Fjáraukalög 2012

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 15:05:10 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:05]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það hvernig eigi að koma til móts við fjárhagsvanda landbúnaðarháskólanna, annars vegar á Hólum og hins vegar á Hvanneyri. Þeir hafa búið við uppsafnaðan halla allt frá því að þeir voru gerðir að háskólum. Leysa átti úr því þegar þeir voru færðir á milli ráðuneyta en það hefur ekki verið gert.

Mér er kunnugt um að gefin hafa verið loforð um að þessi uppsafnaði halli yrði leystur á fjáraukalögunum á síðasta ári. Ég veit að einnig var búið að gefa fyrirheit um að hann yrði líka leystur á þessu ári. Nú sér þess hvergi stað heldur í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Þó að ráðherrann sé að tala um að taka eigi almennt á stofnunum hvað þetta varðar þá er um að ræða áralangan uppsafnaðan halla sem margoft er búið að lofa að verði greiddur upp þannig að stofnanirnar beri hann ekki. En þess sér ekki stað.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað veldur og hvernig á málum verði tekið af ráðherrans hálfu.