Upplýsingalög

Miðvikudaginn 17. október 2012, kl. 16:37:23 (0)


141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[16:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsögu þessa máls. Eins og hún kom inn á sjálf er málið nú flutt í þriðja sinn og því gamall góðkunningi á ferð og raunveruleg forsenda þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn heldur vegna þess að málið er meðal annars lagt fram að kröfu Hreyfingarinnar sem vildi hér opið gegnsæi og hóf aukna ásókn í upplýsingar eftir hina svokölluðu búsáhaldabyltingu.

Ég veit líka vel að það er búið að vera sérstakt áhugamál hjá hæstv. forsætisráðherra að auka hér aðgang að stjórnkerfinu öllu og auka upplýsingarétt þegnanna en því miður hafa margar hindranir verið á þeirri braut. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að þetta mál er flutt hér í þriðja sinn en fyrsta frumvarpið mætti mjög mikilli andstöðu vegna ómöguleika í lýðræðislegu samfélagi.

Í markmiðsgrein frumvarpsins kemur fram að það eigi að styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi, það eigi að styrkja möguleika almennings til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi, það eigi að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum o.s.frv. Allt eru þetta göfug markmið en svo þegar betur er að gáð er ekki um það að ræða því að miðað við upphafsstef ríkisstjórnarinnar, að allt eigi að vera uppi á borðum, þá lokar frumvarpið raunverulega á þá möguleika frekar en hitt.

Mig langar því að spyrja sérstaklega út í 2. gr. Hvers vegna er lagt til í frumvarpinu að þessi lög skuli taka til lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera? Af hverju 51%? Af hverju erum við ekki að tala um að þessi lög gildi um þau fyrirtæki sem eiga 75% á móti hinu opinbera? Hvers vegna varð 51% fyrir valinu frekar en eitthvað annað? Ég veit að þessi prósentutala hefur verið ásteytingarsteinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hjá þeim sérfræðingum sem hafa komið fyrir nefndina.