Fyrirkomulag umræðu um störf þingsins o.fl.

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 14:36:44 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fyrirkomulag umræðu um störf þingsins o.fl.

[14:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fá leiðbeiningu hjá virðulegum forseta því að þessi umræða hefur verið, eins og hv. þm. Ólöf Nordal kom inn á, svolítið skrýtin, m.a. fór hv. þm. Mörður Árnason fram á það að ég kæmi upp undir liðnum störf þingsins til að útskýra fyrir honum afstöðu sjálfstæðismanna í stjórnarskrármálinu. Hv. þm. Mörður Árnason vissi vel að ég gat það ekki og hefði enga möguleika á því. (Gripið fram í.) Ég tek því undir það sem hv. þm. Ólöf Nordal sagði, að mikilvægt er að skoða þetta í þessari nefnd.

Ég velti því þó upp, virðulegi forseti, varðandi dagskrá þingsins hvort ekki sé rétt, vegna þess að hingað kom stjórnarþingmaður sem er mjög vel að sér, þekkir málið mjög vel, og hann hafði augljóslega ekki fengið sjónarmið Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir að umræða væri nokkuð löng og jafnvel kölluð málþóf, en hún hefur víst ekki verið nógu löng þar sem hv. stjórnarþingmenn eru ekki búnir að fá skilaboðin, (Forseti hringir.) hvort við ættum ekki að setja málið aftur á dagskrá.