Byggðastofnun

Þriðjudaginn 16. október 2012, kl. 15:50:38 (0)


141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:50]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrra málið verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki nákvæmlega hversu mörg eða fá tilvikin eru frá umliðnum missirum. Ég hef ástæðu til að ætla að þau séu jafnvel mjög fá og eftir að iðnaðarmálin komu í mínar hendur hefur aðeins eitt slíkt mál komið inn á mitt borð þar sem ráðuneytið staðfesti eftir vandaða skoðun ákvörðun Byggðastofnunar í tilteknu máli sem kært var til ráðuneytisins. Ég er því til vitnis um aðeins eitt tilvik á þeim tíma sem þessi mál hafa verið í mínum höndum en hann er ekki langur.

Að öðru leyti hefur hv. þingmaður reifað þau sjónarmið að ástæða sé til að fara yfir það hvort menn séu sáttir við að stjórnskipulag stofnunarinnar eða lagaumbúnaðurinn sé óbreyttur þrátt fyrir breytinguna eða hvort þar eigi að gera einhverja breytingu á. Ég geri engar athugasemdir við það og fagna því að nefndin taki það til skoðunar.