Fjáraukalög 2012

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 15:43:27 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem vekja athygli í þessu frumvarpi til fjáraukalaga. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir 15 millj. kr. framlagi til Íslenskrar ættleiðingar. Það er ljóst að málefni Íslenskrar ættleiðingar hafa verið í talsverðri óvissu undanfarin missiri vegna þess að samningar hafa verið lausir og menn hafa ekki náð saman um það hvernig Íslensk ættleiðing ætti að sinna verkefnum sínum og fyrir hvaða fé. Það hefði verið mun heppilegra að ráða því máli til lykta fyrr þannig að sá kostnaður sem allir áttu í raun að geta sagt sér sjálfir að mundi falla til og á ríkið hefði farið inn í fjárlagafrumvarpið á sínum tíma.

Eins er rétt að lýsa yfir áhyggjum af því að enn hefur ekki verið undirritaður samningur við Íslenska ættleiðingu. Í fyrirspurnatíma í þinginu í gær kom fram í máli hæstv. innanríkisráðherra að það stæði vonandi til bóta og maður verður bara að treysta því og trúa að ráðist verði í það. Það er mikilvægt að öryggi sé í því fólgið hvernig við högum ættleiðingarmálum hér á landi.

Þá vekur athygli liður nr. 6.41 Göngubrú yfir Markarfljót við Þórsmörk undir Skógrækt ríkisins. Í samræmi við þingsályktunartillögu, sem við þingmenn Suðurkjördæmis með hv. þm. Róbert Marshall í fararbroddi lögðum fram í þinginu og var samþykkt, eru hér áætlaðar 5 millj. kr. til undirbúnings-, umsjónar- og hönnunarkostnaðar verkefnisins. Það verður athyglisvert að sjá hvort þetta muni allt ganga fram vegna þess að göngubrúin mun að sjálfsögðu auka mjög aðgengi almennings inn í Þórsmörk því að þá þarf ekki að aka yfir jafnvatnsmiklar ár til að komast þangað. Því ber í sjálfu sér að fagna og er ágætt.

Það sem vekur áhyggjur er sá kafli sem fjallar um vaxtagjöld ríkissjóðs en þar er lagt til að fjárheimild vegna þeirra verði aukin um 3.106 millj. kr. Þetta er enginn smápeningur, miklir fjármunir sem þarna er verið að tala um. Af þessu hljótum við öll að hafa miklar áhyggjur. Það er blóðugt að greiða þetta mikið í vexti og í rauninni leitt að sjá að þetta þurfi allt að koma inn í fjáraukalög. Þá vakna spurningar um það hvernig við högum fjárlagagerðinni hér á landi, hvort við séum á réttri leið eða hvort við þurfum einfaldlega ekki að endurskoða verkefnið í heild sinni.

Nú liggja fyrir fjárlög fyrir næsta ár og hafa verið til umræðu í þinginu og eru nú til umfjöllunar í fjárlaganefnd. Það er þegar ljóst að þar vantar fjölmarga liði. Einhverjir þeirra munu væntanlega koma inn í 2. umr. um frumvarpið í þinginu og svo munu enn aðrir bíða fjáraukalaga næsta árs. Talað hefur verið um það í þinginu, nú síðast í gær eða rétt fyrir helgi, að nauðsynlegt sé að auka aga í efnahagsstjórninni. Um það hljótum við öll að vera sammála. Í ljósi þess hvernig fjárlagafrumvarpið og fjáraukalögin líta út tel ég að við eigum talsvert langt í land með að bæta vinnubrögð okkar í þessum málum. Auðvitað væri gott ef við legðum meiri áherslu í þinginu á það sameiginlega verkefni okkar allra að grynnka á skuldastöðu ríkissjóðs en manni sýnist að það sé ekki aðalmálið, sérstaklega ekki í ljósi fjárlagafrumvarpsins sem lagt hefur verið fram. Þar er um mikið kosningaplagg að ræða eins og ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi sjálf lýst yfir, að þetta væri kosningafrumvarp þar sem fjölmörg verkefni verði sett af stað og kostuð með aukinni skattheimtu. Settir eru sérstakir aukaskattar á atvinnulífið til að fjármagna kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna fyrir komandi kosningar.

Ég verð að segja, frú forseti, að auðvitað verður maður fyrir vonbrigðum að sjá þessi vinnubrögð þegar næsta dag er lofað auknum aga í efnahagsstjórninni og við fjárlagagerðina.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um fjáraukalögin. Ég vonast til að fjárlaganefnd muni fara vandlega yfir þetta mál og hvet hæstv. ráðherra til dáða í því að innleiða aukinn aga í fjármálastjórnunina og hvet fjárlaganefnd til að taka til skoðunar hvernig við getum endurskoðað þetta ferli.