Sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 17:43:44 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[17:43]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir fyrirspurnina og hún er mjög mikilvæg. Ég fór yfir það í minni stuttu ræðu að ég tel að markmiðið um dreifða eignaraðild eigi að vera til grundvallar við sölu ríkiseigna. Síðan lét ég þess reyndar getið að í þessi tilviki, í þessu tiltekna frumvarpi, erum við með fremur litla eignarhluti og verðum að líta til þess að þeir muni ekki ráða úrslitum um samsetningu á eigendahópi viðkomandi fjármálafyrirtækja.

Það kunna því að koma til álita sjónarmið eins og þau að það fáist betra verð fyrir hlutinn með því að ríkið uppfylli skyldur sínar sem tengjast innlausnarrétti á eignarhlut ríkisins, eins og kveðið er á um í 1. gr. Það þjóni almannahagsmunum betur í því tilviki að fá hærra verð fyrir hlutinn þó að krafan um dreifða eignaraðild eigi ekki við í því tilviki.

Ég tel hins vegar að sú krafa sé fortakslaus þegar kemur að ráðandi hlut í ríkisfyrirtækjum. Það kæmi ekkert annað til greina en dreifð eignaraðild ef kæmi til sölu á 70% hlut í Landsbanka Íslands í framtíðinni.