Fjáraukalög 2012

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 16:48:35 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja að fjalla um það sem ég endaði á áðan í ræðu minni þar sem ég náði ekki að fara yfir það vegna tímaskorts en ég var að tala um þá beiðni sem kemur inn í fjáraukalagafrumvarpið og snýr að tónlistarnámi á vegum sveitarfélaga. Í frumvarpinu kemur fram tillaga um að fjármagn verði aukið um 40 milljónir. Það er mjög sérkennilegt því að farið var mjög vandlega yfir það mál. Fulltrúar menntamálaráðuneytisins mættu á fund hjá hv. fjárlaganefnd og svöruðu þar, að mati okkar allra held ég, mjög skilmerkilega þeim spurningum sem fyrir þá voru lagðar. Síðan kemur eftirfarandi texti í frumvarpinu, sem er umhugsunarefni, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Í kjölfar samkomulagsins tóku tónlistarskólarnir mun fleiri nemendur í nám sl. vetur og fjölguðu kennurum umfram það sem gert var ráð fyrir í samkomulaginu.“

Samt sem áður á að bregðast við hallarekstri þessara skóla með því að auka útgjöld ríkisins vegna þess að einhverjir aðrir fara ekki eftir samkomulaginu. Við þetta vakna auðvitað margar spurningar og farið verður yfir það í hv. fjárlaganefnd.

Hér er svo sem hægt að fara yfir marga aðra þætti. Ég fór í andsvörum yfir þá þætti sem ég hef áhyggjur af og snúa til dæmis að snjómokstri og hálkueyðingu Vegagerðarinnar, svokallaðri vetrarþjónustu. Þar er gert ráð fyrir 420 millj. kr. hækkun, sem er í raun og veru bara til þess að núlla ástandið eins og liðurinn er í dag. Það er ekkert svigrúm fyrir Vegagerðina að fara í snjómokstur og hálkueyðingu eða vetrarþjónustu gagnvart fjárlögunum á komandi hausti. Ég held að það sé mjög óraunhæft og óskynsamlegt að gera þetta á þennan hátt.

Síðan er hægt að taka margt til viðbótar. Ég geri athugasemdir við að gert er ráð fyrir 90 millj. kr. fjárveitingu vegna umframútgjalda við byggingu á gestastofu í Vatnajökulsþjóðgarði. Í þeirri beiðni kemur fram að fjárhagsstaða vegna framkvæmda í þjóðgarðinum hafi verið neikvæð um 184 milljónir. Hér er gert ráð fyrir að rétta þurfi þetta af um 90 milljónir en láta síðan þjóðgarðinn að öðru leyti hagræða til þess að ná niður höfuðstólnum, neikvæðum, á næstu tveimur árum.

Nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu 2013 að fara eigi í framkvæmdir fyrir á annað hundrað milljónir í þjóðgarðinum. Þá vaknar sú spurning hvort draga eigi þetta frá með þeim hætti sem hér er gert. Ég er mjög ósáttur við hvernig staðið er að úthlutun fjármagns til einstakra þjóðgarða, en eins og við vitum eru þeir þrír. Það er gert með þeim hætti, og ég sagði það í umræðunni um fjárlagafrumvarpið, að mér finnst eins og sé verið að verðlauna skussana. Þeir sem fara fram úr fá aukið fjármagn en það litla sem er hjá hinum er sogað af þeim.

Ég nefndi sérstaklega þjóðgarðinn Snæfellsjökul sem hafði fengið í gegnum Umhverfisstofnun, í gegnum svokallaðan gistináttaskatt, smámuni miðað við aðra, þó að það vigti vissulega þungt í uppbyggingunni sem þar hefur átt sér stað. Þá er það þannig að Umhverfisstofnun hefur fengið 22 milljónir af svokölluðum gistináttaskatti til sín. Núna í fjárlögunum fyrir árið 2013 eru teknar 20 milljónir af 22 og færðar beint inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Slík mismunun er náttúrlega algjörlega óþolandi og ólíðandi.

Þess vegna kemur mér það verulega á óvart að lögð skuli vera til 90 millj. kr. fjárveiting vegna umframútgjalda. Í rauninni er kannski ekkert annað hægt að gera. Ég er ekki að segja að raunhæft sé að þjóðgarðurinn nái að vinna þennan halla niður, en það sem endurspeglast síðan í fjárlögum ársins 2013 er auðvitað alveg hreint með ólíkindum.

Síðan vil ég í lokin koma inn á svokallaða endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar sem er 545 milljónir, þar af 400 milljónir miðað við árið 2012. Það staðfestir enn og aftur það sem við höfum rætt í hv. fjárlaganefnd hversu mikilvægt það er að sérlögin gangi ekki framar fjárlögum. Ef við ætlum að halda áfram á þennan hátt, eins og staðfest dæmi blasir hér við, þá munum við aldrei ná tökum á ríkisfjármálunum, það er mitt mat. Ef sérlögin ganga framar fjárlögum er þetta verkefni miklu, miklu erfiðara. Þess vegna er mikilvægt að unnið verði að því í ráðuneytinu í samstarfi við hv. fjárlaganefnd að flytja frumvarp um að færa allar sértekjur og markaðar tekjur inn í ríkissjóð og hafa viðkomandi stofnanir beint á fjárlögum.