Byggðastofnun

Þriðjudaginn 16. október 2012, kl. 15:16:28 (0)


141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á sínum tíma þegar atvinnuþróunarfélögin voru stofnuð voru þau öðrum þræði hugsuð þannig að þau gætu gegnt því hlutverki sem hv. þingmaður nefndi, að þau gætu komið fram með eiginfjárframlag í einstök verkefni sem gerði þau síðan álitlegri fyrir þá sem ættu að lána peninga til atvinnustarfsemi, m.a. á landsbyggðinni. Þar á ég auðvitað við viðskiptabankana í heild sinni. Atvinnuþróunarfélögin hafa hins vegar ekki fengið það fjármagn sem þau hefðu þurft til að geta gegnt þarna alvöruhlutverki.

Ég tel að reynslan sýni það einfaldlega að uppi eru óskaplegir fordómar í viðskiptabönkunum gagnvart ýmsu því sem er verið að gera á landsbyggðinni. Menn vitna til þess að húsnæðisverð hafi lækkað og fasteignir séu ekki mikils virði o.s.frv.

Við þekkjum ótalmörg dæmi um það að Byggðastofnun hefur komið til skjalanna við þessar aðstæður. Byggðastofnun var um tíma langstærsti lánveitandinn í ferðaþjónustu, í það minnsta utan höfuðborgarsvæðisins. Það helgaðist af því að mikil tregða var hjá viðskiptabönkunum að koma að þessari uppbyggingu á sínum tíma vegna þess að menn í viðskiptabönkunum höfðu enga trú á því að ferðaþjónusta utan höfuðborgarsvæðisins gæti verið álitlegur kostur að lána peninga til. Þess vegna varð Byggðastofnun að taka þetta verkefni að sér.

Þannig getum við endalaust talið áfram. Auðvitað verða áföll í þessum efnum. Við vitum að þegar við höfum sérstaka stofnun eins og Byggðastofnun, sem hefur meðal annars það lögbundna hlutverk að lána peninga inn á svæði sem menn hafa stundum kallað efnahagslega köld, þ.e. svæði þar sem hagvöxturinn hefur verið lítill eða jafnvel neikvæður, þá eru meiri líkur á því að þeir peningar kunni að tapast. Menn hafa reynt að reka Byggðastofnun á viðskiptalegum grundvelli. Hún rekur sig með vaxtamun með sambærilegum hætti og margar aðrar lánastofnanir og hefur þannig reynt að vega upp á móti þeim útlánatöpum sem hún hefur orðið fyrir. Hún metur lánin með hliðsjón af áhættunni hverju sinni (Forseti hringir.) og hefur lánahlutfallið miðað við það sem ég þekki til tekið mið af því.