Stjórnarráð Íslands

Miðvikudaginn 17. október 2012, kl. 16:22:28 (0)


141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[16:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að deila við hæstv. forsætisráðherra á þessum vettvangi á þessum degi um þessi túlkunaratriði. Ég held þó að það hafi komið skýrt fram í umræðum í þinginu að stefnumarkandi ákvarðanir sem vörðuðu verkaskiptingu ráðherra þyrftu að koma inn í þingið. Ég reiknaði með að það kæmi þá inn í þingið áður en breytingar yrðu gerðar en ekki eftir að breytingar yrðu gerðar, þ.e. að það yrði borið undir þingið hvort rammaáætlun ætti að vera hjá umhverfisráðuneyti eða auðlindaráðuneyti áður en til þess kæmi að verkefnin væru flutt en ekki eftir að þau hafa verið flutt eins og nú er verið að gera.

Hér stangast ýmislegt á og er full ástæða til að fara yfir það í nefndarstörfum og engin ástæða til að eyða þessum degi í miklar umræður um það. Ég verð þó að benda á að þar sem sérlögin um rammaáætlun eru enn óbreytt og ekki eru lagðar til breytingar á þeim fyrr en með því frumvarpi sem er til 1. umr. á þessum degi má segja að þarna rekist á forsetaúrskurður frá því í ágústlok sem hæstv. forsætisráðherra gerði tillögu um — ég reikna ekki með að þessi tillaga hafi komið frá hæstv. forseta, ég býst við að hún hafi komið frá hæstv. forsætisráðherra — og gildandi lög í landinu, gildandi sérlög á þessu sviði.

Nú vill til að ekki eru mörg dómafordæmi fyrir því hvernig farið er með slíkan afrakstur en ég man þó eftir hæstaréttardómi frá 1954 þar sem lögin, sérlög, voru látin taka fram fyrir forsetaúrskurðinn varðandi skiptingu verka í sambandi við saksókn á Keflavíkurflugvelli sem er auðvitað allt annað mál og úrelt. Þar var um að ræða árekstur milli landslaga samþykktra af Alþingi og forsetaúrskurðar og í þeim dómi — sem er eini dómurinn sem fallið hefur um svona mál, alla vega sá eini sem ég man eftir — voru það lögin sem giltu en ekki forsetaúrskurðurinn.