Umræður um störf þingsins 17. október

Miðvikudaginn 17. október 2012, kl. 15:08:40 (0)


141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Húsnæðiskostnaður fjölskyldnanna er sífelldur vandi. Margt hefur verið gott gert eftir hrun en vandinn er ekki bara hruntengdur heldur kerfislægur á ýmsan hátt. Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, bendir á það í Fréttablaðinu í dag að frá aldamótum, fyrir hrun og eftir hrun, hafa vextir af nýjum húsnæðislánum verið tæplega þrefalt hærri á Íslandi en að meðaltali á evrusvæðinu. Munurinn er upp á 7,8 prósentustig, samtals 117 milljarðar sem jafngildir um 17% ráðstöfunartekna á meðalfjölskyldu.

Helsta skýringin er auðvitað óstöðugur sveifluhvatagjaldmiðill hér á landi og þeir sem vilja halda í hann þurfa að skýra fyrir okkur hvaða kosti hann hefur svo mikilvæga að afsaki þennan krónuskatt úr heimilisbókhaldinu fyrir utan allan annan kostnað sem við höfðum af þeim gjaldmiðli.

Ólafur Darri bendir hins vegar á að sjálft húsnæðiskerfið geti átt hlut að máli. Hagfræðingurinn segir, með leyfi forseta, „að frá árinu 2004 hefur álagið sem Íbúðalánasjóður leggur á lánin fjórfaldast og er nú 1,4 prósentustig eða sem nemur um þriðjungi af vöxtunum! Fyrir lántakanda sem skuldar 20 milljónir jafngildir þetta álag 280 þúsund krónum í aukavexti á ári.“

Ólafur Darri bendir á að meðan við bíðum eftir evrunni geti verið ráðlegt að líta í kringum sig og nefnir danska kerfið sem þrífst við lægri vexti og gæti hjálpað til að hætta við verðtryggingu á húsnæðislánunum. Ég hvet hv. þingmenn, einkum þá sem sitja í velferðarnefnd til að kynna sér þetta og vitna í afar viðeigandi lokaorð Ólafs Darra, með leyfi forseta:

„Er ekki líklegra að við náum árangri ef við hættum upphrópunum í vaxtamálum og eilífri leit að töfralausnum og förum þess í stað að skoða hvað við getum lært af þeim sem hvað bestum árangri hafa náð í að byggja upp lánamarkað sem tryggir húskaupendum hagstæðustu kjörin?“