Fjáraukalög 2012

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 15:15:48 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:15]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við ræðum hér árlegt verkefni og sígilt viðfangsefni, þ.e. fjáraukalög, og nú fyrir árið 2012. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gert ágæta grein fyrir innihaldi frumvarpsins og helstu stærðum þess í krónutölum, það er enn þá gert í krónum þó að einhverjir vildu gera það í einhverjum öðrum gjaldmiðli, en við skulum láta það liggja á milli hluta.

Fjáraukalagagerð vekur mann eilíflega til ákveðinnar umhugsunar um það hvernig við viljum sjá þennan margumrædda aga koma með fastari, stífari og betri hætti inn í allt fjárlagaferlið, alla vinnuna við þetta o.s.frv.

Ég staldra aðeins við þær vangaveltur mínar á hvaða vegferð við erum með ríkissjóðinn þegar við sjáum þess stað í fjáraukalagafrumvarpinu, og eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að lánsfjárhluti samkvæmt 3. gr. hækkar úr 115 milljörðum í 217 milljarða kr. Þetta er 112 milljarða hækkun á milli ára. Á móti er að sjálfsögðu líka viðbótin í afborganir lána upp á 118 milljarða, en það er alveg ljóst af þeirri samantekt sem maður sér í frumvarpinu að við erum enn þá að auka skuldir ríkissjóðs og enn meira með því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Eins og kemur fram á bls. 48 í greinargerðinni með frumvarpinu liggur fyrir að hreinn lánsfjárjöfnuður verður neikvæður um rúma 48 milljarða, þ.e. nettóskuldir munu aukast um tæpa 50 milljarða kr. á árinu 2012 að því gefnu að þessar tillögur gangi eftir og áhrif þeirra tillagna sem hér eru kynntar og lagðar fram af hæstv. ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar kalla á það að skuldaaukningin nettó verði 5 milljörðum lakari en var í fjárlögum ársins sem samþykkt voru í desember. Við erum því enn á þeirri leið að bæta í skuldasúpuna og virðumst ekki, að mínu mati, ná þeim ákveðnu tökum á því sem flestir vonast eftir.

Við sjáum það í þeirri töflu sem birt er á bls. 46 og greinargerðinni með henni, og eins og kom fram í andsvörum áðan milli mín og hæstv. ráðherra, að gert er ráð fyrir að endurskoðuð áætlun um afkomu fjárlagaársins 2012 verði hærri í krónutölum en fjáraukalagafrumvarpið sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir. Með öðrum orðum, afkoman er áætluð verða að minnsta kosti 3 milljörðum verri þegar reynt er að leggja mat á áætlaða útkomu en sú tillaga sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir. Það vekur manni upp spurningar hvers vegna þetta er gert með þessum hætti. Það er reynt að skýra þetta í greinargerðinni með frumvarpinu. Með leyfi forseta vil ég fá að lesa upp þann texta sem þar um ræðir. Hann hljóðar svo:

„Á rekstrargrunni er áætlað að heildargjöld ársins verði 3,2 milljarða umfram þær fjárheimildir sem hér er sótt um. Skýrist það einkum af því að í mati á endanlegri útkomu ársins getur verið reiknað með umframgjöldum sem ekki eru gerðar tillögur um í frumvarpinu, t.d. útgjöldum sem byggja á afgangsheimildum fyrri ára,“ — og svo kemur þessi setning — „umframútgjöldum sem ekki er mætt með auknum fjárheimildum …“

Það er þessi kafli greinargerðarinnar sem vekur mér nokkurn ugg, sérstaklega ef maður lítur til reynslu liðinna ára. Nærtækt er í því efni að horfa til árangursins á árinu 2011. Ef við skoðum frammistöðu stjórnvalda þess árs, við framfylgd þeirra fjárheimilda og fjárlaga sem samþykkt voru, þá er það eitthvað sem vekur manni ugg vegna þess einfaldlega að þar er verið að vinna með tillögur sem birtar voru og samþykktar í fjárlögum fyrir árið 2011, fjáraukalögum fyrir það sama ár og jafnframt svokallaðar fyrningar eða afgangsheimildir sem eru fluttar á milli ára. Hvernig lítur þetta út í rauninni?

Gert var ráð fyrir að hallinn á fjárlögum fyrir árið 2011 yrði 37 milljarðar. Niðurstaðan varð allt önnur. Hún varð eftir fjáraukalögin 62 milljarðar og síðan þegar ríkisreikningurinn fyrir árið 2011 var birtur um mitt þetta ár var niðurstaðan neikvæð upp á 89 milljarða, þ.e. halli í raun upp á hátt í 40 milljarða umfram þær heimildir sem samþykktar voru eftir fjáraukalögin. Reynt er að skýra þetta út með einhverjum einskiptisaðgerðum, svo sem eins og með Sparisjóð Keflavíkur og framlag inn í Byggðastofnun. Það skýrir ekki allan þennan þátt, það er langur vegur frá því. Þar er um að ræða 20 milljarða, rétt rúmlega það. Þetta segir mér að utanumhaldið okkar um þessi mál er ekki í nægilega góðu fari og það þarf einfaldlega að vera miklu ríkari vilji til þess eða árangur sem við sýnum en raun ber vitni um síðustu ár.

Þetta hefur verið viðvarandi vandamál. Munurinn hins vegar að kljást við þetta núna er sá að við erum að reyna að keyra og höfum keyrt frá árinu 2009, fjárlögum þess árs, fjárlögin eftir útgjaldamarkmiðum, en meðan allt var hér á blússandi ferð var reynt að stýra þessu eftir afkomumarkmiðum sem er allt annar þáttur.

Útgjaldastýringin sem við tókum upp á árinu 2009 og höfum reynt að halda síðan gerir einfaldlega miklu stífari kröfur til stjórnkerfisins alls og okkar sjálfra um það hvernig við höldum utan um þessa þætti til muna betur en við ætluðum að gera. Það liggur fyrir á því ári sem ég tek hér til samanburðar við árið 2012 að á fjáraukalögum lágu fyrir samþykktar heimildir upp á rétt rúmlega 17 milljarða í lokin þegar gert var ráð fyrir því í fyrstu útgáfu fjáraukalagafrumvarpsins sem kom frá ríkisstjórninni það haust að þetta yrðu um um 12 milljarðar.

Það er segin saga að fjáraukalögin hækka alltaf í meðförum þingsins frá því ríkisstjórnin kemur fram með það fyrst til lokaafgreiðslu. Það má alveg gera ráð fyrir að svo verði einnig nú. Ég vil undirstrika það að flestar þeirra tillagna sem koma inn í fjáraukalögin á milli umræðna og í fjárlögin stafa frá ríkisstjórninni sjálfri. Til viðbótar voru afgangsheimildir síðan nýttar sem stofnanir áttu og fluttu á milli ára, þ.e. rúmir 16 milljarðar kr. Það er nokkuð ljóst að á árinu 2012 eru þær stofnanir enn að ganga á umframheimildir og ekki er gerð nein tilraun til þess í fjáraukalagafrumvarpinu að nálgast þá stærð með nokkrum hætti, heldur látið liggja á milli hluta, og þá gengur þetta þannig að þetta kemur fram í lokafjárlögum á ríkisreikningi um mitt næsta ár. Þetta eru vinnubrögð sem við þurfum að breyta. Við þurfum í fjáraukalagagerðinni að reyna að taka inn þessar afgangsheimildir eða umframfjárheimildir sem ætlunin er að nota frá fyrra ári og merkja þær inn í fjárlögin sjálf með þeim hætti að taka þau í gegnum fjáraukalög.

Ég vil nefna það líka að í frumvarpinu er verið að ræða framlag til Íbúðalánasjóðs, hugsanlega, og ef það komi fram hafi það ekki áhrif á rekstur ríkissjóðsins. Það er hins vegar alveg ljóst að það framlag sem vantar inn í það dæmi mun kalla á aukna skuldsetningu ríkissjóðs sem nemur því framlagi sem sett verður inn í Íbúðalánasjóð, því að ríkissjóður er ekki aflögufær til að taka það af eigin fé og setja inn í stofnunina ef ætlunin er sú að styrkja hana með þeim hætti sem vilji virðist benda til í fjáraukalagafrumvarpinu.

Það er líka sérstakt atriði sem ég vil gera að umtalsefni í tengslum við þá vinnu sem við erum að vinna með í fjárlögum og fjáraukalögum eða þeim frumvörpum sem við fáum til þingsins og til fjárlaganefndar frá hæstv. ríkisstjórn. Fjárlögin eru unnin þannig að við fáum fjárlögin, þingskjal 1, við upphaf hvers þings strax til fjárlaganefndar, byrjum að rýna það, rannsaka, kalla eftir upplýsingum og vinnum með það allt til að geta lagt sjálfstætt mat þingsins á þær tillögur sem frá ríkisstjórninni koma. Þetta er gott, sjálfsagt og skynsamlegt. Það gefur þinginu færi á að nálgast þær upplýsingar og spyrja þeirra spurninga sem nauðsynlegt er varðandi fjárlagagerð hvers árs.

Það bregður hins vegar svo við núna við fjáraukalagagerðina að litið er á það sem trúnaðarmál af forustu fjárlaganefndarinnar. Það hef ég ekki upplifað áður þó að ég hafi setið í fjárlaganefnd frá því ég tók sæti fyrst hér á þingi árið 2007, en nú er litið svo á að fjáraukalagabeiðnir frá ráðuneytum eða stofnunum sem sendar eru inn í fjárlagakerfið og berast síðan ríkisstjórn sem hún eðlilega vinnur úr, séu trúnaðarmál. Það á ég mjög illt með að sætta mig við. Ég beini þeim tilmælum til hæstv. fjármálaráðherra að hlutast til um að þau erindi sem ráðuneytin senda inn, að fjárlaganefndarmenn fái í það minnsta aðgang að þeim til að geta lagt sjálfstætt mat á það hvernig ríkisreksturinn er að þróast, hvernig afkoma einstakra stofnana er o.s.frv.

Ég verð að segja það með fullri virðingu fyrir þeim sjónarmiðum ef menn vilja halda slíkum upplýsingum frá þinginu að ég tel fjárlaganefndarmönnum ekki fært að inna starfsskyldur sínar af hendi ef þeir hafa ekki þau gögn undir höndum. Það er eitt ráðuneyti sem afhenti fjárlaganefnd þetta plagg, innanríkisráðuneytið. Það var ekki vel séð af forustu fjárlaganefndar að svo væri, en það gefur manni hins vegar fyllri upplýsingar um það frammi fyrir hverju við stöndum sem þingmenn, berandi ábyrgð á fjárlagagerðinni og fjárlögum hvers ár. Einnig ber maður líka betra skynbragð á það frammi fyrir hverju forstöðumenn þessara stofnana standa þegar þeir takast á við þann veruleika sem þeim er uppálagt að halda úti samkvæmt þeim lögum sem þingið hefur sett þeim að fara eftir.

Ég ítreka þá ósk mína til hæstv. ráðherra að hlutast til um það að fjárlaganefnd berist þau gögn sem ég hef gert hér að umtalsefni. Annað er gjörsamlega óásættanlegt. Í ljósi okkar fyrri starfa saman í fjárlaganefnd þar sem hæstv. núverandi fjármálaráðherra þekkir mjög vel til hvernig við vinnum þar, þá trúi ég ekki öðru en að á þessu verði gerð bragarbót. Ég treysti því, forseti, að svo verði gert.

Það er annað atriði sem ég vil að lokum gera að umtalsefni í þessari stuttu ræðu minni einfaldlega vegna þess að fram kom hjá hæstv. ráðherra að 28 stofnanir eru með uppsafnaðan halla sem ætlunin er að vinna á með einhverjum hætti. Sjálfum þykir mér ekki nægilega skilmerkilegt eða greinargott með hvaða hætti stofnunum gefst færi á því að fá einhvers konar uppgjör á þennan hallarekstur sinn. Enn fremur skortir heimildir í skriflegu formi eða samþykkt frá Alþingi fyrir því verklagi sem lýtur að uppgjöri halla með þeim hætti sem hér um ræðir. Við höfum til dæmis ekki séð fullnustu þeirra fyrirheita sem gefin voru um svokallaða frystingu halla nokkurra ríkisstofnana. Þetta var gert við fjárlagagerðina fyrir árið 2012. Mér finnst það eðlilegt, vegna þess að að sjálfsögðu mun viðkomandi fagráðuneyti, hvort heldur það er velferðarráðuneytið, innanríkisráðuneytið eða fjármálaráðuneytið, lenda í vandræðum með að fullnusta slík fyrirheit ef hvergi eru heimildir í fjárlögum til að vinna það með þeim hætti.

Því er alveg ljóst að taka þarf á þeim þáttum. Við höfum nýlegt dæmi úr ríkisrekstrinum sem er ekki til neinnar eftirbreytni þar sem við erum með ríkisstofnanir sem reka sig með halla og fjármagna hann á yfirdrætti. Það er með fullri vitneskju fjármálaskrifstofa sem í hverju ráðuneyti starfa. Þetta er atriði sem er mjög brýnt að taka á. Ég veit dæmi þess af einni heilbrigðisstofnun að þessi yfirdráttur kostar þá stofnun 5 milljónir á ári sem er jafnvirði stöðugildis eins hjúkrunarfræðings. Það eru ýmsir svona þættir sem klárlega þarf að taka á og lagfæra. Ég treysti því að svo verði gert.