Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 232. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 255  —  232. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um viðbrögð
við olíumengun á norðurheimskautssvæðinu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvenær er áætlað að gerð alþjóðasamnings allra norðurskautsríkjanna um gagnkvæma aðstoð vegna olíumengunar í hafi á norðurheimskautssvæðinu verði lokið?
     2.      Er til sameiginleg viðbragðsáætlun þessara ríkja komi til olíumengunar í ljósi aukinna siglinga og olíuvinnslu á norðurslóðum?


    Á fundi aðildarríkja Norðurskautsráðsins, sem haldinn var í Reykjavík 9.–11. október sl., lauk samningaviðræðum um samstarf vegna olíumengunar í hafi á norðurslóðum. Samningurinn felur í sér gagnkvæmar skuldbindingar um að veita aðstoð vegna olíumengunar á hafi, aukið samstarf, æfingar og upplýsingamiðlun milli viðbragðsaðila á svæðinu. Samningurinn verður undirritaður á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins sem fram fer í Kiruna í Svíþjóð á næsta ári.
    Samkvæmt samningnum eru aðildarríki Norðurskautsráðsins hvert fyrir sig áfram ábyrg fyrir gerð viðbragðsáætlana og skipulagi viðbúnaðar innan eigin efnahagslögsögu. Á grundvelli samningsniðurstöðunnar er jafnframt unnið að gerð leiðbeininga sem munu fylgja samningnum og kveða á um aðgerðahluta hans og viðbragðsáætlanir utan við efnahagslögsögur ríkjanna.