Umræður um störf þingsins 17. október

Miðvikudaginn 17. október 2012, kl. 15:06:24 (0)


141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Sem formaður nefndar um endurskoðun á lögum um Ríkisendurskoðun vil ég segja og svara hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að störf nefndarinnar ganga samkvæmt áætlun. Vonandi verður hægt að leggja fram drög í byrjun nóvember og þá verður viðkomandi þingnefndum falið að fara yfir þau og vera í samráði við nefndina við afgreiðslu málsins. Hlustað verður eftir þeim hvatningaróskum sem hv. þingmaður bar fram.

Hæstv. forseti. Ég bað um orðið undir þessum dagskrárlið út af öðru tilefni og það er vegna aðgengis að kjörstöðum. Þjóðaratkvæðagreiðsla stendur fyrir dyrum næstkomandi laugardag. Árið 2005 var gerð könnun á aðgengi að kjörstöðum úti um allt land hjá öllum sveitarstjórnum. Atkvæðagreiðslur fara í flestum tilfellum fram í skólum landsins og mikilvægt er, ekki bara fyrir nemendur heldur líka aðra, að aðgengi sé fyrir alla, sama hvort það er í þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardaginn, sveitarstjórnarkosningum eða alþingiskosningum.

Í þeirri könnun sem var gerð 2005 kom í ljós að það voru frekast til minni sveitarfélög sem ekki höfðu aðgengismálin í lagi. Ég vil því hvetja öll sveitarfélög og kjörstjórnir að fara yfir þessa þætti og gera þá bráðabirgðaráðstafanir til að aðgengi sé fyrir alla, fólk með fötlun og aldraða til að nýta kosningarrétt sinn, og þá til framtíðar að gera öllum kleift að taka þátt í lýðræðislegu starfi og að þessir þættir séu í lagi, ekki bara fyrir nemendur heldur líka þá er sækja þurfa kjörstaðina.