Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 36. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 36  —  36. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.



Flm.: Gunnar Bragi Sveinsson, Birkir Jón Jónsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Vigdís Hauksdóttir, Höskuldur Þórhallsson.


1. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Styrk eða uppbót samkvæmt ákvæði þessu er heimilt að greiða öðrum en bótaþega, svo sem foreldrum eða nánum ættingjum, þrátt fyrir að viðkomandi hafi ekki sama heimili og bótaþegi. Er þá skilyrði að nægilega hafi verið sýnt fram á nauðsyn styrks eða uppbótar og að staðfesting þess efnis fáist frá heimilislækni bótaþega og félagsmálastjóra viðkomandi sveitarfélags.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður flutt á 139. og 140. löggjafarþingi.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um félagslega aðstoð, nánar tiltekið breytingar á ákvæði sem varðar félagslega aðstoð í tengslum við bifreiðakostnað. Í 10. gr. laganna er fjallað um bifreiðakostnað og gildir reglugerð nr. 170/2009 til fyllingar lögunum.
    Í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé að greiða bótaþega uppbót vegna kaupa á bifreið, styrk til reksturs bifreiðar eða styrk til þess að afla bifreiðar. Skilyrði laganna fyrir þessum styrkveitingum eru þau að bifreið sé nauðsynleg vegna hreyfihömlunar bótaþega. Styrkurinn til bifreiðakaupa er sérstaklega bundinn við tilfelli þegar bifreið er nauðsynleg vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða líkamshluta vantar. Í áðurnefndri reglugerð hefur ráðherra síðan sett frekari skýringar og skilyrði fyrir greiðslu styrkja og uppbótar.
    Í reglugerðinni kemur fram að í báðum tilfellum, þ.e. við veitingu uppbótar og styrkgreiðslu, er skilyrði fyrir úthlutun að hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Það hefur þó sýnt sig að svo getur staðið á að hinn hreyfihamlaði eigi ekki eða geti ekki átt sama heimili og foreldrar eða aðrir nánir ættingjar hans sem aka honum í bifreið sinni. Dæmi um slíkt er búseta bótaþega á sambýli þegar foreldrar eða nánir ættingjar viðkomandi aðila búa á eigin heimili en nýta samt bifreið sína til þjónustu og umönnunar við hinn hreyfihamlaða.
    Ekki getur talist eðlilegt að takmarka veitingu bifreiðastyrkja með þessum hætti enda ljóst að mikilvægt er fyrir bótaþega að geta notið aðstoðar foreldra eða náinna ættingja sinna og aukið lífsgæði sín, m.a. með bílferðum. Gerir frumvarp þetta því ráð fyrir að heimilt sé að greiða öðrum en bótaþega eða heimilismanni hans styrkinn ef nægilega er sýnt fram á nauðsyn styrksins og staðfesting þess efnis fengin frá heimilislækni og félagsmálastjóra viðkomandi sveitarfélags. Með því að tilgreina tvo óháða og óskylda fagaðila til að staðfesta mikilvægi styrksins er lögð áhersla á að fagleg sjónarmið ráði. Í texta greinarinnar er í dæmaskyni talað um foreldra eða nána ættingja en meta þarf hvert tilvik fyrir sig og endanlegt mat liggur hjá Tryggingastofnun ríkisins.
    Verði frumvarp þetta að lögum er ljóst að einnig þarf að breyta reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, nr. 170/2009.