Upplýsingalög

Miðvikudaginn 17. október 2012, kl. 16:39:39 (0)


141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[16:39]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það séu öfugmæli sem hv. þingmaður heldur fram, að með þessu lagafrumvarpi séum við ekki að auka upplýsingarétt almennings og opna betur stjórnsýsluna en verið hefur. Ég held að þessi lög séu einmitt mjög framsýn og séu til framfara og bóta og tryggi miklu betur upplýsingarétt en verið hefur í gildandi upplýsingalögum og taki mið af þeirri framþróun sem hefur orðið og þeirri kröfu sem er um aukinn upplýsingarétt almennings.

Ég held að benda megi á mörg nýmæli, m.a. það nýmæli sem hv. þingmaður bendir á í 2. gr. um gildissvið laganna. Þar er verið að útvíkka verulega það svið sem upplýsingalögin ná til. Þar er verið að tala um starfsemi lögaðila sem er yfir 51% hlut eða meira í eigu hins opinbera. Það er vissulega hægt að deila um það hvort þetta eigi að vera 51% eða 75%. Málið hefur farið í mikið umsagnarferli og verið skoðað af ýmsum aðilum og þetta er eitt af þeim ákvæðum í frumvarpinu sem menn voru ekki sama sinnis um og skiptar skoðanir voru um. Talið var eðlilegt að þarna væri um verulega opnun að ræða með þessu gildissviði en það vantar til dæmis umsögn Samkeppniseftirlitsins til að ákveða hvort ákveðin starfsemi heyri undir þetta eða ekki.

Þetta er bara málamiðlun í þessu máli, 51%. Menn töldu að á þessu stigi máls væri ekki rétt að ganga lengra að því er varðar gildissvið sem er þó töluvert mikið opnað með ákvæði þessarar 2. gr. Ef menn treysta sér til að ganga eitthvað lengra í þessu og færa fyrir því skynsamleg rök þannig að það gangi ekki gegn sjónarmiðum Samkeppniseftirlitsins þá er ég alveg opin fyrir því að skoða það.