Sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 17:36:09 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[17:36]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þetta frumvarp og fagna því. Hér er leitað heimildar Alþingis fyrir því að fjármálaráðherra sé heimilt að selja tiltekna eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum að fengnum tillögum frá Bankasýslu ríkisins.

Það er rétt að leggja á það sérstaka áherslu að hér er um að ræða fremur litla eignarhluti í bönkunum, þ.e. allt að 5% hlut í Íslandsbanka, allt að 11% hlut í Landsbankanum og 13% hlut í Arion banka og síðan eignarhlut ríkisins í fimm sparisjóðum eða reyndar fjórum, ef ég hef skilið það rétt, því að einn þeirra sem nefndur er í frumvarpinu hefur nýlega verið seldur Landsbankanum.

Rétt er að leggja á það áherslu að það er auðvitað himinn og haf milli þeirra fyrirætlana sem koma fram í þessu frumvarpi og þeirra fyrirætlana sem voru staðfestar í frumvarpi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á sínum tíma sem veitti heimild til einkavæðingar Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands með lögum frá Alþingi árið 2001. Þar var leyndarhyggjan og spillingin því miður alls ráðandi og engin skilyrði sett um það hvaða almannahagsmunir skyldu ráða för við sölu bankanna, sem sést á því að efnisákvæði frumvarpsins var aðeins eitt og rúmast í eftirfarandi setningu:

Heimilt er að selja hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.

Meira var það nú ekki sem almenningi var boðið upp á, eða Alþingi, varðandi þau skilyrði sem átti að fylgja við þessa mikilvægu sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum.

Hér er allt annað á ferðinni. Í 3. gr. þessa frumvarps er kveðið á um að við sölumeðferð eignarhluta ríkisins skuli lögð áhersla á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluta og að í söluferlinu sé gætt jafnræðis milli tilboðsgjafa.

Hlutlægni er afar mikilvæg til þess að tryggja að faglegt og vel rökstutt mat fari fram á tilboðum sem liggi til grundvallar ákvarðanatöku um sölu á viðkomandi eignarhlutum. Þá skal við söluna kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.

Ég vil hins vegar gera athugasemd við eitt atriði í þessu frumvarpi og það er að ekki er sérstaklega kveðið á um dreifða eignaraðild. Það er rétt að minna á það að í eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum er kveðið á um að eitt af undirmarkmiðum eigendastefnunnar sé að dreifð eignaraðild skuli vera að fyrirtækjum á fjármálamarkaði. Ég tel að það eigi að vera grundvallarmarkmið ríkisins í allri sölu ríkiseigna. Auðvitað er rétt að hafa það í huga í tengslum við frumvarpið, eins og áður var getið, að hér eru einungis tiltölulega litlir eignarhlutar á ferðinni, á bilinu 5–13%, sem vitanlega munu ekki ráða neinum úrslitum um samsetningu eigendahóps viðkomandi fjármálafyrirtækja.

Hins vegar kemur ekki annað til greina að mínu mati en að miða við dreifða eignaraðild ef til þess kemur í framtíðinni að ráðandi hlutur ríkisins í Landsbankanum verði seldur. Ég tel hins vegar að skoða eigi mjög vandlega og beini þeim tilmælum til hv. fjárlaganefndar hvort ekki eigi að nýta þetta tækifæri núna þegar sala á þessum eignarhlutum stendur fyrir dyrum og tryggja að verulegur hluti þeirra eignarhluta sem í boði verða verði boðnir almenningi til kaups í almennu útboði. Við sjáum það á þeim tveimur útboðum sem Kauphöllin hefur staðið fyrir frá hruni að eftirspurn almennings eftir nýjum fjárfestingarkostum er mjög mikil og umframeftirspurn var veruleg í báðum tilvikum. Í tilviki Haga, þegar til sölu voru 30% hlutafjár í því fyrirtæki, var heildsöluandvirði útboðsins tæpir 5 milljarðar kr. en eftirspurnin nærri tíföld eða um 40 milljarðar kr., og kaupendur 3 þús. talsins.

Í öðru lagi voru boðnir út eignarhlutir í fasteignafélaginu Regin. Þar voru til sölu 75% hlutafjár, heildarsöluandvirðið tæpir 8 milljarðar en heildareftirspurnin losaði 10 milljarða. Auðvitað getum við ekki dregið neinar algildar ályktanir af þessum tveimur dæmum um áhuga almennings á bréfum í bönkunum en í ljósi þess hve fjárfestingarkostir eru takmarkaðir í okkar haftaumhverfi má leiða að því líkum að áhuginn yrði verulegur.

Ég læt þetta duga af athugasemdum við frumvarpið en vona að það fái vandaða og góða meðferð í hv. fjárlaganefnd.