Stjórnarráð Íslands

Miðvikudaginn 17. október 2012, kl. 16:01:24 (0)


141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[16:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki komið svar við spurningunni sem ég bar upp og ég spyr því hæstv. forsætisráðherra aftur: Hvernig koma lög um ráðherraábyrgð til með að passa við þessi nýju lög verði þau að veruleika? Þarna er verið að taka úr sambandi ráðuneyti við ráðherra og því er ábyrgðin ekki skýr og ber ég því spurninguna upp aftur.

Það er alveg rétt sem hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu að mjög erfitt var að koma þessum lögum í gegnum þingið. Það var ekki fyrr en ríkisstjórnin samdi við Hreyfinguna um að ríkisstjórnarfundir skyldu hljóðritaðir að það mál komst af stað hér í þinginu og varð loksins samþykkt með lögum. En við ræðum það síðar í haust hvernig fer með hljóðritanirnar.

Við sáum vandamál ríkisstjórnarinnar hér fyrr þegar átti að taka málefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úr höndum hans vegna umsóknarinnar að ESB og var sett í hendur utanríkisráðherra, það er meðal annars grunnurinn fyrir því að breyta þurfti þessum lögum, að taka ábyrgð ráðherra úr sambandi og setja inn í annað ráðuneyti.