Stjórnarráð Íslands

Miðvikudaginn 17. október 2012, kl. 15:49:42 (0)


141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[15:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að endurtaka deilur sem áttu sér stað hér einkum á síðasta ári um verkaskiptingu ráðuneyta eða hvernig hún er ákveðin. Frumvarpið sem hér er flutt byggir í sjálfu sér á stefnumörkun sem áður hefur komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og ekkert við því að segja.

Ég verð þó að játa að þegar maður sér hvernig útfærslan á að vera, varðandi til dæmis stjórnun Hafrannsóknastofnunar, þá finnst manni þetta svolítið óskýrt eða öllu heldur hefur maður ákveðnar áhyggjur af því að þarna verði, bara svo að ég leyfi mér að taka þannig til orða, klúður í sambandi við stjórnun stofnunarinnar. Ég hefði haldið að það væri skýrara og betra að hafa stofnunina undir atvinnuvegaráðuneytinu einu með skýrum og afdráttarlausum hætti.

Ég hef ekki orðið var við að Hafrannsóknastofnun hafi ekki tekið tillit til umhverfissjónarmiða og ekki tekið tillit til sjónarmiða um sjálfbæra nýtingu. Hún hefur miklu fremur verið gagnrýnd, meðal annars af sjómönnum og útgerðarmönnum, fyrir það að leyfa ekki nægilega nýtingu fiskstofna. Ég á því bágt með að sjá þá þörf sem leiðir til þeirrar niðurstöðu sem hér liggur fyrir.

Annað atriði sem ég ætlaði að nefna, sem er auðvitað svolítið sérstakt, er það að nú er verið að mæla fyrir um lagabreytingu til að færa forræði rammaáætlunar frá atvinnuvegaráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Það er hins vegar svolítið seint að breyta þeim lögum í ljósi þess að það var umhverfisráðherra sem fyrir einhverjum vikum flutti málið. Þá var það meðal annars notað sem rökstuðningur fyrir því að senda málið til umhverfisnefndar að það væri umhverfisráðherra sem flytti málið en nú er lagabreytingin sem sagt að koma til sögunnar.