Byggðastofnun

Þriðjudaginn 16. október 2012, kl. 15:26:03 (0)


141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:26]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sat í stjórn Byggðastofnunar fyrir nokkuð löngu síðan. Ég verð að segja eins og er að þó svo að á þeim árum hafi að einhverju leyti verið valið í stjórn Byggðastofnunar eftir pólitíska litrófinu þá er það alla vega ekki þannig nú og ég vil fullyrða að á þeim árum sem ég sat í stjórn Byggðastofnunar þá fóru ekki pólitískar lánveitingar þar í gegn. Starfsmenn stofnunarinnar voru vel hæfir til að vinna grundvöllinn að lánveitingum og auðvitað voru lánveitingar faglegar og eiga að vera eins og hefur verið margtekið fram í þessu frumvarpi. Ég fullyrði að á sínum tíma varð ég ekki vör við annað en að lánveitingar væru mjög faglegar og vel að þeim staðið.

Það þarf auðvitað að taka ákveðin byggðasjónarmið inn í myndina fyrir lánveitingar frá stofnun eins og þessari. Við getum kannski kallað þau byggðapólitísk en ekki flokkspólitísk þannig að því sé haldið til haga.

Varðandi tillögur framsóknarmanna um skattkerfið. Þessar hugmyndir hafa mjög oft verið uppi og horft hefur verið til Noregs. Ég tel ekkert útilokað að horfa til þess. Það er búið að fara oft í gegnum þetta og það má endurskoða þau mál. Ég tel að þó svo að við kæmumst að þeirri niðurstöðu að skattkerfið ætti að einhverju leyti að koma inn með þessum hætti verði því miður jafnnauðsynlegt að hafa stofnun eins og (Forseti hringir.) Byggðastofnun til að lána til veikari byggða.