Stjórnarráð Íslands

Miðvikudaginn 17. október 2012, kl. 16:05:41 (0)


141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[16:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla enn að vísa í ábyrgðina í forsetaúrskurðinum. Þar liggur alveg ljóst fyrir hvaða ráðherra fer með hvern málaflokk og hvert málefni fyrir sig.

Það er alveg rétt að Orkustofnun var flutt frá iðnaðarráðuneyti til atvinnuvegaráðuneytisins. Hvaða varðar auðlindirnar, sem eru í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, þá er það fyrst og fremst rannsóknaþátturinn á málum sem eru í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Það eru rannsóknir á lífríki í ám og vötnum, svo dæmi séu nefnd, og ráðgjöf um nýtingu þeirra, ákvörðun um verndarsvæði í hafi til varðveislu náttúruminja eða sérstakra vistkerfa á hafsbotni til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar. Það er á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem og vernd líffræðilegrar fjölbreytni, erfðaauðlinda og vistkerfa, þar með talið vistkerfa í hafi. Þannig er verið að undirstrika ábyrgð umhverfisráðuneytisins sérstaklega að því er varðar þessa rannsóknaþætti. Ég hygg að þetta sé alveg skýrt.

Það er auðvitað eðlilegt að Orkustofnun sem slík og Hafrannsóknastofnun séu undir forræði atvinnuvegaráðherra. Ég hef ekki heyrt neinar athugasemdir við það. En það sem er nýtt í umhverfis- og auðlindaþættinum er fyrst og fremst þessi sjálfbæra þróun sem er verið að leggja áherslu á og stefnumörkun um sjálfbæra þróun og ráðgjöf um nýtingu auðlinda. Það er fyrst og fremst það sem er verið að leggja áherslu á og skilgreiningar á viðmiðum um sjálfbæra nýtingu auðlinda, t.d. skipulag haf- og strandsvæða.

Ég held því að þeir þættir sem færast núna yfir til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins með þessari breytingu séu alveg skýrir þó að vissulega heyri þær stofnanir, Orkustofnun og Hafrannsóknastofnun, undir atvinnuvegaráðuneytið, en Veiðimálastofnun, (Forseti hringir.) af því að þar er fyrst og fremst um rannsóknir að ræða, fellur því undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Ég verð að fá að svara síðari spurningunni á eftir.