Sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 18:23:51 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[18:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Örstutt. Saga sparisjóðanna sem hér var rædd, og bankanna, er helguð af hringferlum fjár sem menn notuðust mikið við á Íslandi.

Ég ætla að nefna nokkur nöfn sem ímynduð dæmi. SPRON lagði inn hjá Kaupþingi, segjum 100 milljónir. Kaupþing lánaði Jóni Jónssyni til að kaupa stofnbréf í SPRON sem SPRON gaf út. Peningurinn fór fyrst frá SPRON til Kaupþings, síðan frá Kaupþingi til Jóns Jónssonar og frá Jóni Jónssyni til SPRON þar sem hann var upphaflega. Þetta var gert úti um allt. Eigið fé sparisjóðanna óx við þetta því að þegar stofnbréf er selt fyrir staðgreiðslu, þetta er staðgreiðsla, þá vex eigið fé.

Það er ekki minnst á þetta í þessu frumvarpi. Hæstv. ríkisstjórn hefur heldur ekkert gert til að laga þessa stöðu í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Afleiðingarnar voru gífurlegar hörmungar fjölskyldna víða um land sem tóku lán í góðri trú um að stofnfé væri nánast sama og innstæða og keyptu í sparisjóðunum sem blésu út eigið fé sitt með þessum hætti. Bændur, verkafólk og aðrir tóku lán í einhverri lánastofnun til að kaupa stofnbréf í sparisjóðnum sínum. Mér finnst að við verðum að hafa þetta í huga líka. Það er svo einfalt hvernig þetta var byggt upp, hvernig eigið fé var blásið út með svona hringferlum fjár.

Ég er búinn að flytja aftur og aftur frumvarp um að banna þetta. Það hefur ekki fengist samþykkt enda kannski erfitt um vik þar sem þetta er alþjóðlegt vandamál. Það er ekki þannig að núverandi hæstv. ríkisstjórn sé einhver orsakavaldur að þessu heldur er þetta um allt. Þetta er hugsanlega ástæðan fyrir falli stóru amerísku bankanna þó að ég viti það ekki nákvæmlega, en þetta er örugglega hluti af falli Íslands. Eigið fé íslenskra fyrirtækja blés út með þessum hætti og svo þegar hrunið kom var ekkert inni í því. Það var bara bóla sem var blásin út vegna þess að peningarnir fóru hring eftir hring og juku alltaf eigið fé hlutafélaga, sparisjóða og banka.

Ég minni á að þrem mánuðum fyrir hrun voru gefnir út árshlutareikningar fyrir Kaupþing og hina bankana með 200 milljarða eigin fé. Því trúði ég sem lítill hluthafi, því trúðu lánveitendur sem lánuðu bönkunum og því trúðu matsfyrirtækin. Það er svo merkilegt að menn skuli ekki hlusta meira á hvernig þessir hringferlar fjár sem bjuggu þetta til eru og þetta heldur áfram því að það er enn mögulegt. Það er engu búið að breyta í lögum sem banna þetta.