Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 83. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 83  —  83. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um gagngera endurskoðun á skipulagi og forsendum hvalveiða.

Flm.: Árni Þór Sigurðsson, Mörður Árnason, Birgitta Jónsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka skipulag og forsendur hvalveiða til gagngerrar endurskoðunar. Endurskoðunin verði unnin í samstarfi umhverfis- og auðlindaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Við endurskoðunina verði sérstaklega könnuð sjálfbærni veiðanna og þær metnar út frá heildarhagsmunum þjóðarbúsins, m.a. efnahagslegum hagsmunum, dýraverndarsjónarmiðum og alþjóðlegum skuldbindingum. Stefnt skal að því að endurskoðuninni verði lokið fyrir 1. apríl 2013.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var flutt á 140. löggjafarþingi (465. mál) en komst þá ekki á dagskrá og er nú endurflutt í nær óbreyttri mynd.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er mörkuð ákveðin stefna um nýtingu sjávarspendýra. Annars vegar er þar kveðið á um réttinn til veiða á m.a. hval og sel: „Íslendingar áskilja sér hér eftir sem hingað til rétt til nýtingar sjávarauðlinda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.“ Hins vegar er þar kveðið á um að nauðsynlegt sé að endurmeta hvernig Íslendingar hyggist nýta sér rétt sinn til veiða á þeim stofnum: „Forsendur fyrir veiðum og nýtingu sjávarspendýra, sela og hvala, verði endurmetnar frá grunni með tilliti til sjálfbærni og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið í heild sem og alþjóðlegra skuldbindinga og ímyndar Íslands.“
    Á 138. löggjafarþingi lagði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram frumvarp til laga um hvali (þskj. 981, 590. mál) er hafði það yfirlýsta markmið „að stuðla að verndun hvala samhliða hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu hvalastofna“. Málið varð ekki útrætt og hefur ekki verið endurflutt en í innsendum erindum var m.a. fundið að því að það fæli ekki í sér það endurmat á forsendum nýtingar á sjávarspendýrum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Þess í stað var í því áréttað vald ráðherra til að ákveða hvort hvalveiðar eru stundaðar og í hve miklum mæli en að öðru leyti gengið út frá að núverandi tilhögun þessara mála væri viðunandi.
    Ekki liggja fyrir tölur um tekjur af útflutningi hvalkjöts, sem hefur aðeins verið til Japans. Sumarið 2007 ákvað þó þáverandi sjávarútvegsráðherra að gefa ekki út leyfi til hvalveiða. Rökstuddi hann ákvörðun sína með því að ekki hefði tekist að selja íslenskt hvalkjöt til Japans veturinn á undan. Ekki er að sjá sem það hafi verið vegna aukinnar sölu á hvalkjöti þangað sem leyfi til hvalveiða voru aftur gefin út í janúar 2009 (sjá fylgiskjal). Í þeirri endurskoðunarvinnu sem hér er lagt til að ráðist verði í þarf m.a. að kanna hvort Ísland og ímynd þess hafi orðið fyrir skaða vegna veiðanna og hvaða áhrif þær hafa haft á fiskútflutning til ríkja þar sem hvalveiðar eru illa þokkaðar. Ljóst er að það spillir jafnan fyrir hagsmunum íslenskra útflutningsgreina þegar stjórnvöld heimila hvalveiðar á ný, svo sem var um markaðskynningu á íslenskum búvörum hjá Whole Foods í Bandaríkjunum 2006 og 2009. Því er ekki að sjá sem þeir fjármunir sem íslensk stjórnvöld hafa veitt í að kynna meinta hvalveiðistefnu Íslendinga og afla henni skilnings og fylgis hafi nýst vel. Samkvæmt skýrslu sem Sjónarrönd ehf. vann fyrir IFAW (International Fund for Animal Welfare) á Íslandi og Náttúruverndarsamtök Íslands árið 2007 um útgjöld íslenskra stjórnvalda til hvalveiða og tengdra verkefna á árunum 1990 til 2006 höfðu þau varið u.þ.b. 750 millj. kr. til málaflokksins á tímabilinu, þar af 197 millj. kr. til almannatengsla og markaðssetningar (einkum á síðustu árum þessa tímaramma). Til samanburðar var á svipuðum tíma (1997–2006) varið 351 millj. kr. til þess að kynna íslenskt lambakjöt og aðrar búvörur á erlendri grund.
    Við þá endurskoðun á lögum er varða hvali sem hér er lagt til að ráðist verði í þarf að huga að grunnforsendum nýtingar á þeim. Því ber að kanna hvort ekki eigi fremur að ganga út frá friðun þeirra sem almennri reglu, er gera megi undantekningar á, í stað þess að gera ráð fyrir hvalveiðum og setja svo reglur og lög um tilhögun þeirra. Þá nálgun má m.a. finna í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, en þar segir í 1. mgr. 2. gr.: „Markmið laga þessara er að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna, skipulag á veiðum og annarri nýtingu dýra, svo og aðgerðir til þess að koma í veg fyrir tjón sem villt dýr kunna að valda.“ Í samræmi við það ætti því að fella út 2. mgr. 2. gr. en þar segir: „Ákvæði laga þessara taka hvorki til hvala né sela en um þær tegundir gilda sérstök lög.“
    Í umsögn Náttúruverndarsamtaka Íslands um áðurnefnt frumvarp um hvali frá 138. þingi var bent á að Hafrannsóknastofnunin hefði reiknað ráðlagðan hrefnuveiðikvóta í samræmi við ráðgjöf vísindanefndar NAMMCO, er nyti ekki alþjóðlegrar viðurkenningar, ólíkt vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins. Kanna þyrfti hvort slíkt vinnulag, þar sem Ísland velur sér vísindalega ráðgjöf eftir því sem hentar hverju sinni, geti talist vera í þágu heildarhagsmuna Íslands, sem og hver árangurinn hafi verið af starfi NAMMCO. Í greinargerð Gunnars G. Schram og Davíðs Björgvinssonar fyrir forsætisráðuneytið, Hvalveiðar Íslendinga í ljósi þjóðaréttar, sem unnin var 1993, ári eftir stofnun NAMMCO, er hugað að því hvaða þýðingu alþjóðlegar skuldbindingar Íslands hafa í þessu samhengi. Með aðild að Hafréttarsáttmálanum er, að þeirra áliti, „sú skylda lögð á ríki að starfa saman að verndun og stjórnun hvalastofnanna. Í því felst að ríki getur ekki ákveðið veiðar að eigin geðþótta. Til þarf að koma ákvörðun viðeigandi alþjóðastofnunar. Því má tvímælalaust halda fram að „viðeigandi“ alþjóðastofnun sé, að því er hvali varðar, Alþjóðahvalveiðiráðið, sem fjallar um stjórnun og verndun hvala um allan heim.“ Aðild Íslands að Dagskrá 21 áréttar þessa stöðu enn frekar. Alþjóðlegir samningar sem þessir, auk aðildar Íslands að Bernarsamningnum, Samningnum um líffræðilega fjölbreytni (CBD) eða Samningnum um alþjóðaverslun með tegundir dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES) og þær lagalegu skuldbindingar sem þeim fylgja þyrftu að liggja allri hérlendri löggjöf um nýtingu hvala og annarra sjávarspendýra til grundvallar.
    Í því sambandi skal þess getið að flutningsmenn þessarar tillögu leggja einnig fram frumvarp þar sem gert er ráð fyrir að selur falli undir lög nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.



Fylgiskjal.

Árni Finnsson:

Um markað fyrir hvalkjöt í Japan.
(natturan.is, 3. september 2009.)

    Árni Bjarnason, formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, víkur nokkrum orðum að mér og afstöðu minni til hvalveiða í Fiskifréttum þann 20. ágúst sl. og spyr (svona í mestu vinsemd) hvort ekki sé allt í lagi með mig. Jú takk nafni, ég hef það ágætt, heyri enn og les vel gleraugnalaust. Ég leyfi mér því að fullyrða að mikilvægi hvalveiða í þjóðhagsreikningum sé minna en þú vilt vera láta. Þá sleppi ég að ræða atriði á borð við CITES-sáttmálann, Alþjóðahvalveiðiráðið, afstöðu erlendra ríkja til hvalveiðistefnu stjórnvalda og aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Skoðum dæmið.

Norðmenn gáfust upp á útflutningi
    Sala hvalkjöts í Japan er nú miklu minni en hún var fyrir 25 árum síðan þegar útflutningur hvalkjöts héðan var umtalsverður. Framboð á hvalkjöti er nú mun meira en nemur eftirspurn og birgðir kjöts í frysti samsvara um eins árs neyslu.
    Í október 2008 greindi japanska dagblaðið Ashai Shimbun frá því að dregið yrði úr veiðum í Suðurhöfum um 200 hrefnur vegna minnkandi eftirspurnar og mikils framboðs á kjöti.
    Eftir heimsókn Kjell Magne Bondeviks, fv. forsætisráðherra Noregs, til Japans í maí 2003 gáfu norskir hrefnuveiðimenn upp á bátinn áform sín um útflutning til Japans. Hrefnuveiðar þar í landi hafa dregist saman og fjöldi veiddra dýra í ár sá minnsti síðan 1996. Umræða um útflutning til Japans á sér ekki stað lengur.

Framboð á Japansmarkaði tvöfaldað
    Eftir nokkurt hlé var langreyðarkjöt aftur í boði á Japansmarkaði í júlí 2006. Á næstu 36 mánuðum – fram til júlí í ár – nam framboðið 346 tonnum eða um 9,7 tonnum á mánuði. Þessi tala tekur mið af útflutningi Hvals hf. í fyrra en langreyðarkjöt frá Íslandi varð fyrst vart á markaði þar í maí sl. Samkvæmt þessu eru efri mörk framboðs á langreyðarkjöti á Japansmarkaði 116,4 tonn á ári eða sem nemur afurðum af 13 langreyðum frá Íslandi. Nærri tvisvar sinnum það magn sem Kristján Loftsson flutti út í maí 2008.
    Í ár hafa skip Kristjáns þegar veitt um 90 langreyðar eða um 13 sinnum meira magn en árið 2006. Það er sem nemur sjö sinnum árlegri neyslu á langreyðarkjöti í Japan. Og enn á Kristján eftir að fylla kvótann upp á 150 dýr. Takist honum það ætlunarverk sitt mun hann ellefufalda framboð af langreyðarkjöti á Japansmarkaði. Þá er ekki tillit tekið til þess að japanskir hvalveiðimenn hyggjast halda áfram veiðum á langreyði og selja á heimamarkaði. Geri þeir það gæfist rými fyrir um það bil 3 langreyðar frá Íslandi á Japansmarkaði árlega, sem er 30 sinnum minna magn en skip Kristjáns hafa þegar aflað.

Herferð fyrir aukinni neyslu mistókst
    Um árabil hafa japönsk stjórnvöld reynt að blása lífi í markað fyrir hvalaafurðir með auglýsingaherferðum, útgáfu matreiðslubóka, ókeypis úthlutun á hvalkjöti til leikskóla og elliheimila o.s.frv. en allt án árangurs. Yfirvöld lokuðu markaðsskrifstofu fyrir hvalkjöt eftir að henni mistókst að auka eftirspurn.
    Nú skal viðurkennt að íslenskir viðskiptajöfrar kalla ekki allt ömmu sína í útrásinni en í ljósi hnignandi markaðar fyrir hvalkjöt í Japan og þess að Japanar eru ekki hættir veiðum á langreyði – þeir segja þvert á móti að þeir muni halda slíkum veiðum áfram – verður að draga þá ályktun að markaðssetning Kristjáns Loftssonar á afurðum sínum verði bæði dýr og langvinn.

Að reyna hið ómögulega
    Kristján Loftsson er því í vanda staddur. Hann gæti sótt inn á þann hluta markaðarins sem Japanir selja sitt langreyðarkjöt á og þannig ógnað stöðu heimamanna og hann gæti reynt hið ómögulega; að stækka markað fyrir hvalkjöt í Japan en þar hefur Japönum sjálfum mistekist. Báðir þessir kostir eru mjög kostnaðarsamir og útilokað að íslensk stjórnvöld séu þess nú umkomin að bæta við þær hundruðir milljóna króna sem hvalveiðar hafa kostað íslenska þjóðarbúið á undanförnum árum.