Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna

Miðvikudaginn 17. október 2012, kl. 17:24:16 (0)


141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

25. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Hér legg ég til lagabreytingu sem snýr að því að ef þjóðaratkvæðagreiðsla er samþykkt á Alþingi eða forseti vísar máli í þjóðaratkvæðagreiðslu er hægt að halda þá kosningu innan þeirra þriggja mánaða tímamarka sem kveðið er á um í lögunum, þ.e. að hægt sé að víkja frá þriggja mánaða tímamarkinu. Samkvæmt lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna skulu líða þrír mánuðir frá því að tillaga til þjóðaratkvæðagreiðslu er samþykkt á þingi og þar til þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram.

Virðulegi forseti. Mér finnst einstaklega mikilvægt að þetta mál fái framgang núna í þinginu, sérstaklega í ljósi þess að nú er búið að ákveða kosningadag sem þingstörfin miðast við. Þó getur nú alltaf verið boðað til kosninga springi ríkisstjórnin. Það er mikilvægt að þessi breyting komist á þessu þingi inn í lögin um þjóðaratkvæðagreiðslur því að þingmenn Vinstri grænna hafa talað í þá átt í sumar og snemmhausts að á ákveðnum tímapunkti verði komið svo langt í samningaferlinu við ESB að það væri efnislega nægjanlegt að leggja þá niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Miðað við þessi orð má því reikna með að jafnvel verði þörf á að virkja þetta ákvæði á því tímabili sem nú er að líða fram að kosningum svo hægt verði að kjósa, þó að það yrði ekki fyrr en ákveðið yrði að leggja samning fyrir þingið og setja hann síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu innan þessa marks, þ.e. í febrúar, mars.

Ég hef flutt þetta mál áður á 139. og 140. löggjafarþingi en það fékk ekki brautargengi út úr nefnd og kom ekki til samþykktar þingsins eða synjunar. Þó finn ég að það er mikill velvilji fyrir málinu í þinginu. Nú höfum við gengið í gegnum margar kosningar undanfarið og um næstu helgi er þjóðaratkvæðagreiðsla og það hefði verið gott að hafa þetta ákvæði í lögunum ef það hefði þurft að samnýta kosningadaginn innan þessa þriggja mánaða.

Herra forseti. Ég ætla að lesa orðrétt úr greinargerðinni með frumvarpinu:

„Í 4. gr. laganna er kveðið almennt á um innan hvaða tímaramma halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslur. Í 1. mgr. kemur fram að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að samþykkt hefur verið þingsályktunartillaga um að fram skuli fara almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni eða lagafrumvarp. Í frumvarpi þessu er lagt til að undantekning verði gerð á þriggja mánaða tímamarkinu á þeim grunni að ef um kosningar sé að ræða innan þess tímaramma megi þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram samhliða kosningunum þó að styttri tími sé í þær en þrír mánuðir. Er þetta meðal annars gert til að spara ríkinu kostnað við kosningar. Áætlað er að þjóðaratkvæðagreiðslur kosti um 250 millj. kr.“ — Ábatinn er því augljós af frumvarpinu, komi þessi staða upp.

„Þessu til rökstuðnings má benda á að fordæmi eru fyrir því að skammur tími líði frá ákvörðun um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave-lögin svokölluðu, nr. 1/2010, sem fór fram tveimur mánuðum frá synjun forseta en ákvörðun um að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna var ekki tekin af ríkisstjórninni fyrr en um tíu dögum áður. Heppnaðist sú þjóðaratkvæðagreiðsla afar vel og var kjörsókn góð þó að tíminn væri stuttur. Flutningsmaður telur brýnt að hægt sé að bregðast skjótt við komi fram tillaga á Alþingi um mál sem skjóta á til þjóðarinnar. Þriggja mánaða bið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu er of langur tími þegar bera þarf stór ágreiningsmál undir þjóðina. Stjórnkerfið þarf að vera sveigjanlegt og bregðast hratt við slíkum málskotum Alþingis, sér í lagi sé það fyrirséð að samnýta megi kosningadag öðrum kosningum sem þegar hafa verið boðaðar með meiri fyrirvara.“

Virðulegi forseti. Ég legg málið fram til frekari umfjöllunar í nefnd og vonast til að það fái þar góða og greiða leið. Ég tel að málið sé mjög brýnt, að hægt sé að víkja frá þriggja mánaða tímamarkinu í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi. (Gripið fram í: Hvaða nefnd?)