Fjáraukalög 2012

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 16:43:49 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:43]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar. Við höfum aldrei verið í vandræðum með að eyða krónunni. Þetta er umræða sem við eigum að taka undir þessum lið vegna þess að við þurfum stundum að líta upp úr einstökum skýrslum og skrifum um ríkisfjármálin og horfa til framtíðar og mögulegra lausna í sjónmáli. Ég tek undir með hv. þingmanni, auðvitað er engin einföld lausn á því að flytja stór verkefni frá hinu opinbera, ríkinu í þessu tilviki, til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin eru mjög misjafnlega í stakk búin til að taka við þeim og þar komum við að kröfunni um sameiningu sveitarfélaga sem sumir eru hallir undir. Kannski erum við samt einfaldlega að tala um samvinnu og aukið samráð milli byggðasvæða. Ég er mjög hallur undir þá skoðun að við eigum að horfa til þeirra byggðasvæða sem eru möguleg hér á landi og færa þeim aukin völd.

Þá kem ég að seinni lið þessarar umræðu sem mig langar að taka aðeins upp úr skýrslum og fjáraukalagafarinu. Í vinnu minni í hv. fjárlaganefnd hefur mér sýnst að þennan margumrædda lýðræðishalla sem oft ber á góma í íslenskum stjórnmálum sé kannski einna mest að finna í þeirri staðreynd að völdin hafa safnast í allt of miklum mæli í miðstýrt bákn á tiltölulega litlu svæði sem hefur miklu meiri völd en hið lýðræðislega umboð. Ég vil einfaldlega segja á mannamáli að hið lokaða embættismannakerfi hefur langtum meiri völd til að úthluta fjármunum og leika stofnanir misjafnlega (Forseti hringir.) milli landshluta og höfuðborgarsvæðisins en endilega hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar sem tala í sölum Alþingis. (Forseti hringir.) Ég bið um örlítil viðbrögð við þessu.