Umræður um störf þingsins 17. október

Miðvikudaginn 17. október 2012, kl. 15:24:57 (0)


141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Grafalvarlegar fréttir berast úr framhaldsskólum landsins. Ég vil gera sérstaklega að umtalsefni frétt sem var í Fréttablaðinu dag um stöðu Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Ég verð að segja að það var hreint ótrúlegt að hlusta á hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra og fyrrverandi formann fjárlaganefndar þar á undan kalla það upphrópanir að þarna svari skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja því til aðspurður hvaða afleiðingar það hefði ef farið yrði eftir fjárlagafrumvarpi hæstv. fyrrverandi ráðherra. Hann metur það þannig að miðað við fjárveitingar þurfi að vísa 200 nemendum frá. Hann metur það þannig að skilaboðin hafi verið einföld á fundi í menntamálaráðuneytinu í gær: Það verður ekki bætt meiru við. Þetta kallar hv. þm. Oddný Harðardóttir upphrópanir.

Ég vona svo sannarlega að úr þessu verði greitt. Ég átti samtal áðan við hæstv. menntamálaráðherra sem ég treysti til að standa við þau orð að engum nemanda verði vísað frá í þessum skóla. Það er alveg rétt að það er mjög vont fyrir svæðið, Suðurnesin, sem hefur fengið högg eftir högg, ekki síst heimatilbúin högg frá hæstv. ríkisstjórn, að fá svona fréttir framan í sig. Ég vona svo sannarlega að komið verði í veg fyrir það með öllum ráðum. En þá verður maður að velta fyrir sér af hverju hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra lagði þá ekki til raunhæfa fjárveitingu í fjárlagafrumvarpinu í stað þess að væna menn um upphrópanir.

Mig langar líka aðeins, út af orðum hv. þm. Skúla Helgasonar í upphafi, sem var að tala um kynferðisbrotamál og fund allsherjar- og menntamálanefndar um þau mál — og það er mjög gott að þetta sé tekið til skoðunar. Ég vil benda hv. þingmanni á að kynferðisafbrot eru rannsökuð víðar en bara hér í Reykjavík. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur til dæmis náð mjög góðum árangri í að upplýsa og fá sakfellingu á (Forseti hringir.) kynferðisafbrotum í því umdæmi. Miðað við 3% sakfellingartöluna, sem hv. þingmaður nefndi, (Forseti hringir.) þá get ég bent á að hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum er þessi tala 17%.