Fjáraukalög 2012

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 15:31:00 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:31]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir prýðilega yfirferð yfir frumvarp til fjáraukalaga sem ráðuneytið hefur nú þegar kynnt fyrir okkur í fjárlaganefndinni og við munum fjalla formlega um eftir þessa umræðu. Það er ekki ástæða til að hafa langt mál um megindrætti málsins en hæstv. ráðherra og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson röktu þá prýðilega áðan út frá vinnubrögðum, endurmati forsendna og ýmsu. Ég vildi bara tæpa á nokkrum atriðum sem er mikilsvert að séu hér inni og öðrum sem ég tel að þurfi að skoða á milli umræðna, í ljósi þess sem hæstv. ráðherra nefndi áðan um að verið væri að endurmeta stöðu fjárlaga út frá nýrri lagasetningu og ýmsu sem breytist á milli mánaða og missira.

Eitt af því sem breyttist í vor var að Alþingi setti í fyrsta skipti sérstaka heildarlöggjöf um heiðurslaun listamanna. Þar var annars vegar sett ákveðið þak á fjölda þeirra þannig að þeir geta ekki verið fleiri en 25 þó að tímabundið séu þeir fleiri af því að það eru 28 á listanum núna.

Í öðru lagi var laununum breytt. Þau miðast nú við starfslaun þannig að þau hækka lítillega. Það kallar á aukin fjárútlát fyrir þetta ár vegna þess að lögin tóku fyrst gildi 1. september á þessu ári. Það eru um það bil 40 millj. kr. sem þyrftu að renna til þeirra þannig að fjárhæðin stemmi við lagasetninguna á Alþingi í vor þegar sett voru lög um heiðurslaun listamanna. Þetta þarf auðvitað að ríma saman og ég ætla ekki að meta það af hverju þetta kom ekki inn í skoðun ráðuneytanna á breyttum forsendum. Kannski af því að þetta er ákvörðun Alþingis hverju sinni. Þetta lýtur sérstökum vinnureglum sem eru þær að fjárlaganefnd sjálf gerir tillögur fyrir 3. umr. fjárlaga hverju sinni um listann um heiðurslaun listamanna, núna eftir ákveðnum „kríteríum“, ábendingum og faglegu mati frá fleiri aðilum o.s.frv. Þetta hefur einhvern veginn orðið út undan í þessari skoðun. En til að þetta gangi allt upp og lög standi sem samþykkt voru í vor þarf að bæta þessum fjárheimildum við. Ég legg þetta því inn í umræðuna og við munum að sjálfsögðu kalla eftir því í fjárlaganefnd að þetta verði skoðað.

Það er mjög ánægjulegt að málefnum Íslenskrar ættleiðingar er mætt hérna. Innanríkisráðuneytið óskar eftir 15 millj. kr. fjárheimild til að tryggja rekstrargrundvöll Íslenskrar ættleiðingar. Það kemur fram að fjárveitingin er hugsuð sem viðbót við þær 9,2 millj. kr. sem veittar eru í fjárlögum 2012 til að unnt verði að tryggja þá grunnþjónustu sem félaginu er ætlað að sinna. Félagið hefur mjög mikilsverðar skyldur og skuldbindingar. Það er ekki eingöngu félag fyrir þá sem ætla að ættleiða börn eða hafa gert það heldur hefur það heilmiklar stjórnskipulegar skyldur hvað varðar aðdragandann að því að pör ættleiði barn.

Fyrir liggja drög að þjónustusamningi á milli ráðuneytisins og félagsins sem hafa verið lengi til umræðu og við tókum þau sérstaklega upp í allsherjar- og menntamálanefnd fyrr á þessu ári til að fjalla um málið og ýta á eftir því. Það hefur ekki verið unnt að ljúka samningnum sem skiptir auðvitað mjög miklu máli. Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra hefur mikinn metnað til að gera það og auðvitað aðrir sem að þessu koma. Að mati félagsins hefur vantað rekstrarfé og menn hefur greint á um hve mikla fjármuni þurfi til að félagið geti staðið skil á sínum mikilsverðu verkefnum.

Ég fagna því að hér eru lagðar til auknar fjárheimildir til Íslenskrar ættleiðingar af því að það er mjög mikilvægt að starfsemin gangi hnökralaust fyrir sig. Þetta eru viðkvæm mál og einkar mikilvægt að þau gangi vel fyrir sig. Þetta er langt ferli frá því að fólk sækir um að fá að ættleiða og þar til það verður þeirrar gæfu aðnjótandi að fá barn til ættleiðingar og við þurfum að standa vel við bakið á því. Auðvitað þyrfti að styðja meira en við höfum gert á síðustu árum og áratugum við þá sem ættleiða börn til að jafna stöðu þeirra á við þá sem eignast börn með hefðbundnum hætti. Ég fagna því að hér er skref stigið í þá átt og er mjög ánægður að sjá það og vona að þetta sé vísir að lausn og þjónustusamningi á milli Íslenskrar ættleiðingar og innanríkisráðuneytisins.

Þá vil ég nefna að það er gott að sjá fjárveitingar undir nokkrum liðum til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórans á Suðurnesjum og ýmissa löggæslu- og öryggismála þar sem er viðbótartrygging til lögreglumanna. Þetta er gert út frá þingsályktunartillögu sem allsherjar- og menntamálanefnd öll saman flutti síðastliðinn vetur og fékk samþykkta í þinginu um framhald á sérstöku verkefni sem laut að skipulagðri glæpastarfsemi. Lögreglan hafði verið með sérstakt teymi í þessari vinnu í eitt ár sem hafði gengið feikilega vel og náð miklum árangri. Við höfum bara á síðustu dögum og vikum horft á enn meiri árangur í baráttu lögreglunnar gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem er því að þakka að hæstv. innanríkisráðherra hleypti því af stokkunum að sérstakt teymi var sett í þetta verkefni sem vinnur að því og engu öðru. Þingsályktunartillaga nefndarinnar var samþykkt á Alþingi í júní og til þess að hún gangi upp, á sama hátt og með breytingar á heiðurslaunum, þarf að samþykkja aukafjárveitingu á fjáraukalögum. Hér er lagt til 35 millj. kr. aukaframlag til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu út af átaki gegn skipulagðri glæpastarfsemi og lagt er til 15 millj. kr. aukaframlag til embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum vegna sérstaks átaksverkefnis sem lögreglan þar syðra er þátttakandi í með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fleirum.

Þetta eru nokkur atriði af mörgum sem er mjög ánægjulegt að sjá að gangi fram. Eitt enn kom inn á borð hinnar nefndarinnar sem ég á sæti í og stýri, sem er allsherjar- og menntamálanefnd, en það er málefni Útlendingastofnunar og hælisleitenda. Auðvitað eru skiptar skoðanir um þann málaflokk en það er mjög mikilvægt að gera Útlendingastofnun kleift að vinna mikið hraðar og mikið betur úr þeim málum en verið hefur. Þar hefur myndast ákveðinn tappi og það er óviðunandi að hælisleitendur þurfi að bíða mánuðum, missirum, jafnvel árum saman í bráðabirgðaaðstæðum áður en þeir fái að vita hvort þeir fái hæli hér á landi eða ekki. Sjálfur er ég á þeirri skoðun að það þurfi að ganga mjög langt til að greiða úr þessu en mér sýnist það vera gert hér og vona að það dugi til að höggva á hnútinn.

Óskað er eftir 100 millj. kr. viðbótarframlagi á liðnum Útlendingastofnun. Í skýringum segir að vegna verulegrar fjölgunar hælisleitenda umfram forsendur fjárlaga og út af fjárskorti stofnunarinnar hafi ekki verið unnt að afgreiða umsóknir um hæli hér á landi eins og æskilegt væri. Því er fyrirséð að þessi liður muni fara verulega fram úr fjárveitingum ársins. Lagt er til að veitt verði 6,6 millj. kr. fjárheimild til Útlendingastofnunar þannig að hægt verði að ráða tvo lögfræðinga í fullt starf í haust til að afgreiða umsóknir frá erlendum einstaklingum um hæli hér á landi.

Ég tel að þetta skipti mjög miklu máli. Það þarf að standa miklu betur að málefnum Útlendingastofnunar og hælisleitenda þannig að málin fái afgreiðslu miklu fyrr. Það er líka kostnaðarsamt fyrir samfélagið að koma hlutum svo fyrir að fólk búi um lengri tíma í algjörri óvissu um örlög sín og framtíð út af því að fjármagn skortir til að vinna úr umsóknum. Hvort sem fólki er hleypt inn í landið eða sent eitthvað annað þarf að vinna mikið hraðar úr þessu. Þessi fjárveiting er lögð til hér og ég held að það séu mjög góðar fréttir. Þetta var töluvert í umræðunni á síðastliðnum vetri og tekið upp í þingnefndum og hér í þingsal. Ég fagna því sérstaklega að þessi mikilvægi og viðkvæmi málaflokkur fái framgang.

Þá var eitt enn sem ég vildi nefna sem lýtur að öryggis- og fangelsismálum. Sú ánægjulega ákvörðun var tekin af fjármálaráðuneyti og innanríkisráðuneyti á síðasta vetri að færa opið fangelsi að Sogni í Ölfusi þar sem áður var réttargeðdeild en Landspítali hafði ákveðið að færa starfsemina þaðan og á spítalann í Reykjavík. Sú ákvörðun var tekin af yfirvöldum að nýta þetta ágæta húsnæði undir opið fangelsi. Það held ég að hafi verið afar farsæl ákvörðun enda vel að verki staðið og var mjög ánægjulegur atburður í vor þegar fangelsið var tekið í notkun. En þær breytingar sem þurfti nauðsynlega að gera á húsnæðinu til að breyta því úr réttargeðdeild í opið fangelsi fólu í sér nokkurn kostnað enda þurfti að endurbæta eitt og annað til að húsnæðið væri viðunandi og gott. Þetta var þó allt mjög hóflegur kostnaður enda verkið unnið af fangavörðum og föngum sjálfum að miklu leyti, endurbætur og ýmislegt slíkt. Það sparaði ríkinu stórfé en þó varð til kostnaður sem féll á fasteignir ríkissjóðs og einnig umtalsverður kostnaður sem stofnunin þarf að bera sjálf. Eru stærstu liðirnir, eins og talið er hér upp, jarðvegsvinna, uppsetning á eftirlits- og fjarskiptabúnaði, veghlið og kaup á öryggiskerfi. Þetta eru sjálfsagðir grunnþættir sem verða að vera í hverju fangelsi hvort sem það er öryggisfangelsi eða opið. Hér er óskað eftir 17,6 millj. kr. til að standa straum af flutningi á fangavistun frá Bitru að Sogni. Þarna er meðal annars verið að steypa yfir garð þannig að hægt sé að nýta hann sem líkamsræktaraðstöðu og fleira gert til að bæta aðstöðuna og fagna ég því að hér er svo gengið að málum.

Eitt vil ég nefna sem ég tel að þurfi að skoða sérstaklega. Ef við skoðum löggæslumálin almennt hafa víðast hvar á landinu ekki verið háværar raddir um það að fjölga þurfi í lögreglu á einstökum stöðum, fyrir utan höfuðborgarsvæðið, nema á Suðurlandi þar sem lögreglumenn hafa ályktað mjög afdráttarlaust um að þar sé fjöldi lögreglumanna, sem á nokkrum árum hefur farið úr 26 í 20, kominn niður fyrir þolmörk, niður fyrir öryggismörk. Það er algjörlega óviðunandi. Þarna búa 15 þús. manns og um helgar fjölgar þarna um 20–35 þús. manns eftir vikum og mánuðum og árstíma vegna þess að á þessu svæði eru flest sumarhús á Íslandi. Heilsárshúsin og sumarhúsin á þessu svæði skipta tugum þúsunda fyrir utan að nánast allir af hinum 600 þús. erlendu gestum sem sækja Ísland heim fara í gegnum þetta svæði, mest frá vori til hausts. Þetta er alvarlegt mál sem snertir stóran hluta landsmanna, það þarf að gera lögreglunni þar, í Árnessýslu kleift að fjölga í liði sínu þannig að ástandið verði viðunandi. Hún hefur ályktað um það sérstaklega og við þingmenn kjördæmisins allir munum funda með þeim í næstu viku um málið. Þetta þarf að skoða annaðhvort með hliðsjón af fjáraukalögum eða fjárlögum fyrir næsta ár af því að ástandið er óviðunandi og gengur ekki lengur.

Hér eru mörg brýn mál og góð sem hægt er að nefna. Ég vildi tæpa sérstaklega á þessum á þeim fáu mínútum sem okkur gefast í umræðunni. Svo munum við fjalla um frumvarpið í heild sinni og önnur einstök atriði í vinnu fjárlaganefndar sem fram undan er.