég ætla ekki að standa hér og segja hvort fólk eigi að mæta eða ekki eða hvað það eigi að gera í þessari könnun, það verður sjálft að meta það.

Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af og hef haft mjög lengi er sú forgangsröðun sem stjórnarflokkarnir og helstu stuðningsmenn þeirra í þinginu hafa, eins og að leggja höfuðáherslu á að breyta stjórnarskránni eftir síðustu kosningar. Það hefði ekki að mínu viti átt að vera forgangsmál. Forgangsmálið er að sjálfsögðu að fara í þau verk sem brenna brýnast á heimilunum og fyrirtækjunum. Það lýtur að því að lækka skuldir heimilanna. Það á að vera forgangsmál. Það á að vera forgangsmál að reyna að breyta verðtryggingunni, setja á hana þak, reyna að hemja þessa ófreskju sem verðtryggingin er með einhverjum hætti, og það á að vera forgangsmál að fara hér í mjög ákveðna og massífa atvinnuuppbyggingu. Þess í stað er höfuðáherslan lögð á að breyta stjórnarskránni sem að mínu viti hefur í sjálfu sér ekkert til saka unnið. Hin gamla stjórnarskrá sem hér hefur verið við lýði býsna lengi er ágæt. Það má hugsanlega breyta einhverju í henni, eins og að styrkja auðlindaákvæðið, ég tek undir það, en að eyða öllu þessu púðri í stjórnarskrána eru mikil mistök.

Mig langar að benda á eitt enn sem kom hér fram varðandi Ríkisendurskoðun. Ef grunur er um þjófnað hlýtur að sjálfsögðu sá er telur að frá sér hafi verið stolið að kæra, hvort sem það er Ríkisendurskoðun eða einhver annar. Það breytir þó engu um það að þær upplýsingar sem virðast vera í þessum gögnum eru algjörlega galnar. Ef búið er að fara marga milljarða fram úr áætlun (Forseti hringir.) og ekki hægt að skýra það með réttum og lögmætum hætti þá er það óásættanlegt.