Fjáraukalög 2012

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 16:31:25 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:31]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef einmitt verið hugsi vegna þessa liðar í fjárlagagerð hvers tíma, auðvitað hafa menn skorið inn að beini hjá Vegagerðinni rétt eins og öðrum ríkisstofnunum og þá er auðvelt að taka á þessum þætti og láta svo þingmenn kjördæmanna um að væla í fjárlaganefnd og fyrir framkvæmdarvaldinu um að auka hann. Þetta er þessi kerfisleikur sem ég nefndi áðan og hefur verið iðkaður afskaplega lengi. Lausnin er kannski sú að færa þessi verkefni heim í hérað þannig að hver landshluti geti tekið á honum með viðeigandi fjárveitingu og samningi milli ríkis og sveitarfélaga. Það er vonandi framtíðin.

Er þetta ófyrirséður kostnaður? Það má spyrja sig hvort árstíðir Íslands, vetur, vor, sumar og haust, séu ófyrirséðar. Svo er klárlega ekki, þessar árstíðir koma yfir okkur með eðlilegu og reglulegu millibili og við verðum að gera ráð fyrir því að það snjói að vetri til á Íslandi. Það er sumpart ekki gert ráð fyrir því í fjárlagagerð hins opinbera nú um stundir og við sitjum uppi með afleiðingar þess í fjáraukalögum. Auðvitað er þetta eitt dæmi og ágætt að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson taki það út úr vegna þess að við verðum að gera ráð fyrir því í fjárlagagerðinni sjálfri að fé sé varið til snjómoksturs og þeirra innviða sem við gerum ráð fyrir að séu til staðar í samfélagi okkar. Það er jafneðlilegt að leggja vegi og ryðja vegi. Þetta er gagnrýnispunktur sem eðlilegt er að taka á og benda innanríkisráðuneytinu (Forseti hringir.) og stofnunum þess á að laga vegna þess að þetta á ekki heima í fjáraukalögum nema upp komi (Forseti hringir.) einstaklega sérstakar aðstæður. (Gripið fram í.)