Fjáraukalög 2012

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 16:29:19 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin og virði það mikils þegar menn svara hreint og beint eins og hv. þingmaður gerði. Ég held að það sé nefnilega þannig að vandi Íbúðalánasjóðs hafi bara aukist síðan þetta bréf var skrifað í júlí. Í raun er hallarekstur og fjárhagsstaða sjóðsins verri en þegar þetta bréf var skrifað. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að bregðast við enda kemur þessi beiðni Íbúðalánasjóðs til hv. fjárlaganefndar og við tökum hana auðvitað til umfjöllunar. Ég set spurningarmerki við það að alveg frá haustmánuðum 2011 hefur sjóðurinn bent hæstv. velferðarráðherra á þann vanda sem steðjar að sjóðnum.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann um eitt atriði til viðbótar sem kom fram á fundi með innanríkisráðuneytinu í hv. fjárlaganefnd fyrir helgina. Það er sú leiðrétting sem gerð er gagnvart Vegagerðinni og er vegna aukins kostnaðar við snjómokstur og hálkuvarnir og í þeim pakka er einnig kostnaður vegna reksturs Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs og fleira. Leiðréttingin sem snýr beint að snjómokstri og hálkuvörnum hljóðar upp á 420 millj. kr. Það kom fram á fundi hv. fjárlaganefndar að sú fjárveiting er einungis til að núllstilla þann halla sem þegar hefur orðið á árinu 2012. Það þýðir að þegar við förum núna inn í haustið hefur Vegagerðin enga fjármuni til að fara í snjómokstur eða hálkueyðingu. Ég tel nú fullmikla bjartsýni að gera ráð fyrir svo góðu tíðarfari alveg til 1. janúar 2013, það er mjög óraunhæft. Ég tel að það þurfi að bæta Vegagerðinni við á þennan fjárlagalið til að bregðast við þeim aðstæðum sem væntanlega koma upp í haust.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að þetta sé ekki skynsamlegt og að í raun sé ekki horfst í augu við ástandið með því að hafa þennan lið á núlli hjá Vegagerðinni í haust.