Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 102. máls.
Þingskjal 102  —  102. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög,
með síðari breytingum (opinber hlutafélög o.fl.).


(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    2. málsl. 5. mgr. 70. gr. laganna orðast svo: Starfsreglur stjórna opinberra hlutafélaga skulu vera í samræmi við eigendastefnu ríkis eða sveitarfélaga og skal birta þær á vef félagsins.

2. gr.

    Við 4. mgr. 80. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Fulltrúar starfsmanna hafa sama rétt og kjörnir fulltrúar skv. 2. málsl.

3. gr.

    Við 86. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði skal kröfu skv. 1. mgr. fylgja rökstuðningur eða drög að ályktun til félagsstjórnar eigi síðar en viku fyrir boðun aðalfundar samkvæmt fresti í 1. eða 2. mgr. 88. gr. a. Kröfu má gera síðar en þó í síðasta lagi tíu dögum fyrir aðalfundinn. Félagsstjórn skal a.m.k. þremur dögum fyrir fundinn upplýsa hluthafa með öruggum hætti um kröfuna og eftir atvikum tillöguna, svo og eftir atvikum endurskoðaða dagskrá fundarins, t.d. á vef félagsins.

4. gr.

    Lokamálsliður 2. mgr. 88. gr. laganna orðast svo: Í samþykktum opinbers hlutafélags skal kveðið á um að ætíð skuli boða stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og endurskoðendur félagsins á hluthafafund, svo og kjörna fulltrúa eigenda skv. 4. mgr. 80. gr., fulltrúa fjölmiðla og fulltrúa starfsmanna á aðalfund.

5. gr.

    Lokamálsliður 6. mgr. 90. gr. laganna orðast svo: Þeir aðilar sem hafa heimild til að sitja aðalfund skv. 4. mgr. 80. gr. skulu í síðasta lagi fjórtán dögum eftir aðalfund eiga aðgang að fundargerðabók vegna aðalfundar opinbers hlutafélags eða staðfestu endurriti fundargerðar aðalfundar á skrifstofu félagsins.

6. gr.

    Á eftir orðunum „samþykktir félagsins“ í 1. málsl. 2. mgr. 149. gr. laganna kemur: og undirritaða yfirlýsingu stjórnarmanna um skuldbindingu við eigendastefnu ríkis eða sveitarfélaga.

7. gr.

    Í lögum þessum er gerð breyting á 86. gr. laganna vegna endurskoðunar á innleiðingu 6. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/36 /EB frá 11. júlí 2007 um nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa í skráðum félögum.
    

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Lagafrumvarp þetta er samið í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Í því er aðallega lagt til, að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið, að gerðar verði breytingar á nokkrum ákvæðum laga um hlutafélög er varða opinber hlutafélög, sbr. 1., 2., 4., 5. og 6. gr. Jafnframt er í 3. gr. gert ráð fyrir breytingu á ákvæðum um dagskrá og tillögur í hlutafélögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.
    Frumvarpið er endurflutt frá 140. löggjafarþingi þar sem m.a. var fjallað um það í efnahags- og viðskiptanefnd en frumvarpið varð ekki útrætt. Efnisleg athugasemd barst frá Bankasýslu ríkisins varðandi hugsanlegt misræmi í eigendastefnu ef fleiri en einn opinber aðili stæði að opinberu hlutafélagi. Ráðuneytið útskýrði málið. Var tekið fram að oftast væri einn eigandi. Lög gengju framar eigendastefnu ef í odda skærist og opinberir eigendur, ef fleiri væru en einn og misræmi væri í stefnu, þyrftu að koma sér saman, eftir atvikum eftir ábendingu frá stjórn.
    Tillögurnar um opinber hlutafélög miða að því að auka gagnsæi í rekstri opinberra hlutafélaga með því að tryggja betra upplýsingastreymi til starfsmanna. Jafnframt verði lögmælt að starfsreglur stjórna opinberra hlutafélaga séu í samræmi við eigendastefnu ríkis eða sveitarfélaga eftir því sem við á. Tillögurnar eru taldar þjóna almannahagsmunum.
    Þó að sett hafi verið í lög ákvæði um opinber hlutafélög í þeim tilgangi að einfalda rekstur slíkra félaga og gefa ríki og sveitarfélögum færi á að stunda rekstur á samkeppnisgrundvelli er mikilvægt að opinber hlutafélög séu gegnsærri en gengur og gerist um hlutafélög í einkaeigu og feti meðalveg milli þess að vera annars vegar opinber stofnun, sem fer m.a. eftir stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, og hins vegar almennt hlutafélag. Er gert ráð fyrir að unnt sé að ná þessum markmiðum með því að láta slíkt félag fara að reglum um eigendastefnu ríkis eða sveitarfélaga gagnvart hverju opinberu hlutafélagi fyrir sig. Þá er gert ráð fyrir ákvæðum til að tryggja upplýsingaflæði í þessum félögum, m.a. með því að veita fulltrúum starfsmanna félagsins, sem um ræðir, rétt til að sækja aðalfund félagsins. Þeir fá jafnframt rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir á fundinum eins og kjörnir fulltrúar ríkis eða sveitarfélaga og þar með möguleika til að hafa enn frekari áhrif á starfsumhverfi sitt.
    Ákvæði 3. gr. frumvarpsins um dagskrá og tillögur í hlutafélögum, þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, felur í sér breytingu á innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/36/EB frá 11. júlí 2007 um nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa í skráðum félögum (e. Directive 2007/36/EC of the European Parliament and of the Council of 11 July 2007 on the exercise of certain rights of shareholders in listed companies). Tilskipunin er hluti EES-samningsins, tekin upp í hann með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2008 frá 25. apríl 2008 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn (EES-viðbætir við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, 15. árgangur, hefti 52 (21.8.2008), bls. 31). Tilskipunin var innleidd með lögum nr. 126/2009, um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (réttindi hluthafa).
    Komið hefur fram ábending um að innleiðing 6. gr. tilskipunarinnar, um rétt til að setja mál á dagskrá aðalfundar og til að leggja fram drög að ályktunum, sé ekki nægilega skýr hvað tímafresti snerti og er ætlunin að ráða bót þar á með því að bæta nýrri málsgrein við 86. gr. laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Starfsreglur stjórna opinberra hlutafélaga, sem vikið er að í grein þessari, skulu vera í samræmi við eigendastefnu ríkis eða sveitarfélaga.
    Í greininni er gert ráð fyrir að ríkið og sveitarfélög móti eigendastefnu í opinberum hlutafélögum. Þá getur talist eðlilegt að fjallað yrði m.a. um skuldbindingu stjórna í opinberum hlutafélögum til að innleiða í starfsemi félaganna gagnsæi og lýðræðislegar aðferðir við ákvarðanatöku, eftir atvikum með þátttöku starfsmanna og annarra hagsmunaaðila, og gæta samfélagslegra sjónarmiða.
    Í forsetaúrskurði nr. 125/2011, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, er gert ráð fyrir því að fjármálaráðuneytið fari með mál er varða skipulag og stjórnarhætti í ríkisstarfsemi. Það ráðuneyti hefur komið að mótun eigendastefnu í ýmsum tilvikum.
    Gert er ráð fyrir að opinber hlutafélög haldi úti vef og er greinin miðuð við það.

Um 2. gr.


    Eins og segir í almennum athugasemdum við frumvarpið er lagt til að fulltrúum starfsmanna opinbers hlutafélags skuli vera heimilt að sitja aðalfund félagsins. Eðlilegt er að fulltrúi starfsmanna, jafnvel fleiri en einn í sérstökum tilvikum, sé boðaður til aðalfundar líkt og fulltrúar fjölmiðla. Er þá gert ráð fyrir að fulltrúi starfsmanna hafi sömu réttindi og kjörnir fulltrúar ríkis eða sveitarfélaga, þ.e. til að bera fram skriflegar fyrirspurnir á fundinum.

Um 3. gr.


    Vísað er til almennra athugasemda hér að framan um fyrirhugaðar breytingar á ákvæðum 86. gr. laganna varðandi dagskrá og tillögur í hlutafélögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.
    Breytingarnar taka aðeins til hlutafélaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Skal hluthafi þá gera rökstudda kröfu, eða kröfu ásamt ályktunartillögu, um að fá ákveðið mál tekið til meðferðar á aðalfundi eigi síðar en viku fyrir boðun fundarins samkvæmt fresti þar að lútandi (viku fyrir boðun með þriggja vikna fyrirvara skv. 88. gr. a í lögunum og viku fyrir boðun með tveggja vikna fyrirvara í 2. mgr. 88. gr. a). Er heimild til handa ríkjum hér nýtt til að takmarka regluna við aðalfundi en ekki hluthafafundi almennt enda geta minnst 5% hluthafa krafist aukafundar í félagi. Framangreinda kröfu má gera síðar en þó í síðasta lagi tíu dögum fyrir aðalfundinn. Gert er ráð fyrir að félagsstjórn skuli fyrir fundinn upplýsa hluthafa með öruggum hætti um kröfuna og eftir atvikum tillöguna, svo og útbúa endurskoðaða dagskrá fundarins ef þörf krefur, t.d. á vef félagsins.
    Nýju ákvæðin eru skýrari hvað tímasetningu snertir en gildandi ákvæði 86. gr. þar sem segir að hver hluthafi eigi rétt á því að fá ákveðið mál tekið til meðferðar á hluthafafundi ef hann gerir skriflega eða rafræna kröfu um það til félagsstjórnar með það miklum fyrirvara að unnt sé að taka málið á dagskrá fundarins. Það ákvæði mun gilda áfram um hlutafélög almennt, þ.e. önnur hlutafélög en markaðsfélög.

Um 4. gr.


    Í greininni er lagt til að bætt sé við gildandi ákvæði 2. mgr. 88. gr. laganna, um boðunarskyldu í samþykktum opinberra hlutafélaga, á þá leið að skylt sé að boða fulltrúa starfsmanna félaganna á aðalfund þeirra, svo og kjörna fulltrúa eigenda skv. 4. mgr. 80. gr.

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að þeir aðilar í opinberum hlutafélögum sem hafa heimild til að sitja aðalfund skv. 4. mgr. 80. gr. skuli í síðasta lagi fjórtán dögum eftir aðalfund eiga aðgang að fundargerðabók vegna aðalfundar opinbers hlutafélags eða staðfestu endurriti fundargerðar aðalfundar á skrifstofu félagsins. Þessi réttindi einskorðist með öðrum orðum ekki við fulltrúa fjölmiðla, eins og nú er, auk hluthafa, heldur og fulltrúa starfsmanna og kjörna fulltrúa í opinberum hlutafélögum.

Um 6. gr.


    Til að leggja áherslu á að stjórnarmenn í opinberum hlutafélögum fari að reglum um eigendastefnu ríkis eða sveitarfélaga í slíkum félögum þykir eðlilegt að undirrituð yfirlýsing stjórnarmanna um skuldbindingu við eigendastefnuna sé aðgengileg á vef félagsins ásamt samþykktum félagsins, árs-, samstæðu- og sex mánaða árshlutareikningi.

Um 7. gr.


    Grein þessi snertir innleiðingu.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995,
um hlutafélög, með síðari breytingum (opinber hlutafélög o.fl.).

    Meginmarkmið frumvarps þessa er að breyta lögum um hlutafélög í þá veru að auka gegnsæi í rekstri opinberra hlutafélaga og tryggja að starfsreglur stjórna slíkra félaga séu í samræmi við eigendastefnu ríkis eða sveitarfélaga.
    Meðal þess sem lagt er til í frumvarpinu er ákvæði varðandi skuldbindingu stjórna slíkra félaga til að starfa samkvæmt eigendastefnu. Einnig eru lagðar til breytingar er varða boðun aðalfunda og birtingu fundargerða þeirra. Þá er lagt til að fulltrúar starfsmanna hafi sama rétt og kjörnir fulltrúar ríkis eða sveitarfélaga til að bera fram skriflegar fyrirspurnir á aðalfundum. Að lokum er lögð til breyting er snýr að hlutafélögum sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og varðar rétt hluthafa til að fá ákveðið mál tekið fyrir á aðalfundi hlutafélags.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér áhrif á fjárhag ríkissjóðs.