Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 137. máls.

Þingskjal 137  —  137. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991
(ábyrgð dreifingaraðila).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Evrópureikningseininga (ECU)“ kemur: evra.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Við ákvörðun bóta fyrir tjón á hlut, sbr. 1. mgr. 6. gr., skal draga frá fjárhæð sem nemur 500 evrum eða samsvarandi fjárhæð í íslenskum krónum miðað við gengisskráningu á uppgjörsdegi hins bótaskylda tjóns.

2. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Dreifingaraðili ber ábyrgð á skaðsemistjóni skv. 2. gr. nema hann sýni fram á að tjónið verði ekki rakið til sakar hans eða vanrækslu.

3. gr.

    Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, svohljóðandi:
    Dreifingaraðili ber ábyrgð beint gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum á tjóni sem fellur undir ákvæði 2. gr. að svo miklu leyti sem tjónið verður rakið til sakar eða vanrækslu af hálfu framleiðanda eða fyrri dreifingaraðila í aðfangakeðjunni.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í tilefni af því að Eftirlitsstofnun EFTA (hér eftir ESA) tók til nánari skoðunar ákvæði laga um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991, en lögin eru innleiðing á tilskipun 85/374/EBE, um skaðsemisábyrgð. Ástæða könnunar af hálfu ESA var að með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 79/2010 var felld hlutlæg skaðsemisábyrgð á tjóni bæði á framleiðanda og dreifingaraðila, skv. 2. mgr. 4. gr. og 10. gr. laga um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991. Í bréfi ESA var vísað til þess að Evrópudómstóllinn hefði í málinu C-402/03, Skov Æg gegn Bilka Lavprisvarehus A/S, komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði danskra laga um skaðsemisábyrgð (d. Produktansvarsloven) hefðu verið andstæð ákvæðum tilskipunarinnar. Ákvæði 10. gr. íslensku laganna er sambærilegt að efni til og ákvæði dönsku laganna og telur ESA því vera um brot á tilskipuninni að ræða. Hjá Evrópudómstólnum hefur einnig verið staðfest að til að tryggja rétta innleiðingu á tilskipuninni beri aðildarríkjum að innleiða í löggjöf sinni þá lágmarksfjárhæð sem getið er um í b-lið 9. gr. tilskipunarinnar en þar segir að bæta skuli „tjón eða eyðileggingu á hlut öðrum en vörunni sjálfri sem var haldin ágalla, þó að lágmarki 500 evrópskar mynteiningar (ECU).“ Um það atriði hefur m.a. verið vísað til málsins C-154/00, Framkvæmdastjórnin gegn Grikklandi, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að aðildarríkjum sé skylt að innleiða slíka takmörkun á bótarétti tjónþola. Á rýnifundi í maí 2011 vegna viðræðna um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu var jafnframt áréttað af hálfu framkvæmdastjórnar ESB að nauðsynlegt væri að breyta lögum um skaðsemisábyrgð og tryggja þannig rétta innleiðingu á ákvæðum tilskipunar 85/374/EBE í samræmi við skýr dómafordæmi Evrópudómstólsins. Frumvarp þetta er því samið og lagt fram í því skyni að verða við framangreindum ábendingum sem íslensk stjórnvöld hafa fengið vegna innleiðingar á tilskipuninni. Lögin um skaðsemisábyrgð voru samin og samþykkt á Alþingi árið 1991 og voru þau að verulegu leyti byggð á sambærilegum lögum í Danmörku en íslenskur skaðabótaréttur byggist að mörgu leyti á sömu grunnreglum og þeim sem gilda í Danmörku. Auk þess hafa dönsk dómafordæmi mikla þýðingu innan skaðabótaréttar hér á landi. Í því skyni að halda því lagasamræmi sem er á milli ákvæða dönsku laganna og þeirra íslensku er í frumvarpi þessu höfð hliðsjón af dönskum lögum um skaðsemisábyrgð eins og þeim var breytt í kjölfar úrskurðar Evrópudómstólsins í fyrrnefndu máli C-402/03.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Um a-lið. Þegar lög nr. 25/1991, um skaðsemisábyrgð, voru samþykkt var notað hugtakið „Evrópureikningseiningar“ og skammstöfunin „ECU“ um það sem nú er hin samevrópska mynt sem ber heitið „evra“. Lagt er til að orðalagi ákvæðisins verði breytt til samræmis við þá þróun sem átt hefur sér stað að þessu leyti.
    Um b-lið. Með þessari breytingu er lagt til að innleitt verði ákvæði b-liðar 9. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt framangreindu ákvæði er þar kveðið á um að þegar tjón hefur orðið á hlut sem verður rakið til ágalla á vöru sem framleiðandi hefur framleitt eða dreift þá fellur slíkt tjón því aðeins undir ákvæði tilskipunarinnar að það fullnægi lægri fjárhæðarmörkum en þeim sem kveðið er á um í þessari grein tilskipunarinnar, þ.e. 500 evrum. Hér er því lagt til að framangreint ákvæði verði nú lögfest í samræmi við ábendingar framkvæmdastjórnar ESB. Þessi lagabreyting er einnig í samræmi við niðurstöður Evrópudómstólsins þar sem segir að aðildarríkjum beri að lögfesta framangreinda takmörkun varðandi ábyrgðina. Tilgreint er viðmið tilskipunarinnar í evrum en einnig þykir rétt að í ákvæðinu komi fram að jafngilt er að draga frá samsvarandi fjárhæð í íslenskum krónum miðað við gengisskráningu á þeim degi sem uppgjör fer fram enda íslensk króna lögeyrir hér á landi.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er byggt á því að Evrópudómstóllinn telur að ekki sé unnt að gera dreifingaraðila ábyrgan á grundvelli þeirrar hlutlægu ábyrgðar sem framleiðandi ber samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar. Hins vegar kemur þessi niðurstaða ekki í veg fyrir að unnt sé að krefja dreifingaraðila um bætur í þeim tilvikum sem bótaábyrgðin byggist á sök framleiðanda en ekki hinni hlutlægu ábyrgð hans. Ákvæðið er að danskri fyrirmynd. Jafnframt tekur þetta ákvæði mið af gildandi dómaframkvæmd að þessu leyti. Í þeim tilvikum að bótaábyrgð er rakin til sakar framleiðanda sem er gjaldþrota þá getur tjónþoli fengið tjón sitt bætt. Tilgangur þeirra breytinga sem hér eru lagðar til er að takmarka ábyrgð dreifingaraðila í samræmi við niðurstöður Evrópudómstólsins en um leið að ganga þó ekki lengra í takmörkun ábyrgðar en leyfilegt er samkvæmt Evrópuréttinum.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er lagt til að dreifingaraðili beri aðeins beint ábyrgð á tjóni sem rakið er til sakar eða vanrækslu af hálfu framleiðanda eða fyrri dreifingaraðila í aðfangakeðjunni. Gert er ráð fyrir að ábyrgð geti fallið á dreifingaraðila vegna tjóns sem rakið er til sakar fyrri dreifingaraðila og er það aðeins lögfesting á gildandi framkvæmd. Rétt er að geta þess að tjónþoli getur einnig ávallt beint kröfum að öðrum sem kunna að bera ábyrgð á tjóninu, sbr. nánar 11. gr. laganna og þar er einnig fjallað um endurkröfurétt, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991 (ábyrgð dreifingaraðila).

    Með frumvarpinu þessu eru lagðar til þrenns konar breytingar á gildandi lögum um skaðsemisábyrgð. Í fyrsta lagi er lagt til að viðmið fjárhæða í Evrópureikningseiningu eða ECU verði felld niður en í staðinn verði vísað í fjárhæðir í evrum. Hér er eingöngu um leiðréttingu að ræða þar sem á þeim tíma er lögin voru samþykkt var notuð skammstöfunin ECU eða orðið Evrópureikningseining sem nú er hin samevrópska mynt sem ber heitið evra. Í öðru lagi er lagt til að tjón á hlut sem rakið verður til ágalla á vöru sem framleiðandi hefur framleitt eða dreift verði einungis bætt ef það nær lágmarksfjárhæð, þ.e. 500 evrum, og að við uppgjör á slíku tjóni beri að draga þá fjárhæð frá bótum. Er þetta lagt til vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA um að ákvæði b-liðar 9. gr. tilskipunar 85/347/EBE sé ekki réttilega innleidd sem og vegna ábendinga framkvæmdastjórnar ESB sem fram hafa komið í viðræðum vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Í þriðja lagi er lagt til að dreifingaraðili beri ekki hlutlæga ábyrgð á því tjóni sem orðið hefur heldur beri hann einungis ábyrgð á tjóni sem rakið er til sakar eða vanrækslu af hálfu framleiðanda eða fyrri dreifingaraðila í aðfangakeðjunni. Er þessi breyting lögð til vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.